Þjálfarinn
Bjarni Helgason
bjarnih@mbl.is
Landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson er fullur tilhlökkunar en hann er á leið á sitt annað stórmót sem þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handknattleik. Þetta er í 23. sinn sem Ísland tekur þátt á heimsmeistaramótinu í handbolta og sjöunda skiptið í röð sem Ísland er á meðal þátttökuþjóða en liðinu mistókst að tryggja sér sæti á mótinu árið 2009 sem fram fór í Króatíu.
Ísland leikur í G-riðli keppninnar ásamt Slóveníu, Kúbu og Grænhöfðaeyjum í Zagreb í Króatíu en mótið fer einnig fram í Danmörku og Noregi. Efstu þrjú lið riðilsins tryggja sér sæti í milliriðli fjögur sem verður einnig leikinn í Zagreb. Takist Íslandi að komast áfram í milliriðla verða næstu mótherjar liðsins úr H-riðli þar sem Egyptaland, Króatía, Argentína og Barein leika.
Tvö efstu lið milliriðilsins komast svo áfram í 8-liða úrslitin sem verða leikin í Zagreb og Bærum í Noregi en takist Íslandi að komast áfram í 8-liða úrslitin mætir liðið mótherjum úr milliriðli tvö sem samanstendur af liðum úr C-riðli þar sem Frakkland, Austurríki, Katar og Kúveit leika, og D-riðli þar sem Ungverjaland, Holland, Norður-Makedónía og Gínea leika.
Mikill missir að Arnari
„Þetta mót leggst vel í mig og við erum spenntir,“ sagði Snorri Steinn í samtali við Morgunblaðið.
„Staðan á leikmannahópnum er ágæt. Arnar Freyr Arnarsson dettur út og það er mikill missir að honum. Hann var búinn að vera algjörlega frábær á æfingum og leit virkilega vel út. Það er því mjög svekkjandi að missa hann á þessum tímapunkti en það er bara eins og það er. Elvar Örn Jónsson lítur vel út og er í mjög góðu formi. Hann er byrjaður að spila aftur og meiðslin eru svo gott sem úr sögunni sem er mjög jákvætt fyrir okkur. Það vantar aðeins upp á leikformið hjá honum en það er ekkert sem ég hef áhyggjur af. Hann er frískur og klár í slaginn sem er jákvætt því hann er okkur mjög mikilvægur.
Hvað Aron Pálmarsson varðar þá geri ég ekki ráð fyrir því að hann verði með okkur fyrr en í fyrsta lagi í milliriðlinum. Hann er ekki byrjaður að æfa með okkur og á meðan það er staðan er erfitt að segja til um það hvenær og hvort hann verði með okkur á mótinu. Ef svo fer að hann verði ekkert með okkur þá mun ég að öllum líkindum kalla inn annan leikmann í hópinn en ég er samt vongóður um það að Aron verði með á HM. Á meðan líkurnar eru með okkur og honum í liði þá er ég ekki að velta því fyrir mér. Heilt yfir höfum við nýtt tímann okkar vel saman og ég er mjög sáttur með undirbúninginn fyrir mótið,“ sagði Snorri Steinn.
Menn þurfa að vera tilbúnir
Íslenska liðið verður einnig án Ómars Inga Magnússonar, eins besta handboltamanns heims, á mótinu en hann meiddist illa á ökkla með félagsliði sínu Magdeburg í desember.
„Það er alltaf áfall þegar lykilmenn meiðast. Það er ekkert sérstaklega jákvætt fyrir okkur þegar menn eins og Ómar Ingi og Aron eru ekki með okkur. Þetta eru þeir leikmenn sem hafa borið liðið uppi. Það er því ýmislegt sem við höfum þurft að skoða í aðdraganda mótsins, meira en vanalega, og við höfum þurft að velta ýmsum hlutum fyrir okkur. Það fylgir þjálfarastarfinu auðvitað og það er bara viss áskorun.
Það er alltaf þannig í handbolta að menn heltast úr lestinni og við erum með 18-manna leikmannahóp sem er á leiðinni á mótið. Allir í 18-manna hópnum þurfa að vera undir það búnir að fá stórt hlutverk í liðinu og menn þurfa að vera tilbúnir. Ég hef fulla trú á því að þeir sem eiga að fylla í skörðin séu klárir í slaginn. Þetta eru mismunandi leikmenn og að mörgu leyti ólíkir leikmenn og þeir þurfa að aðlagast sem tekur tíma en ég fer samt sem áður brattur inn í þetta mót.“
Fúll að vinna ekki
Íslenska liðið lék tvo vináttulandsleiki gegn Svíþjóð í aðdraganda heimsmeistaramótsins en fyrri leiknum lauk með jafntefli í Kristianstad, 31:31, og þeim síðari með tveggja marka sigri Svíþjóðar, 26:24 í Malmö.
„Við unnum hvorugan leikinn og ég er auðvitað fúll með það. Það var alveg innistæða fyrir því að vinna fyrri leikinn fannst mér. Við vorum slappir í fyrri hálfleik í seinni leiknum og þar var mikið af hlutum sem vantaði upp á hjá okkur. Ég lét strákana vita af því en svo þegar maður skoðar leikinn betur þá var fullt af góðum punktum í leik liðsins í seinni leiknum. Heilt yfir vorum við góðir varnarlega í þessum tveimur leikjum og þegar við náum upp þeim leik sem við viljum spila þá erum við flottir.
Hraðaupphlaupin voru líka talsvert betri í seinni leiknum á meðan sóknarleikurinn var betri í fyrri leiknum. Ég vil sjá okkur gera meira í sóknarleiknum, en ég var ekki sáttur með hann heilt yfir í seinni leiknum. Við vissum að Svíarnir myndu aðeins spýta í lófana eftir fyrri leikinn gegn þeim og mér fannst við einfaldlega ekki mæta þeim nægilega vel þegar kom að ákefð og hörku.“
Allt á réttri leið
En hvað vantaði upp á í þessum tveimur leikjum?
„Þetta er á réttri leið, bæði varnar- og sóknarlega. Ég var ánægður með viðhorf strákanna þó við höfum ekki unnið leikina en ég sem þjálfari vil alltaf sjá meira frá mínu liði. Þegar þú færð tækifæri til þess að vinna Svía, á þeirra heimavelli, þá verður þú að nýta þér það. Góð lið eins og Svíþjóð gefa ekki mörg færi á sér og við þurfum að negla svona leiki.
Þetta er eitthvað sem við höfum unnið að síðan ég tók við. Gegn bestu liðum heims þá færðu ekki mörg tækifæri til þess að negla leikina. Þess vegna er svo mikilvægt að gera það þegar tækifærið gefst. Það er þetta drápseðli sem ég er búinn að vera kalla eftir hjá mínu liði. Ég vil sjá okkur gefa í hvað þetta varðar og þegar við fáum tækifæri til þess að leggja þessar stórþjóðir að velli þá verðum við að gjöra svo vel að nýta okkur það.“
Það er lærdómur þarna
Eins og áður sagði er Snorri Steinn á leið á sitt annað stórmót sem þjálfari liðsins en hvað lærdóm dró hann af Evrópumótinu í Þýskalandi þar sem Ísland hafnaði í 10. sæti?
„Ég var að hugsa þetta um daginn og akkúrat núna og í undirbúningnum fyrir þetta mót þá hef ég lítið verið að velta mér upp úr mótinu í Þýskalandi ef ég á að vera alveg hreinskilinn. Það er einhver lærdómur þarna klárlega og ég er að gera hlutina aðeins öðruvísi núna en ég gerði fyrir mótið í Þýskalandi fyrir ári, það er klárt mál.
Við æfum aðeins öðruvísi líka og ég lít meira á þetta sem ákveðna þróun, bæði hjá mér sem þjálfara og svo hjá liðinu líka. Þetta er nýtt mót og einbeitingin er það mikil að ég er ekki velta mér of mikið upp úr síðasta stórmóti. Vonandi lærði maður helling, eitthvað sem býr í undirmeðvitundinni, og vonandi var sá lærdómur góður.“
Passa vel upp á mig
Hvernig undirbýr landsliðsþjálfarinn sig fyrir komandi stórmót?
„Ég horfi mikið á handbolta og velti þessu fyrir mér fram og til baka allan liðlangan daginn. Þetta er samt ekki bara ég, því ég er með frábært teymi í kringum mig sem við erum búnir að stækka og þeir passa vel upp á mig. Þegar öllu er á botninn hvolft þá snýst þetta um leikmennina og leik liðsins. Þetta er ákveðinn túr sem þú ferð í en þetta miðast við æfingarnar, leikina og hvað við erum að gera. Hvað virkar og hvað virkar ekki og svo er maður mikið að horfa í mótherja liðsins. Þetta er í hausnum á manni allan sólarhringinn,“ sagði Snorri sem var því næst spurður að því hvort hann næði að sofa eitthvað á nóttunni.
„Ég sef ágætlega þessa dagana en svo þurfum við að sjá til hvernig þetta verður þegar allt fer í skrúfuna. Ég náði að hvílast í fyrra og ég hlakka mikið til núna. Ég er í góðu standi núna þannig að ég hef engar áhyggjur af þessu og fólk þarf ekki að hafa áhyggjur af mér.“
Finnur Snorri Steinn fyrir pressu fyrir sitt annað stórmót?
„Það er alltaf pressa að vera landsliðsþjálfari Íslands í handbolta og þannig á það að vera. Ef pressan væri ekki til staðar þá værum við ekki nægilega stórir. Pressan er til staðar og ég fagna henni,“ bætti landsliðsþjálfarinn við í samtali við Morgunblaðið.
Snorri Steinn Guðjónsson
Annað
stórmótið
Snorri Steinn Guðjónsson er 43 ára gamall. Hann tók við þjálfun íslenska liðsins í júní árið 2023 en Snorri Steinn er á leið á sitt annað stórmót sem þjálfari liðsins. Hann hafði áður stýrt karlaliði Vals í úrvalsdeildinni frá árinu 2017. Undir stjórn Snorra urðu Valsmenn meðal annars Íslandsmeistarar árið 2021 og þá varð liðið Íslands-, bikar- og deildarmeistari árið 2022. Undir stjórn Snorra Steins unnu Valsmenn alls níu bikara en hann stýrði liðinu einnig í riðlakeppni Evrópudeildarinnar tímabilið 2022-23 þar sem Valsmenn fóru alla leið í 16-liða úrslitin.
Snorri Steinn lék alls 257 landsleiki fyrir Ísland þar sem hann skoraði 846 mörk. Hann vann til silfurverðlauna með landsliðinu á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og til bronsverðlauna á Evrópumótinu 2010 í Austurríki. Þá lék hann sem atvinnumaður með Grosswallstadt, Minden og Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi, GOG og AG Kövenhavn í Danmörku og Sélstat og Nimes í Frakklandi áður en hann lauk ferlinum á Íslandi árið 2018 sem spilandi þjálfari Vals.