Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Fyrstu störf Eyjólfs G. Guðmundssonar hjá Pósti og síma fyrir um 51 ári fólust í að flokka bréf í pósthólf fyrirtækja og einstaklinga í Pósthúsinu í Pósthússtræti, en hann hefur lagt mikið af mörkum í þróun tæknimála Póstsins. „Langskemmtilegast hefur verið að taka þátt í nýjungum, þróa nýja þjónustu.“
Hjónin Eyjólfur og Nanna Katrín Guðmundsdóttir eiga tvær dætur og tvö barnabörn. Hann var áður í tónlistarnámi og kenndi um tíma á klassískan gítar í Tónskóla Sigurjóns D. Kristinssonar, var í bílskúrsböndum og byrjaði aftur að spila um fimmtugt, m.a. í hljómsveitunum Suðursveit og Nátttröllum. „Það tók sig upp gamalt bros,“ segir hann og boðar frekari útgáfu.
Tilviljun
Í ársbyrjun 1974 tók Eyjólfur, sem nú er teymisstjóri viðskiptakerfa hjá Póstinum, sér frí frá menntaskólanámi og byrjaði að vinna hjá Pósti og síma, ætlaði sér að vera til hausts og halda þá áfram námi. „Starfslokin frestuðust um eitt ár og svo aftur um eitt ár og síðan hafa þau ekki verið á dagskrá, þótt það styttist í að ég hætti vegna aldurs.“
Fyrstu skrefin í pósthúsinu voru ekki auðveld. „Mér gekk frekar illa að muna hver væri í hvaða hólfi og þurfti gjarnan að spyrja yfirmanninn um eitt fyrirtæki. „Mundu bara eftir appelsínunum í þessu hólfi,“ sagði hann, en viðkomandi fyrirtæki flutti inn ávexti og ég gleymdi því ekki eftir þessa tengingu.“
Eyjólfur fór í Póstskólann á vinnutíma. Fræðslan fólst í bóklegu námi og vinnu á ýmsum deildum og vinnslustöðum fyrirtækisins. Þannig kynntist hann starfseminni vel. 1982 hóf hann störf við innheimtu og gíróbókhald á Póstgíróstofunni í Ármúla. „Þá sá Póstur og sími meðal annars um að innheimta orlof fyrir landsmenn,“ rifjar hann upp, en þarna kynntist hann fyrst tölvukerfum, sem þá var verið að flytja frá Skýrsluvélum ríkisins, Skýrr.
Stöðugt var unnið að nýjum útfærslum til að bæta þjónustuna. „Ég tók þátt í þeirri vinnu og svo fór að ég endaði í tölvudeildinni og datt inn í forritun,“ heldur Eyjólfur áfram. Hann hafi verið yfirbókari samfara forritunarverkefnum í nokkur ár frá 1987, unnið á Póstgíróstofunni og við forritun hjá danska gíróbankanum 1990, og haldið síðan uppteknum hætti hér heima ári síðar. „Þá byrjaði tölvuvæðing Póstsins fyrir alvöru og sett var upp afgreiðslukerfi á pósthúsum, sem ég tók virkan þátt í sem og norrænu póstgírósamstarfi,“ bendir hann á.
Póstur og sími hf. var stofnaður 1997 og þá færðist Eyjólfur alfarið yfir í tölvudeildina. Hann sinnti málum sem sneru að póstinum og tók þátt í undirbúningi fyrir nýtt upplýsingakerfi hjá fyrirtækinu. Árið eftir var því skipt upp og hann fylgdi Póstinum, þar sem hann hélt áfram uppbyggingunni með kerfi sem heitir SAP. „Það er mjög stórt hugbúnaðarverkefni svo ég var sendur í nám hjá SAP í London og var eini SAP-forritari Póstsins í yfir tíu ár.“
Eyjólfur segir að tæknimálin hafi vaxið jafnt og þétt og nú skiptist upplýsingakerfisdeildin í þrjú teymi. „Segja má að viðskiptakerfishópurinn sinni hjartanu í starfseminni og það er frábært að hafa fengið sívaxandi tækifæri til að taka þátt í þróun hjá Póstinum öll þessi ár.“ Hann segist hafa unnið með mörgu góðu fólki í gegnum tíðina og Pósturinn sé öflugt fyrirtæki. Sendibréf séu að mestu orðin rafræn en pökkum þurfi að koma fljótt og örugglega til skila. „Ég horfi alltaf til framtíðar. Aukning er í vörupöntunum landsmanna og framtíðin er í póstboxunum þótt heimsending verði auðvitað áfram kostur, sérstaklega fyrir stærri sendingar.“