Íbúar á höfuðborgarsvæðinu sem verða varir við dauða eða veika fugla eru beðnir um að meðhöndla þá ekki heldur hafa tafarlaust samband við Dýraþjónustuna. Reykjavíkurborg hefur sent tilmæli til borgarbúa vegna fuglaflensufaraldurs í Reykjavík, sem…

Íbúar á höfuðborgarsvæðinu sem verða varir við dauða eða veika fugla eru beðnir um að meðhöndla þá ekki heldur hafa tafarlaust samband við Dýraþjónustuna. Reykjavíkurborg hefur sent tilmæli til borgarbúa vegna fuglaflensufaraldurs í Reykjavík, sem herjar einkum á gæsir, og kattaeigendur eru hvattir til þess að halda heimilisköttum innandyra.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að ef fólk verði vart við dauða eða veika fugla sé það beðið um að hafa samband símleiðis eða með tölvupósti við Dýraþjónustu Reykjavíkur. Síminn er 822-7820.

Hvatt er til þess að fólk haldi heimilisköttum inni á meðan skæða inflúensan gengur yfir „en hún er bráðsmitandi og getur borist í ketti líkt og fugla.“

Ef viðra þarf kettina er mælt með því að þeir séu hafðir í taumi. Einnig eru hundaeigendur hvattir til að passa að hundar þeirra fari ekki í fuglshræ jafnvel þótt ekkert staðfest smit yfir í hunda sé þekkt.

Heimilisköttur á Seltjarnarnesi greindist á dögunum með skæða fuglaflensu og talið er að hann hafi smitast af fuglshræi. Tíu vikna gamall kettlingurinn drapst fyrir jól vegna flensunnar.