Heimsmeistaramót karla í handknattleik hefst síðdegis í dag og fara fyrstu leikirnir fram í Herning í Danmörku og Porec í Króatíu. B-riðill keppninnar er leikinn í Herning og þar eru Danir, heimsmeistarar á þremur síðustu mótum, að sjálfsögðu í aðalhlutverki

Heimsmeistaramót karla í handknattleik hefst síðdegis í dag og fara fyrstu leikirnir fram í Herning í Danmörku og Porec í Króatíu.

B-riðill keppninnar er leikinn í Herning og þar eru Danir, heimsmeistarar á þremur síðustu mótum, að sjálfsögðu í aðalhlutverki. Þeir byrja á leik gegn Alsír í kvöld klukkan 19.30 en á undan mætast hin tvö liðin í riðlinum, Ítalía og Túnis.

Það er sögulegur leikur fyrir Ítali sem hafa aðeins einu sinni áður komist í lokakeppni HM, í Kumamoto í Japan 1997.

Ljóst er að allt annað en mjög öruggur sigur Dana í B-riðli myndi teljast vera stórslys af hálfu heimsmeistaranna.

C-riðillinn er leikinn í Porec og þar eru Frakkar afar sigurstranglegir en þeir leika annan tveggja upphafsleikja HM þegar þeir mæta Katar klukkan 17. Lið Katar er ríkjandi Asíumeistari og hefur unnið þann titil sex sinnum í röð á undanförnum ellefu árum. Sýnd veiði fyrir Frakka en ekki endilega gefin. Í hinum leiknum mætast Austurríki og Kúveit klukkan 19.30 en Kúveitar eru mættir á heimsmeistaramót í fyrsta skipti í sextán ár.

Keppni í fjórum riðlum hefst á morgun og tveimur þeim síðustu á fimmtudag þegar Ísland hefur leik gegn Grænhöfðaeyjum.