[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Aron Pálmarsson – 4 Aron, sem er 34 ára gamall, er samningsbundinn Veszprém í ungversku 1. deildinni en hann gekk til liðs við félagið frá uppeldisfélagi sínu FH í október á síðasta ári. Hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir FH árið 2005

Aron Pálmarsson – 4

Aron, sem er 34 ára gamall, er samningsbundinn Veszprém í ungversku 1. deildinni en hann gekk til liðs við félagið frá uppeldisfélagi sínu FH í október á síðasta ári.

Hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir FH árið 2005. Hann gekk til liðs við þýska stórliðið Kiel árið 2009 þar sem hann lék í sex tímabil, til ársins 2015. Hann varð fimm sinnum Þýskalandsmeistari með liðinu, tvívegis Evrópumeistari og tvívegis bikarmeistari.

Þaðan lá leiðin til Ungverjalands þar sem hann samdi við Veszprém þar sem hann lék í tvö tímabil og varð hann tvívegis ungverskur meistari með liðinu og tvívegis bikarmeistari. Árið 2017 gekk hann til liðs við Barcelona þar sem hann varð fjórum sinnum Spánarmeistari, einu sinni Evrópumeistari og fjórum sinnum bikarmeistari.

Hann gekk til liðs við Aalborg árið 2021 og lék með liðinu í tvö tímabil, til ársins 2023. Hann varð bikarmeistari með Aalborg árið 2022. Sumarið 2023 sneri hann heim til Íslands og samdi við uppeldisfélag sitt FH og varð Íslands- og deildarmeistari með liðinu síðasta vor.

Aron lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Belgíu í undankeppni EM árið 2008 en alls á hann að baki 176 landsleiki þar sem hann hefur skorað 674 mörk. Hann var í bronsliði Íslands á EM í Austurríki árið 2010. Heimsmeistaramótið í Króatíu, Danmörku og Noregi verður fimmtánda stórmót Arons sem jafnframt hefur verið fyrirliði landsliðsins frá árinu 2020.

Elvar Örn Jónsson – 9

Elvar Örn, sem er 27 ára gamall, er samningsbundinn Melsungen í þýsku 1. deildinni en hann er uppalinn á Selfossi.

Miðjumaðurinn lék upp allra yngri flokka Selfoss og lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir félagið árið 2013. Hann var í lykilhlutverki hjá Selfossi þegar liðið varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn í sögu félagsins árið 2019 og var jafnframt útnefndur besti leikmaður úrslitakeppninnar sama ár. Þá var hann valinn besti leikmaður úrvalsdeildarinnar árið 2018 og 2019.

Sumarið 2019 gekk hann til liðs við Skjern í dönsku úrvalsdeildinni þar sem hann lék í tvö tímabil, frá 2019 til 2021, en sumarið 2021 gekk hann til liðs við Melsungen. Hann framlengdi samning sinn við þýska félagið haustið 2022 en mun ganga til liðs við þýska stórliðið Magdeburg þegar samningur hans við Melsungen rennur út næsta sumar.

Elvar Örn lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Noregi árið 2018 en alls á hann að baki 81 landsleik þar sem hann hefur skorað 190 mörk. Hann er á leið á sitt sjöunda stórmót með landsliðinu.

Haukur Þrastarson – 25

Haukur, sem er 23 ára gamall, er samningsbundinn rúmenska stórliðinu Dinamo Búkarest en hann er uppalinn á Selfossi.

Hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir Selfoss árið 2016 þegar hann var einungis 15 ára gamall en hann var í lykilhlutverki hjá liðinu þegar Selfoss varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn í sögu félagsins árið 2019. Hann var valinn efnilegasti leikmaður úrvalsdeildarinnar sama ár.

Árið 2019 gekk hann til liðs við Kielce þar sem hann varð fjórum sinnum Póllandsmeistari, þá varð hann bikarmeistari með liðinu árið 2021. Hann söðlaði um og samdi við Dinamo Búkarest í sumar en hann er markahæsti leikmaður liðsins í Meistaradeildinni á tímabilinu með 36 mörk.

Hann vann til silfurverðlauna með U18-ára landsliði Íslands á EM í Póllandi árið 2018 og var valinn besti leikmaður mótsins. Hann lék sinn fyrsta landsleik árið 2018 gegn Noregi en alls á hann að baki 37 landsleiki þar sem hann hefur skorað 53 mörk. Heimsmeistaramótið í Króatíu, Danmörku og Noregi verður fjórða stórmót Hauks.

Teitur Örn Einarsson – 24

Teitur Örn, sem er 26 ára gamall, er samningsbundinn Gummersbach í þýsku 1. deildinni en hann gekk til liðs við félagið frá Flensburg síðasta sumar.

Hann er uppalinn á Selfossi og lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir félagið árið 2015. Hann var í stóru hlutverki á sínu fyrsta tímabili með Selfossi og hjálpaði liðinu að tryggja sér sæti í úrvalsdeildinni tímabilið 2015-16.

Hann gekk til liðs við Kristianstad í Svíþjóð árið 2018 og lék með liðinu í þrjú tímabil, frá 2018 til 2021. Teitur gekk til liðs við þýska stórliðið Flensburg í október 2021 og lék með liðinu í þrjú tímabil. Hann varð Evrópudeildarmeistari með liðinu síðasta vor þegar Flensburg hafði betur gegn Füchse Berlín í úrslitaleik í Hamburg, 36:31, en Teitur skoraði eitt mark í úrslitaleiknum.

Teitur var markahæsti leikmaður HM U17-ára í Georgíu árið 2017 þar sem hann skoraði 66 mörk en hann lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Noregi árið 2018. Alls á hann að baki 38 A-landsleiki og 39 mörk en heimsmeistaramótið í Króatíu, Danmörku og Noregi verður fjórða stórmót Teits.

Viggó Kristjánsson – 7

Viggó, sem er 31 árs gamall, gekk til liðs við Erlangen í þýsku 1. deildinni á dögunum en hann er uppalinn hjá Gróttu á Seltjarnarnesi.

Hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir Gróttu árið 2010 en tók sér svo hlé frá handbolta og lék knattspyrnu með Gróttu og ÍR í 1. deildinni frá 2010 til 2012 áður en hann gekk til liðs við úrvalsdeildarlið Breiðabliks þar sem hann lék tímabilið 2013.

Hann sneri sér aftur að handboltanum árið 2014 og lék með Gróttu í tvö tímabil, frá 2014 til 2016, áður en hann samdi við Randers í Danmörku þar sem hann lék í eitt tímabil. Þaðan lá leiðin til Austurríkis þar sem hann lék með West Wien í tvö tímabil, frá 2017 til 2019.

Árið 2019 gekk hann svo til liðs við Leipzig í þýsku 1. deildinni þar sem hann lék fyrri hluta tímabilsins áður en hann skipti yfir til Wetzlar í sömu deild. Sumarið 2020 gekk hann svo til liðs við Stuttgart þar sem hann lék í eitt tímabil, frá 2020 til 2021, áður en hann sneri aftur til Leipzig haustið 2021 þar sem hann lék allt til áramóta þangað til hann fór til Erlangen.

Hægriskyttan lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Svíþjóð árið 2019 en alls á hann að baki 61 landsleik þar sem hann hefur skorað 177 mörk. Heimsmeistaramótið í Króatíu, Danmörku og Noregi verður sjötta stórmót Viggós.

Þorsteinn Leó Gunnarsson – 15

Þorsteinn Leó, sem er 22 ára gamall, er samningsbundinn Porto í efstu deild Portúgals en hann er uppalinn hjá Aftureldingu.

Hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir félagið árið 2020 og hefur skotist hratt upp á stjörnuhimininn síðan en hann varð bikarmeistari með uppeldisfélagi sínu árið 2023 eftir sigur gegn Haukum í úrslitaleik í Laugardalshöll, 28:27, en Þorsteinn Leó skoraði sjö mörk í leiknum.

Eftir að hafa verið lykilmaður í liði Aftureldingar undanfarin tvö tímabil söðlaði hann um síðasta sumar og gekk til liðs við Porto. Hann skoraði 18 mörk í sex leikjum í riðlakeppni Evrópudeildarinnar á tímabilinu og þá hefur hann skorað 86 mörk í 18 leikjum í portúgölsku 1. deildinni.

Stórskyttan var í stóru hlutverki hjá U21-árs landsliðinu á HM í Grikklandi og Þýskalandi árið 2023 þegar Ísland hafnaði í þriðja sæti eftir sigur gegn Serbíu í leik um bronsverðlaunin í Berlín. Þorsteinn Leó var markahæstur í íslenska liðinu í leiknum með átta mörk. Hann lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Ísrael árið 2023 en alls á hann að baki sjö landsleiki þar sem hann hefur skorað 12 mörk. Heimsmeistaramótið í Króatíu, Danmörku og Noregi verður fyrsta stórmót Þorsteins Leós.