kvikmyndir
Helgi Snær
Sigurðsson
Kvikmyndin Babygirl eða Stúlkubarn segir af Romy (Nicole Kidman), miðaldra forstýru fyrirtækis sem framleiðir þjarka og er staðsett á besta stað í New York. Romy er valdamikil, líkt og sést strax í byrjun myndar af samskiptum hennar við ýmsa undirmenn sína, m.a. lærlinginn Samuel (Harris Dickinson) sem er um 30 árum yngri en hún. Romy er gift farsælum leikstjóra, Jacob (Antonio Banderas), sem virðist sáttur í eigin skinni, ólíkt eiginkonunni.
Strax í byrjun myndar koma í ljós brestir í hjónabandinu þegar Romy laumast, að nýloknum kynmökum þeirra hjóna, inn í annað herbergi og fer að horfa á klám og fróa sér. Jacob sefur vært á meðan. Klámið sem Romy horfir á einkennist af drottnun, að því er virðist af stuttu myndbroti. Annar þátttakandinn þarf sumsé að lúta algjörlega vilja hins.
Þegar Samuel (Harris Dickinson) er kynntur til sögunnar nokkru síðar myndast strax greinileg spenna milli hans og Romy. Samuel færir sig fljótlega upp á skaftið og fer að kanna hversu langt hann geti gengið gagnvart Romy. Hún bregst til að byrja með illa við og þykist ekkert vilja með hann hafa. En Samuel sér í gegnum þann leik og þróast mál á þann veg að Romy lætur að stjórn hans í einu og öllu. Samuel drottnar yfir henni og framan af virðist það líkt og leikur kattar að mús. Þetta óvenjulega samband vindur upp á sig og Samuel reynir sífellt meir á mörk Romy. Hún gerir sér fulla grein fyrir því að hann heldur um taumana og það að fleiru en einu leyti. Romy veit að Samuel getur eyðilagt líf hennar, bæði einkalíf og starfsframa, með einu eða tveimur símtölum.
Misvel mótaðar persónur
Babygirl er flokkuð sem „erótískur tryllir“ á kvikmyndavefnum Internet Movie Database, IMDb, en sjálfsagt má um það deila hversu erótísk hún er eða taugatrekkjandi. Hún er vissulega spennandi á köflum og töluvert um kynlífsatriði þar sem aðalleikkonan, Nicole Kidman, gengur mjög svo nærri sér, en síðast en ekki síst er hún dramatísk.
Kidman skilur allt eftir á vellinum, eins og íslenskir íþróttafréttamenn segja gjarnan í lýsingum sínum á knattleikjum, hún gefur sig alla í hlutverkið og stelur senunni af öðrum leikurum myndarinnar, hvað eftir annað. Kidman sýnir og sannar hversu öflug leikkona hún er í þessu mjög svo svo krefjandi hlutverki, sem hún hefur hlotið bæði verðlaun fyrir og tilnefningar. Þótt myndin sé ekki gallalaus er leikur Kidman það, að mati þess er hér rýnir.
Titill myndarinnar hæfir efninu vel og virkar, við fyrstu sýn, nokkuð öfuguggalegur. Kidman er miðaldra kona sem örvast kynferðislega af því að láta skipa sér fyrir, láta hinn unga karlmann drottna yfir sér. Er það andstæða þess hlutverks sem hún gegnir á vinnustað, þar er hún drottning í ríki sínu, kaldrifjuð þegar nauðsyn krefur og vílar ekki fyrir sér að fórna nokkrum peðum til að bjarga eigin skinni.
Dickinson, í hlutverki hins unga Samuels, er brjóstumkennanlegur sem kynlífsviðfang yfirmanns síns en um leið merkilega frakkur og lífsreyndur. Persónu Samuels hefði gjarnan mátt móta betur, í lok myndar er maður litlu nær um Samuel, hvað það er sem drífur hann áfram og hvað varð til þess að hann fór að stíga í vænginn við yfirmann sinn, sem hlýtur að teljast mikil áhætta fyrir ungan mann.
Antonio Banderas er virkilega góður í hlutverki Jacobs, eiginmannsins kokkálaða, og þá sérstaklega í einu tilteknu og hádramatísku atriði með þeim Kidman, sem verður ekki farið nánar út í til að forðast spilliefni. Engu púðri er eytt í bakgrunn Jacobs og í raun nóg að vita að hann starfar sem leikstjóri og nýtur velgengni sem slíkur. Banderas hefur átt heldur rysjóttan feril eftir að hann flutti til Bandaríkjanna, var áður ein af stjörnum leikstjórans Pedrós Almodóvars og sýnir hér gamalkunna takta og að hann hefur engu gleymt.
Grípandi tónlist
Tónlist myndarinnar vekur sérstaka athygli, annars vegar þekkt popplög og hins vegar frumsamin verk. Af þekktum popplögum má nefna nokkur sígild sem smellpassa við stemninguna hverju sinni, m.a. „Father Figure“ með George Michael, „Dancing on my Own“ með Robyn og „Never Tear us Apart“ með INXS. Mjög gott lagaval að mati þess miðaldra manns sem hér skrifar. Frumsamda tónlistin er stórgóð, áhugaverð og örvandi í senn en hún var samin af Cristobal Tapia de Veer nokkrum, tónskáldi af síleskum uppruna. Einkennist tónlist hans meðal annars af ýmsum búkhljóðum og mæði og ætti, ein og sér, að örva púls bíógesta.
Babygirl missir örlítið dampinn á tímabili, í fulllöngum atriðum sem snúa að drottnunarsambandi aðalpersónanna tveggja og kynlífinu sem verður dálítið endurtekningasamt í seinni hlutanum. Einstaka atriði eru vissulega áhrifarík en önnur ekki og jafnvel óþörf. Mörg dansa þau á mörkum ofbeldis og þvingunar.
Myndin fjallar, öðru fremur, um skömm. Skömm á eigin tilfinningum og hvötum sem erfitt getur verið að beisla eða kæfa. Hún fjallar um vald og þá valdabaráttuna sem er falin í ólíkum samböndum fólks og þá bæði samböndum elskenda og vinnusamböndum. Ofbeldi getur enda verið af ýmsum toga og birst í kúgun eða misnotkun af ólíkum toga og á ólíkum stigum. Eftirminnilegust eru þau atriði myndarinnar sem snúa að játningum, þegar Romy segir frá hinum forboðnu hvötum sínum.
Babygirl sýnir, enn og aftur, hversu góð leikkona Kidman getur verið þegar hún fær bitastætt hlutverk.