Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Utankjörfundaratkvæðin sem misfórust hjá Kópavogsbæ og urðu innlyksa þar með þeim afleiðingum að þau voru aldrei send kjörstjórn Suðvesturkjördæmis til talningar voru ekki 12-15 talsins, eins og fram kom í skriflegu svari bæjarritara Kópavogs til Morgunblaðsins og sagt var frá í blaðinu í gær. Umslögin sem innihéldu atkvæðin voru 25 talsins, skv. upplýsingum sem landskjörstjórn fékk hjá Póstinum. Það kemur fram í bréfi landskjörstjórnar til Kópavogsbæjar sem Morgunblaðið hefur undir höndum og sent var bænum í kjölfar þess að uppvíst varð að bærinn hafði ekki komið atkvæðunum til skila.
Ábending frá Póstinum
Í bréfinu kemur fram að landskjörstjórn hafi borist ábending frá Póstinum 2. desember um að þann dag hefði Pósturinn fengið 25 utankjörfundaratkvæði afhent hjá bænum. Samkvæmt upplýsingum frá Póstinum voru umrædd atkvæði sett í bakka hjá sveitarfélaginu föstudaginn 29. nóvember, en þegar póstur hafi verið sóttur til sveitarfélagsins mánudaginn 2. desember hafi verið búið að setja útsendan póst ofan á atkvæðabréfin og því hafi starfsmaður Póstsins tekið allan bunkann og atkvæðin þar með.
Landskjörstjórn vekur athygli á að skv. kosningalögum og reglugerðum á grundvelli þeirra skulu utankjörfundaratkvæði send sveitarfélagi þar sem kjósandi er á kjörskrá. Skal sveitarfélagið fyrir hönd kjörstjórnar varðveita atkvæðisbréf sem það móttekur fyrir kjördag frá kjósanda í sveitarfélaginu.
Ábyrgð sveitarfélaga mikil
Vekur landskjörstjórn athygli Kópavogsbæjar á mikilvægi þess að utankjörfundaratkvæði sem sveitarfélag tekur á móti skv. lögum berist tímanlega á rétta staði sem og að ábyrgð sveitarfélaga sé mikil í þessu efni og mikilvægt að farið sé að ákvæðum laga og reglugerða.
„Þetta er ekki óþekkt vandamál og hefur komið fyrir áður,“ segir Ástríður Jóhannesdóttir framkvæmdastjóri landskjörstjórnar í samtali við Morgunblaðið og nefnir að í þeim þrennum kosningum sem hún hefur komið að hafi komið fyrir að utankjörfundaratkvæði hafi komið of seint til talningar og ónýst.
Litið alvarlegum augum
„Landskjörstjórn lítur tilvik þegar atkvæði koma of seint til talningar alvarlegum augum. Það er lítið hægt annað að gera en að auka og viðhalda fræðslu og upplýsingagjöf og gera fólki grein fyrir hversu mikilvægt það er að atkvæði komist til skila tímanlega,“ segir hún.
Landskjörstjórn stefnir að því að skila inn umsögn til Alþingis á morgun, miðvikudag, þar sem fjallað verður um umrætt tilvik, en einnig um þær kærur og kvartanir sem borist hafa vegna framkvæmdar kosninganna í Suðvesturkjördæmi. Í framhaldinu tekur Alþingi ákvörðun um framhaldið á grundvelli umsagnar landskjörstjórnar. Hún lýtur að gildi atkvæðaseðla sem ágreiningur er um sem og kærum vegna kosninganna.
Utankjörfundaratkvæðin
Atkvæðin sett í bakka og póstur til útsendingar ofan á.
Pósturinn tók allan bunkann mánudaginn eftir kjördag.
Landskjörstjórn segir mikilvægt að farið sé að lögum og reglum.
Hefur komið fyrir áður.
Alþingi verður send umsögn landskjörstjórnar á morgun.
Alþingi ákveður framhaldið.