Sigrún Óskarsdóttir fæddist í Reykjavík 26. júlí 1937. Hún lést á hjúkrunarheimili Hrafnistu á Sléttuvegi í Reykjavík 25. desember 2024.
Foreldrar hennar voru Óskar Gunnlaugur Steinþórsson bifreiðarstjóri, f. 1913, d. 2002, og Guðfinna Svanborg Sigurðardóttir húsmóðir, f. 1912, d. 2002.
Sigrún var næstelst fjögurra systkina. Elstur var Stefán Þór, f. 1934, d. 2023, og á eftir Sigrúnu komu Helga, f. 1942, d. 1989, og Óskar Árni, f. 1950.
Sigrún var tvígift. Fyrri maður hennar var Garðar Karlsson vélstjóri, f. 1935, d. 2024. Börn þeirra eru Karl, f. 2.7. 1960, kvæntur Irynu Novakovska. Barn þeirra er Lilja, f. 2017. Börn Karls og Lindu B. Loftsdóttur eru Helena, f. 1990 og Steinar, f. 1993. Óskar, f. 25.4. 1963, d. 4.9. 2015. Óskar var kvæntur Hörpu Norðdahl Arnardóttur. Barn hans og Steinunnar Guðbjörnsdóttur er Sigrún Eva, f. 1987 og barn hans og Steinunnar Ástu Finnsdóttur er Inga, f. 1995. Sigríður Anna, f. 26.10. 1970, en hún er gift Þórarni Guðjónssyni. Börn þeirra eru Hrannar, f. 1998, Arnar, f. 2006 og Sigrún Erla, f. 2008.
Seinni eiginmaður Sigrúnar var Jónatan Einarsson, f. 1928, d. 2015, framkvæmdastjóri frá Bolungarvík. Þau bjuggu í Reykjavík. Börn Jónatans og fyrri konu hans, Höllu P. Kristjánsdóttur, f. 1930, d. 1992, eru Einar, Ester, Kristján, Elías og Heimir Salvar.
Sigrún ólst upp í miðborg Reykjavíkur, á Bergstaðastræti, þar sem fjölskyldan bjó. Hún gekk í Miðbæjarskólann sem þá var barnaskóli og síðan Gagnfræðaskóla Austurbæjar. Að loknu námi starfaði hún hjá ýmsum fyrirtækjum í miðborginni, m.a. Agli Guttormssyni heildsala og á skrifstofu G. Þorsteinsson og Johnson hf. sem stundaði innflutning. Lengst af starfaði Sigrún hins vegar hjá Domus Medica við símavörslu, auk þess sem hún var trúnaðarmaður starfsmanna. Þá var hún virk í Kvenfélagi Kópavogs um tíma.
Útför Sigrúnar fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 14. janúar 2025, klukkan 13.
Á jóladag lauk lífi yndislegrar konu, Sigrúnar Óskarsdóttur, eftir erfið veikindi.
Hún var fáguð og glæsileg, glaðleg og alúðleg konan sem faðir okkar Jónatan Einarsson kynnti fyrir okkur um miðjan 10. áratuginn. Nokkrum árum áður hafði fjölskyldan okkar upplifað sáran missi og mikla sorg er móðir okkar féll frá. Það var honum og okkur einstaklega dýrmætt að hann eignaðist nýjan lífsförunaut. Bæði áttu þau fyrir stórar fjölskyldur og marga afkomendur. En kærleikur og velvild þeirra í garð hvort annars og okkar allra sem þeim tengdust voru okkur öllum ljós. Virðing þeirra og tillitssemi leiddi til farsæls og gefandi sambands okkar allra. Fyrir þau voru trygglyndi, hlýhugur og skilningur stórfjölskyldnanna afar dýrmæt.
Heimilið sem þau eignuðust í Hörgshlíðinni og síðar á Sléttuveginum var einstaklega fallegt, öllu vel og smekklega komið fyrir og andrúmsloftið gott. Þangað vorum við alltaf innilega velkomin í notalegt spjall eða rausnarlegar veislur. Hátíðahöld og árleg jólaboð með fjölskyldum þeirra beggja skilja eftir fallegar og ljúfar minningar fyrir okkur, ekki síst börnin okkar. Margar dýrmætar stundir áttum við með þeim á heimilum okkar systkinanna. Þegar við lítum til baka er ljúft að rifja upp alla þá viðburði og áfanga í lífi okkar sem þau tóku þátt í bæði hér og heima í Bolungarvík.
Sigrún og pabbi áttu mörg góð ár saman. Þau ferðuðust innanlands sem utan, stundum ein en einnig með börnum sínum og barnabörnum. Heim til Bolungarvíkur fóru þau oft og dvöldu í lengri og skemmri tíma.
Æskuár Sigrúnar voru við upphaf heimsstyrjaldar og hersetu. Efni voru ekki mikil en foreldrar hennar voru mikið dugnaðarfólk og héldu vel og fallega utan um fjölskyldu sína. Það var áhugavert að hlusta á Sigrúnu segja frá æsku sinni og uppvexti. Sagan um litlu stúlkuna sem ferðaðist ein með skipi til Þingeyrar til að fara í vist í Dýrafirðinum er ógleymanleg.
Þegar pabbi okkar greindist með alzheimer tóku við breyttir tímar. Sjúkdómurinn var hæggengur í fyrstu og þau gátu áfram notið ýmissa lífsins gæða. Smám saman urðu áhrifin erfiðari og meiri. Hlutverk Sigrúnar var gríðarstórt í umönnun og þjónustu. Enginn getur sett sig í slík spor sem ekki hefur sjálfur reynt. Við systkinin getum aldrei fullþakkað Sigrúnu fyrir umhyggju hennar og kærleika. Aðeins örskömmu eftir andlát föður okkar urðu Sigrún og fjölskylda hennar öll fyrir miklu áfalli og sorg þegar sonur hennar Óskar lést af slysförum langt um aldur fram. Það reyndi mikið á og hafði mikil áhrif á líf Sigrúnar.
Síðustu árin hefur Sigrún dvalist á hjúkrunarheimili og heilsu hennar hrakað jafnt og þétt. Í veikindum sínum hefur hún notið einstakrar umhyggju barna sinna og fjölskyldna þeirra.
Með söknuði og einlægu þakklæti fyrir gefandi og góða samfylgd kveðjum við okkar kæru Sigrúnu.
Elsku Sigga, Kalli, Sigrún Eva, Inga og fjölskyldur ykkar, við systkinin og fjölskyldur okkar vottum ykkur einlæga samúð og biðjum þess að góðar minningar um yndislega móður, tengdamóður og ömmu muni ylja ykkur öllum.
Ester Jónatansdóttir.
Þegar mamma kvaddi á jóladag hékk lítil mynd yfir rúmi hennar. Á myndinni er hún um tíu ára gömul, ásamt systkinum sínum. Mamma er fullorðinsleg og brosir fallega og það er birta í augunum. Sítt dökkt hárið fellur niður á axlirnar og þau eru öll uppáklædd. Þetta er minning um veröld sem var, tíma sakleysis og vonar. Tíma umbreytinga í lok síðari heimsstyrjaldar. Barnæskan að víkja fyrir alvöru fullorðinsáranna.
Ég man þá tíma þegar við bjuggum í höllinni í Kópavogi. Í huga fimm ára barns var litla 55 fermetra kjallaraíbúðin sannkölluð höll og það þótt aðeins væri eitt svefnherbergi til staðar þar sem við Óskar sváfum hjá foreldrum okkar. Árið var 1965 og fátæklegt og fámennt bæjarfélag var að taka á sig mynd. Þangað fluttu barnafjölskyldur sem höfðu lítið milli handanna. Ég man hvað mamma, sem var um 25 ára, var glöð með fyrstu íbúðina, man eftir litla eldhúsinu og stofunni og matarlyktinni sem umlukti allt. Man hvað henni þótti vænt um okkur Óskar og hugsaði vel um okkur. Í minningunni var alltaf sól og gott veður, alltaf mikill gestagangur, hlátur og umhyggja. Heimurinn var lítill, áhyggjurnar fáar.
Stundum koma myndir upp í hugann og hverfa jafnhraðan aftur. Það sem við höfum upplifað síðustu áratugina verður skyndilega ljóslifandi. Aðfangadagur hjá ömmu og afa í Skipholtinu þar sem öll fjölskylda mömmu kom saman, ferðirnar norður í land á hverju sumri, bros mömmu og umhyggja við fæðingu barnabarna, ferðalög til fjarlægra slóða, fyrst með pabba og síðan með Jónatan. Allir atburðir, stórir sem smáir, fá á sig nýja merkingu og verða mikilvægir. Hvað sem gekk á stóð mamma stóð ætíð við hlið okkar, var alltaf tilbúin til að hlusta, fyrirgefa og styðja.
Lífið er eitt andartak í eilífðinni. Eins og dropi sem fellur til jarðar og hverfur síðan. Mamma átti góðar stundir og erfiðar. Lífið er ófyrirsjáanlegt þar sem gleði eins dags getur breyst í óbærilega í sorg þann næsta. Að missa eiginmann sinn og síðan son með hálfs mánaðar millibili árið 2015 er meira en hægt er að leggja á eina manneskju. Það á ekkert foreldri að þurfa að jarða barn sitt. Líf mömmu breyttist mikið þegar Jónatan og Óskar dóu og varð aldrei samt. Smám saman dofnaði lífsneistinn og alvarleg veikindi höfðu sín áhrif á árin sem hún lifði.
Elsku mamma. Ég mun sakna þín óendanlega mikið. Allar góðu stundirnar verða varðveittar í hjarta mínu. Við munum hittast aftur þegar sá tími kemur. Þangað til munt þú vaka yfir okkur og gæta. Þú ert komin heim og hefur fengið þann frið sem þú áttir svo sannarlega skilið.
Guð blessi þig og varðveiti.
Karl Garðarsson.
Sigrún Óskarsdóttir tengdamóðir mín lést á jóladag eftir erfið veikindi undanfarin ár. Ég kom inn í fjölskylduna 1987 og það er því óraunverulegt að hugsa til þess að hún sé farin. Sigrún vann um árabil hjá Domus Medica sem móttökuritari auk þess sem hún var trúnaðarmaður starfsmanna um árabil. Það er margs að minnast eins og t.d. heimsókna hennar og Jónatans eiginmanns hennar til okkar Siggu til Kaupmannahafnar þar sem við bjuggum um árabil. Sigrún kynntist Jónatan Einarssyni í kringum 1990 og áttu þau skemmtilegan tíma saman bæði hérlendis sem og erlendis. Jónatan var Bolvíkingur og áttum við margar góðar heimsóknir þangað og nutum gestrisni Jónatans og barna hans. Jónatan lést haustið 2015 eftir erfið veikindi við Alzheimer-sjúkdóminn. Stuttu eftir fráfall Jónatans lést Óskar sonur Sigrúnar af slysförum. Frá þeim tíma var brekkan brött fyrir Sigrúnu og auk þess höfðu heilablóðföll mikil áhrif á líkamlega og andlega heilsu hennar. Ég kveð Sigrúnu með söknuði um leið og ég votta Siggu minni og Kalla bróður hennar mína dýpstu samúð. Megi minningin lifa um yndislega móður og ömmu.
Þórarinn Guðjónsson.
Á kveðjustund Sigrúnar, fyrrverandi mágkonu minnar, streyma minningar fram sem ylja. Hún kom í fjölskylduna með Garðari bróður mínum ung og vingjarnleg kona. Mér leist strax vel á hana, ekki síst fyrir það að hún gaf sig alltaf að mér og spjallaði við mig eins og fullorðna manneskju þótt ég væri bara stelpukrakki. Mér fannst áhugavert að heyra hana segja frá ýmsu í höfuðborginni en hún var sannkölluð Reykjavíkurdama, alin upp í miðbænum. Hún sagði meðal annars frá skólagöngu sinni og leikfélögum ásamt ýmsum uppátækjum þeirra. Mér fannst athyglisvert að heyra hana segja frá hernáminu og hermönnunum sem gengu um götur Reykjavíkur. Þetta var svo framandi og skrýtið, líktist helst einhverju í útlöndum.
Sigrún reyndist mér vel og er ég henni og bróður mínum mjög þakklát fyrir að opna heimili sitt fyrir mér þegar ég hóf nám við Kennaraskólann 1968. Ég var hjá þeim einn vetur og vinátta okkar Sigrúnar var mér mikils virði. Alltaf hafði hún tíma til að spjalla og gefa góð ráð. Hún var góð fyrirmynd sem fagurkeri og sérlega snyrtileg húsmóðir.
Þó að samverustundum okkar hafi fækkað hin síðari ár af ýmsum ástæðum heyrðumst við lengi vel á sameiginlegum afmælisdegi og var það notalegt.
Með þakklæti í huga kveð ég Sigrúnu og votta Karli, Sigríði Önnu, dætrum Óskars Arnar og fjölskyldum þeirra allra mína dýpstu samúð.
Jóhanna Karlsdóttir.