Palisades Vika er nú liðin frá því að gróðureldarnir blossuðu upp og glímir slökkviliðið enn við þrjá aðskilda gróðurelda í Los Angeles og nágrenni.
Palisades Vika er nú liðin frá því að gróðureldarnir blossuðu upp og glímir slökkviliðið enn við þrjá aðskilda gróðurelda í Los Angeles og nágrenni. — AFP/Josh Edelson
Slökkvilið og embættismenn í Los Angeles og nágrenni vöruðu við því í gær að von væri á miklum vindhviðum næstu daga, sem gætu aftur glætt í gróðureldunum sem leikið hafa úthverfi borgarinnar grátt. Vika er nú liðin frá því að fyrsti gróðureldurinn, …

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Slökkvilið og embættismenn í Los Angeles og nágrenni vöruðu við því í gær að von væri á miklum vindhviðum næstu daga, sem gætu aftur glætt í gróðureldunum sem leikið hafa úthverfi borgarinnar grátt.

Vika er nú liðin frá því að fyrsti gróðureldurinn, kenndur við Pacific Palisades-hverfið, blossaði upp. Slökkviliðsmenn glíma nú við þrjá aðskilda gróðurelda, þá sömu þrjá og blossuðu fyrst upp fyrir viku.

Palisades-eldurinn hefur nú lagt undir sig rúmlega 9.300 hektara lands. Hefur slökkvilið náð stjórn á 13% af ytri jaðri eldsins. Eaton-eldurinn, sem geisað hefur við borgirnar Pasadena og Altadena skammt norður af Los Angeles, hefur nú lagt undir sig um 5.700 hektara lands, og hefur slökkvilið náð 27% stjórn á eldinum. Þá hefur Hurst-eldurinn lagt undir sig um 323 hektara en slökkviliðið hefur næstum því náð stjórn á honum.

Staðfest var í gær að minnst 24 hefðu nú farist í gróðureldunum. Dánardómstjóri Los Angeles sagði í yfirlýsingu að átta þeirra hefðu farist í Palisades-eldinum og 16 í Eaton.

Nokkur árangur náðist í gær í slökkvistarfinu, þar sem vind lægði nokkuð. Rose Schoenfeld, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Bandaríkjanna, varaði hins vegar við því að í dag og á morgun myndu aftur koma upp hættulegar veðuraðstæður, þar sem gert væri ráð fyrir vindhviðum sem næðu allt að 30 m/s. Er óttast að slíkar vindhviður gætu blásið lífi í eldana og sent glóð úr þeim til óbrunninna svæða.

Anthony Marrone, slökkviliðsstjóri í Los Angeles-sýslu, sagði að slökkviliðið hefði nú fengið fjölda nýrra slökkviliðsbíla sem og aðstoð slökkviliðsmanna sem komið hefðu víða að til borgarinnar. Sagði Marrone að slökkviliðið væri reiðubúið að glíma við þær aðstæður sem gætu skapast í ofsaveðrinu næstu daga.

Bæði Kanada og Mexíkó hafa nú sent slökkviliðsmenn til Los Angeles-borgar til þess að aðstoða við slökkvistörfin þar. Þá bauðst Volodimír Selenskí Úkraínuforseti til þess á sunnudaginn að senda 150 slökkviliðsmenn til aðstoðar Kaliforníu.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson