Elías Jónatansson
Virkjun vatnsafls og jarðhita á Íslandi hefur skilað Íslandi óumdeildu forskoti í orkuskiptum yfir í græna orkugjafa. Þörf er á nýjum virkjunum til að viðhalda því forskoti. Það er jafnframt sjálfsögð og eðlileg áhættustýring að dreifa orkuöfluninni um landið. Staðsetning virkjana getur haft afgerandi áhrif á afhendingaröryggi raforku og dregið verulega úr kostnaði samfélagsins vegna ófyrirséðra truflana (rafmagnsleysis). Skoðum nú nokkrar staðreyndir um kostnað af straumleysi.
Mat á kostnaði vegna rekstrartruflana – START
START – starfshópur um rekstrartruflanir er samstarfsvettvangur HS veitna, Landsnets, Norðurorku, Orkubús Vestfjarða, Orkustofnunar, RARIK og Veitna um skráningu upplýsinga um rekstrartruflanir í raforkukerfinu og úrvinnslu þeirra. Hópurinn gefur út skýrslur um afhendingaröryggi raforku og metur kostnað vegna raforkuskorts, í samstarfi við verkfræðistofuna EFLU (sjá truflun.is).
Hér verður byggt á gögnum úr skýrslu hópsins frá október 2024. Sérstaklega verður skoðað hvernig kostnaðurinn skiptist hlutfallslega á landshluta, en með áherslu á Vestfirði sem eru veitusvæði Orkubús Vestfjarða.
Í skýrslunni er einungis skoðaður kostnaður af fyrirvaralausum raforkutruflunum hjá forgangsorkunotendum, en ekki kostnaður vegna skerðinga hjá þeim sem kaupa skerðanlega orku, t.d. rafkyntum hitaveitum.
Áttfaldur kostnaður á Vestfjörðum
Sem forstöðumaður þess fyrirtækis sem ber ábyrgð á dreifingu raforku á Vestfjörðum hlýt ég að staldra við þá stöðu sem Vestfirðir eru í hvað varðar kostnað vegna ófyrirséðra truflana auk kostnaðarauka vegna uppbyggingar varaafls.
Í meðfylgjandi töflu sést að kostnaður á hvern Vestfirðing vegna truflana árið 2023 er 19.810 kr. eða áttfaldur meðaltalskostnaður á hvern Íslending, sem reiknast 2.487 kr. Það er algjörlega óviðunandi, sérstaklega í ljósi þess að með réttum viðbrögðum er hægt að lækka þann kostnað um 90% með sjálfbærum hætti auk þess sem dregið yrði úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna varaaflskeyrslu um 90%. Það sem þarf að koma til eru nýjar vel staðsettar virkjanir.
Hlutfallslegur kostnaður vegna straumleysis yrði einungis 0,9 af meðaltalinu (1.981 kr./íbúa) ef virkjanirnar væru komnar í rekstur, í stað þess að vera áttfaldur meðaltalskostnaður yfir landið eða 19.810 kr. á íbúa og 142 m.kr. fyrir Vestfirði í heild. Árssparnaður á Vestfjörðum miðað við árið 2023 yrði 17.829 kr. á íbúa, eða 128 m.kr. Árið 2020 var kostnaður Vestfirðinga reyndar enn meiri, eða 332 m.kr. á verðlagi ársins, sem þýddi þá 46 þús. kr. á íbúa, þannig að heldur horfir í rétta átt.
Kostnaðurinn er tilkominn þrátt fyrir að Vestfirðir séu sá landshluti sem býr við langmesta framboð varaafls á landinu, eða 100%. Orkubúið kostaði tvo þriðju hluta þess en þriðjungur varaaflsins var byggður af Landsneti 2015 vegna afleitrar stöðu flutningskerfisins á Vestfjörðum. Varaaflið á Vestfjörðum samsvarar um 30 MW virkjun. Kostnaður við að byggja upp kerfi þar sem dísilvaraaflið er 100% viðbót er óheyrilegur og sérstaklega óviðunandi þegar vistvænir og mun hagkvæmari kostir eru fyrir hendi.
Virkjanir í héraði – hagur samfélagsins
Orkubú Vestfjarða hefur sýnt fram á að bæta má afhendingaröryggi á Vestfjörðum um 90% með byggingu tveggja virkjana. Annars vegar Kvíslatunguvirkjunar í Selárdal í Steingrímsfirði, 9,9 MW, sem vonandi verður hægt að hefja framkvæmdir við á þessu ári og gangsetja á árinu 2027. Virkjunin er sérlega mikilvæg fyrir 10% Vestfirðinga sem búa í grennd við virkjunina.
Þá hefur Orkubúið lagt til að skilmálum friðlands í Vatnsfirði við Breiðafjörð, sem er í eigu ríkisins, verði breytt til að hægt verði að taka 20-30 MW virkjunarkost þar til skoðunar í rammaáætlun. Þar er um að ræða kost sem hefði afgerandi jákvæð áhrif á raforkukerfið hjá 90% Vestfirðinga. Virkjunin getur orðið hryggjarstykkið í vestfirska raforkukerfinu og tvær fyrrnefndar virkjanir gætu, ásamt Mjólkárvirkjun, sem er 11 MW, tryggt Vestfirðingum raforku þótt tenging við meginflutningskerfið væri rofin jafnvel vikum saman. Virkjanirnar þrjár væru samtals 51 MW í uppsettu afli og með mjög góða miðlunargetu. Um leið og virkjanirnar styrkja raforkukerfi svæðisins verða þær grænt varaafl fyrir Vestfirði þegar vesturlína er straumlaus.
Landfræðileg staðsetning virkjananna gerir þær þjóðhagslega afar hagkvæmar vegna nálægðar við notendur raforkunnar og næsta tengipunkt raforkukerfisins sem er í innan við 20 km fjarlægð í hvoru tilfelli fyrir sig. Uppbygging nýrra virkjana á Vestfjörðum fellur vel að þeim markmiðum sem ný ríkisstjórn hefur sett fram og þeim áformum sem sett eru fram í stefnuyfirlýsingu um „aðgerðir til að auka orkuöflun, styrkja flutningskerfi og bæta orkunýtni þannig að stutt verði við orkuskipti og verðmætasköpun um allt land“.
Það er því alveg óhætt að svara spurningunni sem sett er fram í fyrirsögn þessarar greinar jákvætt. Virkjanir og staðsetning þeirra skipta afhendingaröryggi, samfélag og þjóðarhag afar miklu máli.
Höfundur er orkubússtjóri.