Ragnar Þorsteinsson er fæddur 14. janúar 1955 í Reykjavík og ólst þar að mestu leyti upp.
„Á tímabili bjó ég í Ólafsvík með fjölskyldu minni og kynntist þar fyrst kindum, sauðburði, heyskap og smalamennsku sem mér þótti einstaklega skemmtilegt. Það var líka frábært verandi tíu til tólf ára gutti að fá pening í vasann sem háseti á trillu hjá nafna mínum Ragnari Sæmundssyni.“
Ragnar lauk gagnfræðaskólaprófi frá Hagaskóla vorið 1970 og útskrifaðist sem búfræðingur frá Hólum í Hjaltadal 1974. Á þessum árum starfaði hann m.a. sem háseti og smyrjari á síðutogaranum Júpíter RE 161 og sem rótari hjá popphljómsveitum.
Sumarið 1975 giftu Ragnar og Hólmfríður sig og keyptu jörðina Sýrnes í Aðaldal, S-Þingeyjarsýslu, og hafa búið þar síðan. Nú í sumar koma þau því til með að fagna 50 ára brúðkaupsafmæli og 50 ára búsetu sem bændur í Sýrnesi. Þar hafa þau rekið myndarlegt og snyrtilegt sauðfjárbú sem verið hefur eitt af þeim afurðahæstu í sýslunni undanfarin ár. „Auk sauðfjárbúskapar stunduðum við nautakjötsframleiðslu til ársins 2004 og gerðum tilraun með ræktun hamps á árunum 2020-2022. Í Sýrnesvatni og Eyvindarlæk er silungs- og laxveiði sem er góð búbót og nýtt bæði sumar og vetur.“
Sauðfjárbúskapur hefur verið aðalstarf Ragnars en engu að síður hefur hann unnið utan bús hjá bændum og við akstur flutningabíla, smíðar og viðhald húsa, ásamt ýmissi tölvu- og ljósmyndavinnu.
Ragnar var einn af stofnendum Leikfélagsins Búkollu og gegndi þar formennsku um tíma en einnig gegndi hann formennsku í Félagi sauðfjárbænda í S-Þingeyjarsýslu, Búnaðarfélagi Aðaldæla, Búnaðarsambandi S-Þingeyinga og Veiðifélagi Reykjadalsár og Eyvindarlækjar. Árið 2005 kom út þriðja útgáfa af Byggðasögu Suður-Þingeyinga, í daglegu tali nefnd „Búkolla“, og var Ragnar höfundur, framkvæmdastjóri og hönnuður þeirrar bókar sem gefin var út í tveimur bindum með 1.441 blaðsíðu og 1.243 ljósmyndum.
Síðastliðin ellefu ár hefur Ragnar hannað, ljósmyndað og gefið út sérstök lambadagatöl með myndum af fallegum mislitum, krúttlegum unglömbum, áður en þau eru mörkuð. Þau eru mynduð úti í náttúrunni ýmist ein, með systkinum sínum eða móður. Í ár er í fyrsta sinn fimmlembd ær með lömbin sín á dagatalinu, systir hennar fjórlembd var á dagatalinu 2024. „Það hafa ekki áður verið gerðar svona ljósmyndaseríur af íslenskum unglömbum og dagatalið er eingöngu selt beint frá býli á www.facebook.com/lambidmitt eða hafa samband við mig.
Lambadagatölin hafa fengið mjög góðar viðtökur og lof fyrir einstaklega fallegar myndir en megintilgangur útgáfunnar er að breiða út fegurð og fjölbreytileika íslensku sauðkindarinnar og minna á að án hennar, sem hefur séð okkur fyrir mat og hita frá landnámstíð, værum við tæplega til sem þjóð í dag.“
Fjölskylda
Eiginkona Ragnars er Þ. Hólmfríður Kristjánsdótttir, f. 16.11. 1952, bóndi í Sýrnesi. Foreldrar hennar voru hjónin Kristján Blær Ásmundsson frá Lindahlíð í Aðaldal, f. 28.10. 1925, d. 4.3. 2016, vörubifreiðarstjóri og bóndi, og Hulda Jónasdóttir frá Fagranesi í Aðaldal, f. 12.12. 1929, d. 15.9. 2024, bóndi og húsfreyja í Lindahlíð.
Dóttir Ragnars og Hólmfríðar er Hulda Ösp leikskólakennari, f. 29.6. 1978. Hún er gift Guðlaugi Jóhannessyni stjarneðlisfræðingi, f. 11.6. 1978. Börn þeirra eru Arney Ósk jarðeðlisfræðingur, f. 7.10. 1999, Eyþór Blær matvælafræðingur, f. 20.5. 2002 og Jóhannes Ragnar nemi í MR, f. 3.10. 2008.
Systkini Ragnars eru Gestur verkstjóri, f. 17.12. 1949, Svava kennari, f. 6.11. 1952 og Ársæll verkfræðingur, f. 15.12. 1960.
Foreldrar Ragnars voru hjónin Þorsteinn Ársælsson, f. 28.6. 1924 í Reykjavík, d. 26.7. 2002, vélstjóri, járnsmiður og framkvæmdastjóri fiskimjölsverksmiðju í Ólafsvík 1962-1966, og Sjöfn Gestsdóttir, f. 7.3. 1925 á Siglufirði, d. 29.5. 2011, verkakona og húsmóðir í Reykjavík og Ólafsvík.