Pétur Blöndal
p.blondal@gmail.com
Ingólfur Ómar Ármannsson sendi þættinum sléttubönd, sem eru þeirrar náttúru, að einnig er hægt að fara með þau afturábak:
Glaður eirir, hvergi hér
hróður lakan mælir.
Þvaður hunsar, síður sér
sjálfum mikið hælir.
Og afturábak:
Hælir mikið sjálfum sér
síður hunsar þvaður.
Mælir lakan hróður hér
hvergi eirir glaður.
Fía á Sandi, Hólmfríður Bjartmarsdóttir, slær á létta strengi:
Át ég flís af feitum sauð
sem fór í reyk með ánum.
Nú er gamla grýla dauð
hún greiddi ekki af lánum.
Ásmundur Orri Guðmundsson kastar fram:
Allt er nú mitt horfið hár
huga til þess renni.
Að eftir rétt tæp tíu ár
telst ég gamalmenni.
Þá Jón Jens Kristjánsson:
Hringd var loksins hátíð inn
hér mun ég liggja flatur
nú er ég kátur, nafni minn
nú er að koma matur.
Þetta kvað skáldið Jón Þorláksson á Bægisá yfir kjötfati á Skriðu:
Löngum á eg þátt í því,
að þykja góður bitinn;
kjöti getinn er eg í;
út af kjöti slitinn;
kjötlaus fell þó frá;
þegar eg rís aftur upp
ei mun kjöt að fá,
geymið þér mér feitan hupp
hólpinn er eg þá.
Anton Helgi Jónsson hvetur fólk til að muna eftir smáfuglunum:
Snjótittlingur veitir von í vetrarfrosti.
Senn mun kveðja sút með hasti
sólskríkja í hláturskasti.
Að síðustu sígild limra eftir Björn Ingólfsson:
Þegar kýrnar á Útsynningsöldu
komu arkandi á síðdegi köldu
sagði Hyrna: „Mér gremst
þegar Grána fer fremst
því þá gengur hún fram fyrir Skjöldu.“