Konur Saga þeirra er merkileg, myndin ekki.
Konur Saga þeirra er merkileg, myndin ekki.
Það er asnastrik í heimsklassa að geta látið sögu 855 svartra kvenna snúast um ást til látins hvíts manns. Samt tekst Tyler Perry einmitt að gera það í kvikmyndinni The Six Triple Eight, sem á að byggjast á sögu kvennaherdeildarinnar 6888 í seinni heimsstyrjöld

Gunnlaugur Snær Ólafsson

Það er asnastrik í heimsklassa að geta látið sögu 855 svartra kvenna snúast um ást til látins hvíts manns. Samt tekst Tyler Perry einmitt að gera það í kvikmyndinni The Six Triple Eight, sem á að byggjast á sögu kvennaherdeildarinnar 6888 í seinni heimsstyrjöld. Ekki er orðum aukið að segja myndina vonbrigði. Leikurunum verður þó ekki kennt um, enda eru þar reynsluboltar á við Kerry Washington, Sam Waterston, Susan Sarandon og Opruh Winfrey.

Búast mátti við því að raunir kvennanna myndu litast mikið af rasisma og mótbyr eins og raunin var á þessum tíma. Perry hefur hins vegar ekki fundist sögur þessara kvenna nægilega krassandi og skáldar upp ótrúverðugan og gloppóttan söguþráð. Búinn er til herforingi sem er holdgervingur alls rasisma, virðist hann einhvers konar skopfígúra sem minnir frekar á þrælahaldara 1845. Ýkjurnar verða svo miklar að frásögnin er ósannfærandi og hreint út kómísk, raunar í svo miklum mæli að maður skellir upp úr vegna samskipta tveggja kvenna áður en þær láta lífið.

Hvað vakir fyrir einstaklingi sem telur sögu þessara merku kvenna ekki duga? Það er a.m.k. engum greiði gerður með þessari framsetningu sem frekar gerir lítið úr þessum konum.

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson