Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is
„Við erum í algjöru losti yfir þessum hörmungum,“ segir Friðgeir Trausti Helgason, kokkur og ljósmyndari, um ástandið í Kaliforníu. Hann hefur búið í Albuquerque í Nýju-Mexíkó í tvö ár, en bjó áður í Altadena-hverfinu í Los Angeles í rúm níu ár.
„Við Susan fluttum þaðan fyrir tveimur árum, en við eigum marga vini í hverfinu sem var að okkar mati algjör paradís á jörð, en er nú sviðin jörð eftir að eldar kviknuðu í hverfinu kl. 18.30 síðasta mánudag. Það er hræðilegt að vita til þess að vinir manns og nágrannar til margra ára séu búnir að missa allt. Það er ekkert eftir.“
Stóð uppi með vegabréfið
Friðgeir Trausti og eiginkona hans, Susan Bolles, bjuggu í Altadena en þar hefur allt orðið eldinum að bráð. Hann segist aðeins vita um eitt hús í Altadena, sem vinkona hans bjó í, sem hafi staðið af sér eldhafið. Þar sem allir innviðir í hverfinu brunnu sé ekkert vitað um hvenær eða hvort hún geti flutt aftur heim.
„Húsið sem við leigðum var kallað Casa Pine og var á Pine Street í Altadena. Það voru þrjú hús á eigninni og nágranni minn, Jeff Kocher, sem bjó í næsta húsi við okkur, hringdi í mig klukkan hálfsjö um morgun síðasta þriðjudag, og sagði mér að klukkan eitt um nóttina hefði hann þurft að flýja húsið á hlaupum því eldveggurinn hefði komið æðandi að húsinu. Þetta gerðist svo hratt að hann gat ekki tekið neitt með sér nema vegabréf og einhverja bankapappíra,“ segir Friðgeir og bætir við að það sé erfitt fyrir þá sem ekki hafa upplifað þetta að setja sig í þessi spor.
Eins og logandi fellibylur
„Ég hef búið það lengi í Los Angeles að ég veit hvernig þetta er og þessir skógareldar verða verri með ári hverju. Þegar Jeff sagði mér stöðuna vissi ég alveg hvað var að gerast. Svo hringdi Jeff í mig strax daginn eftir og sagði mér að það væri eins og kjarnorkusprengja hefði fallið á hverfið, það væri ekkert eftir. Á aðeins sjö tímum hvarf Altadena-hverfið allt í eldhafið.
Það er enginn mannlegur máttur sem hefði getað stöðvað eldhafið. Það sem gerir þetta svo rosalegt eru þessir sterku vindar, Santa Ana-vindarnir, og núna var þetta eins og logandi fellibylur sem kveikti í öllu sem hann fór yfir. Það hefði ekki skipt máli þótt tvöfalt fleiri viðbragðsaðilar hefðu verið að reyna að varna eldinum, því það er ekkert hægt að slökkva elda í þessum vindhraða, sem æðir áfram á 80-100 mílna hraða á klukkustund sem er allt að 160 km hraði. Í svona ástandi fara öll viðmið út um gluggann og það er ljóst að þetta á bara eftir að versna, miðað við þróun síðustu ára og með auknum áhrifum hnattrænnar hlýnunar.“
Friðgeir segir að svo fólk geti séð þetta betur fyrir sér geti það ímyndað sér ef eldur logaði á öllu Seltjarnarnesi og allt myndi brenna langleiðina út að Snorrabraut og fuðra upp á sjö klukkutímum.
Horfin paradís
Friðgeir segir þungbært að hugsa til þess að Altadena-hverfið sé nú rústir einar. „Þetta var alveg dásamlegt, rótgróið hverfi með mikla sögu og einn af uppáhaldsstöðum mínum. Þarna var mest einbýlishúsabyggð, og mikið af eldri timburhúsum og líka stórum villum. Margar svartar fjölskyldur bjuggu í hverfinu sem höfðu verið þar í marga ættliði. Svo var margt listafólk í hverfinu, fólk úr kvikmyndaiðnaðinum og einnig margir milljarðamæringar. Mín skoðun er sú að þetta hafi verið paradís á jörð en núna er sú paradís horfin. Ég er ekki viss um að hverfið verði nokkurn tíma byggt upp aftur.“
Friðgeir segir að það sé alveg út í hött að fara að endurbyggja svæðið þegar útlit sé fyrir að skógareldar í Kaliforníu verði verri frá ári til árs. „En á sama tíma er land svo verðmætt í Los Angeles að það eru strax einhverjir farnir að huga að því að kaupa land sem er núna verðlaust til að endurbyggja síðar, því fasteignaverð er sturlað í Kaliforníu,“ segir hann og bætir við að það sé þegar farið að bera á fólksflótta úr borginni vegna skógareldanna og þess hversu dýr borgin er.
„Það er orðið mjög erfitt fyrir venjulegt fólk að búa í borginni óháð öllum hamförum sem gera það enn verra. Sonur minn býr enn í LA og fyrir litla stúdíóíbúð með eldhúskrók gæti hann leigt sér heilt einbýlishús hérna í Nýju-Mexíkó. Ég held að margir muni hugsa alvarlega um að flytja núna.“
Búið á hamfarasvæðum
„Ég hef búið á mörgum svæðum þar sem náttúruhamfarir hafa orðið og þurfti að flytja frá Vestmannaeyjum í gosinu 1973 til ættingja þar til við fengum viðlagasjóðshús. Ég hef líka búið í Grindavík, í New Orleans og Los Angeles og bý núna í Nýju-Mexíkó. Ég var nýfluttur frá New Orleans þegar Katarina-fellibylurinn fór þar yfir, en flutti til baka í tvö ár. En borgin var ekki eins og hún hafði verið og ég er hræddur um að það verði það sama uppi á teningnum með Los Angeles. Hún á ekki eftir að verða sama borgin eftir þetta.“