Ragnheiður Torfadóttir, fyrrverandi rektor Menntaskólans í Reykjavík, lést á Landspítalanum í Fossvogi 12. janúar sl., 87 ára að aldri.
Ragnheiður fæddist á Ísafirði 1. maí 1937 en flutti sex ára með fjölskyldu sinni til Reykjavíkur. Foreldrar Ragnheiðar voru Torfi Hjartarson, tollstjóri í Reykjavík og sáttasemjari ríkisins, og kona hans, Anna Jónsdóttir.
Ragnheiður lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1956, gegndi þar veturinn eftir hálfu starfi rektorsritara og sleit aldrei tengslin við skólann. Hún lauk BA-prófi í latínu og grísku við Háskóla Íslands vorið 1961 og prófi í uppeldis- og kennslufræði 1971. Auk þess lærði hún ítölsku eitt sumar í Perugia á Ítalíu. Eftir 30 ára kennslu settist hún aftur í Háskólann og stundaði nám í íslenskri málfræði og almennum málvísindum meðfram kennslu.
Ragnheiður kenndi latínu við Menntaskólann 1959-1960 og 1962-1996 og einnig grísku 1972-1975. Hún var deildarstjóri við skólann 1972-1992, sat í skólastjórn 1976-1978 og var fulltrúi kennara í fyrstu skólanefnd 1990-1995.
Ragnheiður var rektor Menntaskólans árin 1995-2001, fyrst kvenna. Hún var skipuð í byggingarnefnd við skólann 1996. Í rektorstíð hennar bættust við húsakost skólans Þingholtsstræti 18, sem Davíð S. Jónsson færði skólanum að gjöf, og nýbyggð tengibygging með vel búnum raungreinastofum.
Ragnheiður var varaformaður Bandalags háskólamanna 1982-1986 og í ritstjórn BHM-blaðsins sömu ár. Þá var hún fulltrúi framkvæmdastjórnar í launamálaráði BHMR 1984-1986 og formaður menntamálanefndar BHM 1986-1988. Hún var félagi í Rótarýklúbbi Reykjavíkur um langt árabil og sat í stjórn hans 2000-2001.
Eiginmaður Ragnheiðar var Þórhallur Vilmundarson, f. 1924, d. 2013, prófessor við Háskóla Íslands og forstöðumaður Örnefnastofnunar. Foreldrar hans voru Vilmundur Jónsson landlæknir og Kristín Ólafsdóttir læknir. Börn Ragnheiðar og Þórhalls eru Guðrún, f. 1961, dósent í íslenskri málfræði við HÍ, Torfi, f. 1964, doktor í tölvusjón og lektor við HR, og Helga, f. 1968, byggingarverkfræðingur.