Fyrirliði Aron Pálmarsson í kröppum dansi gegn Ungverjalandi í München á Evrópumótinu í Þýskalandi á síðasta ári.
Fyrirliði Aron Pálmarsson í kröppum dansi gegn Ungverjalandi í München á Evrópumótinu í Þýskalandi á síðasta ári. — Ljósmynd/Kristján Orri
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það er kominn fiðringur í mann,“ sagði landsliðsfyrirliðinn Aron Pálmarsson í samtali við Morgunblaðið en Aron hefur ekkert æft með liðinu í aðdraganda heimsmeistaramótsins vegna meiðsla í kálfa

Fyrirliðinn

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

„Það er kominn fiðringur í mann,“ sagði landsliðsfyrirliðinn Aron Pálmarsson í samtali við Morgunblaðið en Aron hefur ekkert æft með liðinu í aðdraganda heimsmeistaramótsins vegna meiðsla í kálfa. Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari íslenska liðsins, vonast þó til þess að landsliðsfyrirliðinn verði orðinn klár í slaginn í fyrsta leik í milliriðli sem fer fram 22. janúar, takist íslenska liðinu að komast upp úr riðlinum.

„Við hittumst alltaf 2. janúar og þá áttar maður sig einhvern veginn á því hversu stutt er í þetta allt saman. Fyrir mér er þetta alltaf hápunktur ársins og þetta er alltaf jafn gaman. Við erum á miðju tímabili og þetta eru klárlega skemmtilegustu vikurnar á árinu. Það er mikið hungur í hópnum og við vitum það best sjálfir að við erum með gott lið í höndunum.

Okkur þyrstir alla í árangur en á sama tíma erum við meðvitaðir um þann árangur sem við höfum náð á síðustu mótum. Við þurfum að nálgast þetta verkefni öðruvísi núna og ætlum okkur að gera það. Yfirlýst markmið núna er að byrja á því að vinna riðilinn. Það er langt síðan við gerðum það síðast og það er markmið númer eitt, tvö og þrjú,“ sagði Aron.

Erfitt að koma því í orð

Besti árangur Íslands á undanförnum stórmótum var Evrópumótið 2022 í Ungverjalandi og Slóvakíu þar sem íslenska liðið hafnaði í 6. sæti en margir leikmenn liðsins heltust úr lestinni á því móti vegna kórónuveirufaraldursins.

„Í fyrsta lagi þurfum við einbeita okkur að þeim hlutum sem eru beint fyrir framan okkur, sem er riðlakeppnin í þessu tilfelli. Við verðum að hætta að hugsa of langt fram í tímann því heill mánuður í þessum heimi – ég tala nú ekki um þegar þú ert mættur á stórmót – er mjög langur tími þar sem margt getur gerst.

Við þurfum að skipta þessu niður og passa að fara ekki of langt fram úr okkur. Það er svo erfitt að koma því í orð hvað þarf í raun að gerast til þess að ná að toppa á þessum mótum. Einfaldasta útskýringin er sú að það þarf allt að smella. Það er mjög stutt á milli í þessu, eins og við sáum á síðasta móti, en þetta þarf að koma frá okkur leikmönnunum. Við þurfum að láta hlutina tikka og vonandi tekst það í janúar.“

Lítur vel út í dag

Aron hefur áður talað um að það skipti öllu máli að byrja vel og leikjaniðurröðun íslenska liðsins er nokkuð hentug í riðlakeppninni; liðið mætir Grænhöfðaeyjum 16. janúar, Kúbu 18. janúar og loks Slóveníu 20. janúar í líklegum úrslitaleik um efsta sæti riðilsins.

„Ef við hefðum byrjað á Slóveníu þá hefði eflaust verið talað um það að það væri gott fyrir okkur að byrja mótið á stórleik. Það er hægt að snúa öllu sér í hag í þessum íþróttum og við horfum jákvæðum augum til þessarar riðlakeppni, það er engin spurning. Við byrjum á Grænhöfðaeyjum og svo Kúbu og svo förum við vonandi inn í þennan leik gegn Slóveníu sem úrslitaleik um efsta sæti riðilsins.

Við lítum líka á þann leik sem fyrsta leik í milliriðli, ef allt gengur upp og eins og það á að gera. Það þarf svo bara að koma í ljós hvort þetta spilast þannig. Eins og staðan er í dag lítur þetta allavega vel út og við horfum jákvæðum augum til riðlakeppninnar þar sem við ætlum okkur efsta sætið í riðlinum.“

Líður vel á líkama og sál

Aron sneri aftur í atvinnumennsku í október á síðasta ári þegar hann gekk til liðs við ungverska stórliðið Veszprém en hann sneri heim eftir 14 ár í atvinnumennsku sumarið 2023 og varð Íslandsmeistari með FH síðasta vor.

„Ég er í frábæru standi en lenti í smá bakslagi með kálfann á mér milli jóla og nýárs. Þetta er samt ekkert til þess að hafa áhyggjur af og mér líður mjög vel, bæði líkamlega og andlega. Ég held satt best að segja að ég hafi sjaldan verið jafn einbeittur og fullur eldmóðs fyrir stórmót í handbolta þannig að tilhlökkunin hefur sjaldan verið meiri.“

Sigursteinn Arndal þjálfari FH fór sparlega með Aron á síðustu leiktíð og landsliðsfyrirliðinn viðurkennir að álagið sé talsvert meira í atvinnumennskunni.

„Álagið er talsvert meira. Ég kom fljótt inn í þetta og er búinn að spila frekar mikið alveg síðan ég kom. Þetta hefur gengið vel og það hefur verið hugsað vel um mig. Umhverfið og umgjörðin í Hafnarfirðinum er frábær en það er samt áhugamannaumhverfi. Úti í Ungverjalandi er ég aftur kominn í þetta atvinnumannaumhverfi og það hentar mér aðeins betur.“

Fyrirliðinn fullur eldmóðs

Landsliðsfyrirliðinn er sá eini í hópnum í dag, ásamt Björgvini Páli Gústavssyni, sem var í bronsliði Íslands á Evrópumótinu árið 2010 í Austurríki.

„Það hefur verið risastórt markmið hjá mér persónulega, alveg frá því að við unnum til bronsverðlauna árið 2010, að vinna aftur til verðlauna með landsliðinu. Ég hef sagt það áður að ég held að ég hafi sjaldan verið jafn fullur eldmóðs þegar kemur að því að afreka eitthvað, bæði með félagsliðinu mínu og auðvitað landsliðinu, eins og ég er í dag.

Við erum búin að tala um það núna í nokkur ár að við erum með mjög gott landslið í höndunum. Við erum með leikmenn sem eru í stórum hlutverkum í Meistaradeildinni til dæmis og það er fyrst og fremst undir okkur sjálfum komið að koma okkur á þann stað sem við teljum okkur eiga heima á,“ bætti landsliðsfyrirliðinn Aron Pálmarsson við í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Bjarni Helgason