Knattspyrnumaðurinn Eyþór Aron Wöhler er genginn til liðs við 1. deildar lið Fylks frá KR og hefur samið við Árbæjarfélagið til tveggja ára. Eyþór kom til KR frá Breiðabliki rétt eftir að síðasta tímabil hófst en náði ekki að festa sig í sessi í Vesturbænum

Knattspyrnumaðurinn Eyþór Aron Wöhler er genginn til liðs við 1. deildar lið Fylks frá KR og hefur samið við Árbæjarfélagið til tveggja ára. Eyþór kom til KR frá Breiðabliki rétt eftir að síðasta tímabil hófst en náði ekki að festa sig í sessi í Vesturbænum. Hann hefur skorað 15 mörk í 76 leikjum í efstu deild með KR, Breiðabliki, HK og ÍA en hóf ferilinn með Aftureldingu.

Ekkert verður af því að Áki Samuelsen, leikmaður HB frá Þórshöfn og færeyska 21-árs landsliðsins í knattspyrnu, gangi til liðs við Víking í Reykjavík. Færeyski netmiðillinn In.fo greindi frá því að Áki hefði í staðinn samþykkt tilboð frá norska B-deildarfélaginu Ranheim. Kaupverðið er tæpar 10 milljónir íslenskra króna.

Tómas Johannessen, leikmaður með U19 ára landsliði Íslands í knattspyrnu, varð markahæsti leikmaðurinn á unglingamóti í Göttingen í Þýskalandi sem lauk um síðustu helgi. Tómas, sem er 17 ára, leikur með AZ Alkmaar í Hollandi og kom þangað frá Gróttu fyrir ári. Hann skoraði níu mörk í níu leikjum á mótinu.

Eyjamenn, sem eru nýliðar í Bestu deildinni í knattspyrnu í ár, hafa fengið bakvörðinn Birgi Ómar Hlynsson lánaðan frá Þór á Akureyri. Birgir er 23 ára og hefur leikið allan ferilinn með Þór í 1. deildinni, m.a. tvö ár undir stjórn Þorláks Árnasonar, núverandi þjálfara ÍBV.

Simon Kjær, fyrirliði danska landsliðsins í knattspyrnu um árabil, staðfesti í gær að hann hefði lagt skóna á hilluna, 35 ára gamall. Kjær hætti með danska landsliðinu eftir EM í Þýskalandi síðasta sumar, yfirgaf AC Milan um sama leyti og hefur ekkert spilað síðan. Kjær lék 132 landsleiki fyrir Danmörku og 422 deildaleiki á löngum ferli en hann fékk háttvísiverðlaun FIFA eftir framgöngu sína þegar Christian Eriksson, liðsfélagi hans í danska landsliðinu, fór í hjartastopp á EM 2021.

Nýr leikdagur hefur loksins fundist fyrir grannaslag Everton og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu en honum var frestað 7. desember vegna veðurs. Leikurinn fer fram miðvikudagskvöldið 12. febrúar en þetta verður í síðasta sinn sem grannliðin mætast á Goodison Park þar sem Everton flytur á nýjan völl í sumar.