Kjarni Ýmir Örn Gíslason, Elliði Snær Viðarsson, Björgvin Páll Gústavsson og Elvar Örn Jónsson fagna sigri gegn Brasilíu í lokaleik Íslands á HM í Svíþjóð og Póllandi í janúar árið 2023.
Kjarni Ýmir Örn Gíslason, Elliði Snær Viðarsson, Björgvin Páll Gústavsson og Elvar Örn Jónsson fagna sigri gegn Brasilíu í lokaleik Íslands á HM í Svíþjóð og Póllandi í janúar árið 2023. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenska liðið er á leið á sitt 23. heimsmeistaramót og eru væntingarnar til liðsins ekki þær sömu og á síðasta heimsmeistaramóti sem fram fór í Póllandi og Svíþjóð árið 2023. Snorri Steinn Guðjónsson er tekinn við þjálfun liðsins en Guðmundur…

Ísland á HM

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Íslenska liðið er á leið á sitt 23. heimsmeistaramót og eru væntingarnar til liðsins ekki þær sömu og á síðasta heimsmeistaramóti sem fram fór í Póllandi og Svíþjóð árið 2023.

Snorri Steinn Guðjónsson er tekinn við þjálfun liðsins en Guðmundur Þórður Guðmundsson stýrði liðinu á síðasta móti sem reyndist hans síðasta stórmót með liðið.

Miklar væntingar voru gerðar til liðsins fyrir HM 2023 en kjarninn í leikmannahópnum í ár er nánast sá sami og á síðustu stórmótum.

Arnar Freyr Arnarsson, Aron Pálmarsson, Bjarki Már Elísson, Björgvin Páll Gústavsson, Elliði Snær Viðarsson, Elvar Örn Jónsson, Gísli Þorgeir Kristjánsson, Janus Daði Smárason, Óðinn Þór Ríkharðsson, Sigvaldi Björn Guðjónsson, Viggó Kristjánsson, Viktor Gísli Hallgrímsson og Ýmir Örn Gíslason voru allir í leikmannahópi Íslands í Svíþjóð og Póllandi.

Allir þrettán leikmennirnir voru einnig í lokahópi Íslands á Evrópumótinu í Þýskalandi á síðasta ári ásamt þeim Einari Þorsteini Ólafssyni og Hauki Þrastarsyni. Þeir Orri Freyr Þorkelsson, Teitur Örn Einarsson og Þorsteinn Leó Gunnarsson koma svo inn í hópinn en Teitur Örn var reyndar kallaður inn í hópinn á Evrópumótinu í Þýskalandi eftir að Kristján Örn Kristjánsson veiktist en Teitur Örn kom lítið sem ekkert við sögu á mótinu.

Íslenska liðið verður hins vegar án Ómars Inga Magnússonar, leikmanns Magdeburgar í Þýskalandi, en hann hefur verið einn fremsti handboltamaður þjóðarinnar undanfarin ár. Ómar Ingi meiddist á ökkla í leik með Magdeburg í desember og er óvíst hvenær hann snýr aftur á völlinn. Hann á að baki 88 A-landsleiki og hefur skorað í þeim 317 mörk en heimsmeistaramótið í Króatíu, Danmörku og Noregi hefði verið áttunda stórmót Ómars Inga.

Vonbrigði síðustu ár

Íslenska liðið hafnaði í 10. sæti á síðasta Evrópumóti. Í riðlakeppninni í München, þar sem liðið hafnaði í öðru sæti riðilsins, gerði Ísland jafntefli við Serbíu, 27:27, vann eins marks sigur gegn Svartfjallalandi, 31:30, og tapaði stórt fyrir Ungverjalandi í úrslitaleik um efsta sæti riðilsins, 33:25.

Í milliriðlakeppninni í Köln tapaði liðið svo naumlega fyrir Þýskalandi, 26:24, tapaði fyrir Frakklandi, 39:32, vann Króatíu í fyrsta sinn á stórmóti 35:30 og vann Austurríki í lokaleik milliriðilsins, 26:24. Íslenska liðið náði ekki markmiðum sínum á EM sem var að tryggja sér keppnisrétt í undankeppni Ólympíuleikanna sem fram fóru í París í Frakklandi síðasta sumar.

Niðurstaðan á síðasta heimsmeistaramóti reyndist 12. sætið. Ísland hafnaði í 2. sæti riðilsins í Kristianstad eftir sigur gegn Portúgal, 30:26, tap gegn Ungverjalandi, 30:28, og sigur gegn Suður-Kóreu, 38:25.

Í milliriðlinum í Gautaborg vann Ísland stórsigur gegn Grænhöfðaeyjum, 40:30, tapaði fyrir Svíþjóð, 35:30, og vann svo Brasilíu í lokaleiknum 41:37.

Gengið betra á EM en HM

Íslenska liðinu hefur gengið talsvert betur á Evrópumótum en á heimsmeistaramótum í gegnum tíðina þrátt fyrir að Evrópumótið sé talið sterkara mót en heimsmeistaramótið. Besti árangur Íslands á HM var í Japan árið 1997 þegar íslenska liðið hafnaði í 5. sæti. Ísland vann þá þriggja marka sigur gegn Egyptalandi í leik um fimmta sætið, 23:20.

Þá hefur liðið þrívegis hafnað í sjötta sæti á HM, árið 1961 í Vestur-Þýskalandi, árið 1986 í Sviss og árið 2011 í Svíþjóð. Besti árangur Íslands á síðustu sex heimsmeistaramótum er ellefta sætið, í Katar árið 2015 og í Danmörku og Þýskalandi árið 2019. Versti árangur Íslands á HM var í Egyptalandi fyrir fjórum árum, 2021.

Besti árangur Íslands á Evrópumóti er hins vegar í Austurríki árið 2010 þar sem Ísland hafnaði í þriðja sæti eftir sigur gegn Póllandi í leik um bronsið í Vínarborg, 29:26.

Þeir Aron Pálmarsson og Björgvin Páll Gústavsson eru einu leikmennirnir, í núverandi leikmannahópi Íslands, sem tóku þátt í mótinu en landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson var einnig í hópi Íslands í Austurríki og stýrði þar sóknarleiknum. Þá var Óskar Bjarni Óskarsson einnig í þjálfarateyminu líkt og nú.

Þá hafnaði Ísland í fjórða sæti á EM 2002 í Svíþjóð þar sem liðið tapaði fyrir Danmörku í leik um bronsið í Stokkhólmi, 29:22. Ísland hafnaði í fimmta sæti á EM 2014 í Danmörku þar sem liðið hafði betur gegn Póllandi, 28:27, í leik um fimmta sætið í Herning þar sem Björgvin Páll stóð á milli stanganna hjá Íslandi og Snorri Steinn skoraði átta mörk í leiknum.

Hópurinn verið lengi saman

Eins og áður hefur komið fram hefur kjarninn í leikmannahópi íslenska liðsins verið lengi saman. Þeir Arnar Freyr, Aron, Bjarki Már, Björgvin Páll, Elliði Snær, Elvar Örn, Gísli Þorgeir, Janus Daði, Sigvaldi Björn, Viggó, Viktor Gísli og Ýmir Örn voru allir í leikmannahópi Íslands á HM 2021 í Egyptalandi.

Fyrir Evrópumótið 2020, sem fram fór í Austurríki, Noregi og Svíþjóð, voru þeir Arnar Freyr, Aron, Bjarki Már, Björgvin Páll, Elvar Örn, Haukur Þrastarson, Janus Daði, Sigvaldi Björn, Viggó og Viktor Gísli einnig í hópnum.

Á síðustu fimm árum náði Ísland sínum besta árangri á stórmóti á Evrópumótinu í Ungverjalandi og Slóvakíu árið 2020. Þar hafnaði íslenska liðið í sjötta sæti eftir að hafa unnið alla leiki sína í riðlakeppninni í Búdapest gegn Portúgal, 28:24, gegn Hollandi, 29:28, og loks gegn Ungverjalandi, 31:30.

Í milliriðlinum í Búdapest tapaði Ísland fyrir Danmörku, 28:24, vann frækinn sigur gegn Frakklandi, 29:21, tapaði naumlega fyrir Króatíu, 23:22, og vann svo Svartfjallaland í lokaleik milliriðilsins, 34:24. Ísland mætti loks Noregi í leik um fimmta sætið og þar voru það Norðmenn sem fögnuðu sigri eftir framlengingu, 34:33.

Höf.: Bjarni Helgason