Sigurbjörg Ásgeirsdóttir fæddist 6. júlí 1950 í Keflavík. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 19. desember 2024.

Foreldrar hennar voru Ásgeir Þ. Sigurvinsson frá Keflavík, f. 1923, d. 1989, og Guðrún J. Ármannsdóttir frá Neskaupstað, f. 1925, d. 2006. Systir hennar var Gunnhildur, f. 14. janúar 1948, d. 25. ágúst 2017.

Sigurbjörg giftist árið 1972 eiginmanni sínum, Herði Gylfa Helgasyni, f. 9. október 1950, d. 29. ágúst 2012. Foreldrar hans voru Helgi H. Hjartarson, f. 1922, d. 1985, og Katrín Lilliendahl Lárusdóttir, f. 1928, d. 2003.

Synir Harðar og Sigurbjargar eru: 1) Helgi Einar, f. 12. mars 1973. Dóttir hans er Sigurbjörg Brynja, f. 14. júní 2009. 2) Ármann Ásgeir, f. 31. júlí 1976. Eiginkona hans er Ólafía Helga Arnardóttir, f. 8. nóvember 1978. Börn þeirra eru: a) Katrín Lilja, f. 15. apríl 2002. b) Ásgeir Bjarni, f. 27. apríl 2010. c) Jóhann Helgi, f. 13. júlí 2015. d) Hörður Logi, f. 30. september 2016.

Sigurbjörg ólst upp í Keflavík og flutti til Grindavíkur 1969 þegar hún kynntist Herði. Sigurbjörg og Hörður byggðu sér heimili að Staðarhrauni 15 árið 1972 og bjó Sigurbjörg þar til 10. nóvember 2023.

Hún vann lengst af í Sparisjóðnum í Grindavík og seinna meir hjá Skólamat.

Útför Sigurbjargar fer fram í Grindavíkurkirkju í dag, 14. janúar 2025, klukkan 14.

Elsku amma, það er sárt að þurfa að kveðja þig en ég er samt svo þakklát fyrir allan þann tíma sem ég fékk að verja með þér. Að hafa fengið alla þína athygli í svo langan tíma, að ná tveimur útskriftum og allt á milli. Ég mun alltaf sakna þín og þess að sitja í eldhúsinu hjá þér. Að skutlast með þig, að geta hoppað yfir til þín í prins og kók, eða fá að hjálpa þér með prentarann. Ég vildi óska þess að þú hefðir getað verið lengur hjá okkur, en þinn tími var kominn. Þú munt ávallt vera mín fyrirmynd í lífinu og ég vona að ég geti tileinkað mér æðruleysið og þolinmæðina sem þú virtist hafa endalaust af. Yfirvegunin sem þú bjóst yfir að vera ekki að stressa þig á hlutunum en hafa samt dugnaðinn og endalausa þolið til þess að koma hlutunum í verk eru þættir í fari þínu sem ég hef alltaf dáðst að. Ég elska þig amma mín.

Katrín Lilja
Ármannsdóttir.

Elsku amma, ég vildi óska þess að þú værir enn hér hjá okkur, en því miður ertu það ekki. Við söknum þín öll ótrúlega mikið. Ég man eftir öllum stundunum sem ég gat hlaupið yfir til þín og spilað við þig, gist hjá þér og eldað með þér. Þegar ég var yngri og þú varst að lesa fyrir mig og ég sofnaði í fanginu á þér. Ég sakna endalausrar þolinmæði þinnar og endalauss kærleika þíns. Ég sakna þess að þegar ég lenti í vandræðum þá bara blikkaðirðu mig og hresstir mig við. Ég sakna skiptanna þegar þið Gunnhildur tókuð okkur frændsystkinin í óvissuferðir og allar ferðirnar að bera út póst. Ég elska þig.

Guð gefi mér æðruleysi

til að sætta mig við það

sem ég fæ ekki breytt,

kjark til að breyta því

sem ég get breytt

og vit til að greina þar á milli.

(Reinhold Niebuhr)

Ásgeir Bjarni
Ármannsson.

Elsku Sibba, það er með miklum söknuði sem við minnumst þín á þessari stundu. Við fjölskyldan höfum notið þeirra forréttinda að hafa þig í okkar lífi og eftir situr stórt skarð. Við minnumst góðu stundanna í Staðarhrauninu þar sem við bjuggum hlið við hlið og krakkarnir gátu hlaupið yfir til ömmu hvenær sem var til að fá ömmuknús eða fá eitthvað betra að borða. Allra stundanna í Knarrarnesi þar sem við nutum þess öll að vera og njóta. Við erum þakklát fyrir allar samverustundirnar sem við höfum átt og þú hefur átt mikilvægan þátt í uppeldi barnanna okkar Ármanns sem sakna nú ömmu sinnar. Þið Hörður komuð kristnum gildum til þeirra og kennduð þeim mátt bænarinnar. Hlýjan, þolinmæðin og skilningurinn sem börnin okkar hafa alltaf mætt hjá þér hefur hjálpað þeim að verða sjálfsöruggir og hlýir einstaklingar.

Þú varst dýrmæt tengdamóðir og mikil fyrirmynd. Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með þér tækla veikindi þín af því æðruleysi sem þú hefur gert. Minningin um góða og skemmtilega konu lifir áfram. Megi góður guð geyma þig.

Þótt ég sé látinn, harmið mig ekki með tárum, hugsið ekki um dauðann með harmi eða ótta.

Ég er svo nærri, að hvert eitt tár ykkar snertir mig og kvelur, þótt látinn mig haldið.

En þegar þið hlæið og syngið með glöðum hug, lyftist sál mín upp í mót til ljóssins.

Verið glöð og þakklát fyrir allt sem lífið gefur og ég, þótt látinn sé, tek þátt í gleði ykkar yfir lífinu.

(Höf. óþ.)

Ólafía Helga
Arnardóttir.

Elsku Sibba vinkona okkar er nú horfin yfir móðuna miklu og hefur verið leyst frá líkamlegum þrautum eftir erfið veikindi.

Við skólasysturnar fæddar árið 1950 höfum haldið hópinn og verið samferða síðan í barnaskóla. Hópinn okkar höfum við kallað „Þær flottustu í bænum“. Við höfum brallað margt saman bæði innanlands og utan. Í mörg ár höfum við hist einu sinni í mánuði og borðað saman og skemmt okkur vel, og eigum við því orðið ótal minningar saman. Sibba var traust og og góð vinkona, alltaf jákvæð og bjartsýn og aldrei kvartaði hún þótt hún hafi þurft að reyna meira en margur í gegnum lífið.

Nú látum við minningarnar flæða yfir huga okkar, minnumst fallega brossins hennar Sibbu og með tár á hvarmi þökkum við henni góða samfylgd.

Við sendum sonum hennar, Ármanni og Helga, og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Nú ertu ljúfan leidd á burtu frá mér

í ljósið inn sem læknar öll þín mein

og þrautir allar þungar færðar
frá þér

nú fagnar þú sem fagurt blóm
á grein.

Hugrakka vina héðan sendi nú

hinstu mína kveðju, ást og trú.

Til himinsala hefur þína vegferð

í heiminn þar sem eilíf birta skín.

En vissa mín og von um endur fundi

hún vekur minn kraft og mína trú

þá saman finnum frið í grænum lundi

og fléttum blómakransa ég og þú.

Nú englaskarar lýsi þína leið

létt þá verður burtför þín og greið.

Því hér í heimi hefur verki lokið

þú heldur ótrauð inn á nýja braut.

Blessuð sé minning kærrar vinkonu okkar, Sigurbjargar Ásgeirsdóttur, með kærri þökk fyrir allt og allt.

Fyrir hönd okkar vinkvennanna,

Sigrún Ólafsdóttir.