Sigríður Kristín Bjarnadóttir fæddist í Hafnarfirði 9. ágúst 1926. Hún lést á Sólvangi 11. desember 2024.

Foreldrar hennar voru Bjarni Erlendsson, f. 30.3. 1881, d. 4.12. 1972, og Margrét Magnúsdóttir, f. 22.5. 1889, d. 21.6. 1960. Systkini eru Kristbjörg, f. 4.4. 1920, d. 18.10. 2013, og tvíburabróðir Sigríðar, Guðjón Erlendur, f. 9.8. 1926, d. 13.10. 1965.

Sigríður Kristín ólst upp í Víðistöðum í Hafnarfirði þar sem foreldrar hennar höfðu byggt sér býli árið 1918. Sigríður Kristín var jafnan nefnd Kristín eða Stína.

Í heimahúsum lagði Kristín stund á hannyrðir, sérstaklega útsaum, og liggja eftir hana mörg verk á því sviði. Hún hóf ung skrifstofustörf á Hótel Borg í Reykjavík og starfaði þar í sjö ár, áður en hún var ráðin til starfa í bandaríska sendiráðinu árið 1953. Hún vann í móttöku og sinnti ýmsum verkefnum það 31 ár sem hún starfaði þar.

Sigríður Kristín giftist Garðari Guðmundssyni, f. 17.10. 1919, d. 3.3. 1991. Þau voru barnlaus. Hún hætti störfum hjá sendiráðinu árið 1984 eftir að maður hennar veiktist. Kristín og Garðar bjuggu í Bólstaðarhlíð 52, en eftir að hann lést flutti hún á Hraunvang í Hafnarfirði þar sem hún bjó í tæpa tvo áratugi. Síðustu tvö ár bjó Kristín á hjúkrunarheimilinu Sólvangi.

Útför Sigríðar fer fram frá Víðistaðakirkju í dag, 14. janúar 2025, kl. 13.

Stína frænka ólst upp í Víðistöðum í Hafnarfirði. Foreldrar hennar Bjarni og Margrét áttu 4 kýr, 2 hesta og hænur, seldu egg og kjúklinga og ræktuðu kartöflur. Faðir Stínu sinnti veðurathugunum fyrir Veðurstofu Íslands 1933-1968 auk annarra starfa.

Stína var mjög grannvaxin og með snúinn fót frá fæðingu og var lítt fallin til útiverka. Hún lagði því mikla rækt við hannyrðir, sérstaklega útsaum. Eftir að móðir Stínu lést árið 1960 hélt hún heimili fyrir föður sinn í Víðistöðum. Guðjón tvíburabróðir Stínu lést fyrir aldur fram árið 1965.

Stína giftist Garðari Guðmundssyni 23. nóvember 1968 og þau fluttu í nýja íbúð í Bólstaðarhlíð 52. Þau innréttuðu fallegt og smekklegt heimili þar sem fágaður stíll Stínu naut sín vel. Hún hafði gott auga fyrir fallegum hlutum og húsgögnum sem hún jafnvel kom með frá útlöndum. Eftir að hafa komið sér vel fyrir reistu þau sér sumarbústað í Þrastarskógi og nefndu Víðilund. Þar eyddu þau mörgum stundum, tóku á móti fjölda gesta og veittu beina. Þótt ekki væri gert ráð fyrir Stínu í heyskap eða kartöflurækt í Víðistöðum, gekk hún í öll útiverk þegar hún hafði eignast sumarhús; hún olíubar við og gróðursetti plöntur. Síðasta ferðin í Víðilund var á 90 ára afmælinu.

Stína starfaði í sjö ár við skrifstofustörf á Hótel Borg í Reykjavík og hafði alla tíð sterkar taugar þangað. Frá 1953 vann hún í afgreiðslu og móttöku bandaríska sendiráðsins við Laufásveg. Þar naut hún sín vel og átti góða og kæra vini. Hún hélt þeim veislur, ýmist heima eða í sumarbústaðnum. Hún lærði að elda kalkún sem varð hátíðarmatur hennar.

Auk þess að njóta lífsins í Víðilundi ferðuðust þau Garðar víða og voru Kanarí og Spánn í uppáhaldi. Fram á síðasta dag talaði Stína um að skreppa til útlanda. Síðasta utanlandsferðin var til Aberdeen, en þar hafði Bjarni faðir hennar dvalið við nám og vinnu hjá Bookless-bræðrum sem síðar höfðu umsvif í Hafnarfirði. Stína hafði mikla ánægju af að heimsækja hans fornu slóðir.

Stínu var jafnan umhugað um velferð sinna nánustu og gaf lengi vel afmælis- og jólagjafir. Hún safnaði saman fjölskyldunni frá Víðistöðum í glæsileg matarboð heima hjá sér og í Víðilundi.

Eftir að Garðar veiktist alvarlega hætti Stína fljótlega störfum hjá sendiráðinu og helgaði sig umönnun hans heima við, en að lokum dvaldi hann á sjúkrahúsi þar sem hann lést árið 1991. Nokkrum árum síðar flutti Stína að Hraunvangi 3, í íbúð fyrir aldraða við Hrafnistu í Hafnarfirði og bjó þar í tæp 20 ár. Þá flutti hún að Sólvangi og naut góðrar umönnunar og félagsskapar tvö síðustu árin.

Stína var alla tíð mjög sjálfstæð og dugleg miðað við líkamlegan styrk. Hún var skapmikil og lét fólk heyra skoðun sína umbúðalaust. Hún var formföst og siðavönd, kunni etikettuna og setti ofan í við fólk ef henni fannst þörf á. En hún var líka trygglynd, fyndin og skemmtileg í góðra vina hópi og átti marga vini. Tvær vinkvenna hennar giftust til Ameríku og þær héldu nánu sambandi alla tíð.

Að leiðarlokum þökkum við Helga Stínu frænku fyrir áratuga vináttu og góð samskipti.

Magnús Guðmundsson.