Slökkvilið landsins sinntu samtals 656 útköllum á síðasta fjórðungi nýliðins árs. Þar af voru 107 vegna umferðarslysa, þar sem 105 einstaklingar voru slasaðir og var 21 einstaklingur fastklemmdur. Þetta kemur fram í samantekt Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) sem unnin er upp úr gögnum úr útkallsskýrslugrunni slökkviliða.
Útköllin voru enn fleiri á þriðja ársfjórðungi, eða samtals 795 samkvæmt upplýsingum á vefsíðu HMS um útköll.
Í samantekt HMS er einnig að finna yfirlit yfir útköll vegna gróðurelda eftir ársfjórðungum á síðasta ári, en slökkvilið landsins fóru í alls 105 útköll vegna gróðurelda á síðasta ári. Það er nánast sami fjöldi útkalla og á árinu á undan, þegar útköllun voru 106.
Þegar útköllum vegna gróðurelda er skipt eftir ársfjórðungum kemur í ljós að á síðari hluta nýliðins árs fóru slökkvilið í 13 útköll vegna gróðurelda, níu á þriðja ársfjórðungi og fjóra á þeim fjórða.
Útköllin voru eins og við er að búast flest á vori og í sumarbyrjun og voru útköllin samtals 84 á öðrum ársfjórðungi í fyrra en til samanburðar voru útköllin 34 á öðrum fjórðungi á árinu 2023. Hins vegar voru slökkvilið kölluð út 40 sinnum á þriðja ársfjórðungi á árinu 2023 en aðeins í níu skipti á sama tíma í fyrra eins og áður segir.
Útköllum vegna umferðarslysa fer fjölgandi síðustu ár
„Á fjórða ársfjórðungi 2024 bárust 107 útköll vegna umferðarslysa og hefur slíkum útköllum farið fjölgandi síðustu ár. Alls voru þau 115 á fjórða ársfjórðungi árið 2023 og að meðaltali 88 á sama tíma 2020, 2021 og 2022 en hafa ber í huga að ekki er tekið tillit til fjölda bifreiða á landinu,“ segir í samantekt HMS.
Slökkviliðin sinna fjölbreyttum verkefnum. Fram kemur að slökkvilið landsins sinntu einnig 96 útköllum á síðasta fjórðungi nýliðins árs vegna vatnstjóna og 40 útköllum vegna viðvörunarkerfa þar sem ekki var um eld að ræða. Þá voru 10 útköll þar sem einstaklingur var í neyð og viðkomandi bjargað, segir í samantekt HMS. omfr@mbl.is