Sigfús Þór Magnússon fæddist 28. júní 1940. Hann lést 2. desember 2024.
Útför hans fór fram 10. janúar 2025.
Látin er kær vinur minn, Fúsi.
Ég kveð hann með söknuði og þakklæti. Við Fúsi kynntumst í Flensborgarskóla 1953 og þar kynntist ég líka henni Betu, en þau urðu seinna hjón.
Hafðu þökk fyrir skemmtilegar stundir æskunnar. Við skólasystkinin hittumst oft á kvöldin á Mánabar eða Bæjarbíói og skemmtum okkur konunglega. Brandarar flugu, sögur voru sagðar og rölt var um Strandgötuna.
Tíminn flaug „Veistu! Fúsi er kominn á bíl G-1311, frábært“ og Fúsi bauð á rúntinn.
Fúsi lærði bifvélavirkjun og allt lék í höndunum á honum. Takk fyrir fallegu kertastjakana sem prýða stofuna mína. Fúsi og Beta giftu sig og skírðu frumburðinn í leiðinni.
Mikill samgangur var á milli heimila okkar og áttum við margar yndislegar samverustundir á fallega heimilinu Fúsa og Betu í norðurbænum.
Fúsi var einstaklega hjálpsamur og duglegur, alltaf notalegur, kátur og stutt í gamansemina. „Af hverju fæ ég ekki að koma með í saumaklúbbinn?“ Svona var Fúsi.
Bílskúrinn hjá Fúsa var alltaf opinn og hann var boðinn og búinn að hjálpa hverjum þeim sem á hjálp þurfti að halda.
Ég þakka Fúsa vini mínum fyrir allt þegar hann kveður þessa jarðvist og heldur í ferðalagið í sumarlandið eilífa.
Elsku Beta og fjölskylda. Ég votta ykkur mína innilegustu samúð á kveðjustund.
Gunnlaug Jakobsdóttir (Gulla).