Valdís Sigurlaug Daníelsdóttir fæddist 8. ágúst 1924 á Hróðnýjarstöðum í Dalasýslu. Hún lést á Hrafnistu í Laugarási 21. desember 2024.

Foreldrar hennar voru Daníel Jón Tómasson, f. 7. mars 1888, d. 8. október 1959, bóndi og trésmiður á Kollsá í Hrútafirði og Herdís Einarsdóttir, f. 11. mars 1897, d. 2. ágúst 1965, húsmóðir.

Systkini hennar voru Þorvaldur, f. 1920, d. 1973, Ingiríður, f. 1922, d. 2014, Ester, f. 1926, d. 1926, Einar, f. 1932, d. 1937, og yngst þeirra er Áshildur, f. 1940.

Valdís giftist hinn 27. desember 1947 Guðjóni Sverri Sigurðssyni, f. 17. október 1925, d. 22. mars 2008. Foreldrar hans voru Sigurður Ingjaldur Pétursson, f. 1895, d. 1972, og Birna Ingibjörg Hafliðadóttir, f. 1899, d. 1986.

Börn Valdísar og Guðjóns eru: 1) Bragi, f. 7. september 1947, kvæntur Ingibjörgu Júlíusdóttur, f. 1955. Þeirra börn eru: a) Hreinn, f. 1979 (Bragi gekk honum í föðurstað), kvæntur Evu Dögg Þórsdóttur, f. 1976. Synir þeirra eru Ýmir, f. 2015, og Freyr, f. 2016. Synir Evu og stjúpsynir Hreins eru Þór, f. 1994, og Óðinn, f. 2000. b) Valdís Sigurlaug, f. 1984, í sambúð með Birgi Má Hilmarssyni, f. 1982, hann á þrjár dætur. 2) Herdís, f. 25. júlí 1953, gift Bjarna M. Jóhannessyni, f. 1953. Synir þeirra eru: a) Jóhannes, f. 1976 fráskilinn. Hans börn eru Aldís Eyja, f. 2000 (stjúpdóttir), Bjarni Magnús, f. 2007, og Grímur Kári, f. 2013, móðir Eva Ýr Gunnlaugsdóttir, f. 1979. b) Guðjón Sverrir, f. 1978, kvæntur Andreu Tryggvadóttur, f. 1977. Þeirra börn eru Alexandra, f. 2003, og Benedikt, f. 2007. 3) Sigríður Birna, f. 15. mars 1955, gift Guðmundi Gíslasyni, f. 1950. Synir þeirra eru: a) Guðjón Sverrir, f. 1973, kvæntur Jónínu Kristínu Snorradóttur, f. 1973. Börn þeirra eru Óskar Ísak, f. 2004, Andri Snær, f. 2006, og Sara Birna, f. 2010. b) Gísli, f. 1978, kvæntur Önnu Gígju Kristjánsdóttur, f. 1983. Dætur þeirra eru Fjóla María, f. 2003, og Thelma Rós, f. 2006.

Valdís ólst upp á Kollsá í Hrútafirði. Barnaskólanám hlaut hún í heimaskóla og einn vetur í Reykjaskóla. Hún flutti með foreldrum sínum og systkinunum Þorvaldi og Áshildi til Reykjavíkur árið 1941. Eftir komuna til Reykjavíkur vann hún við prjónaskap og lærði kjólasaum hjá Guðrúnu Heiðberg. Má segja að þar hafi hún hafið ævistarfið, því hún vann við sauma um áratugaskeið. Aldrei auglýsti hún, en hafði ætíð nóg að gera.

Árið 1973 fór Valdís að vinna í Alaska blómaverslun og vann þar til ársins 1978, en þá stofnaði hún Blómabarinn með samstarfskonu sinni Guðrúnu úr Alaska og ráku þær verslunina til ársins 1993.

Valdís tók virkan þátt í safnaðarstarfi og kvenfélagi Neskirkju.

Þau Sverrir voru alla tíð fastagestir í Vesturbæjarlauginni og mættu þar alla morgna í sund ásamt hópi fólks sem varð góðir vinir þeirra. Þessi hópur hittist í morgunmat hvert hjá öðru og fór saman til útlanda.

Dæja var alla tíð mjög náin Áshildi systur sinni og töluðu þær saman í síma daglega og oft tvisvar á dag!

Útför Valdísar fer fram frá Neskirkju í dag, 14. janúar 2025, klukkan 13.00.

Valdís, ætíð kölluð Dæja, tengdamóðir mín andaðist 21. desember síðastliðinn. Þótt manni bregði við var þetta þó léttir fyrir hana, hafði átt erfiða daga síðasta árið, enda orðin 100 ára.

Ég hitti þessa dásamlegu konu og Guðjón manninn hennar árið 1972 þegar ég og Sirrý mín fórum að draga okkur saman. Dæja var ekki bara góður vinur allra heldur alltaf tilbúin að aðstoða í hvers manns vanda. Heilsteyptari kona er vandfundin og ég bara skildi aldrei tengdamömmubrandara því ekkert passaði við mína! Valdís fór að vinna hjá Alaska árið 1972 og kunni því afar vel, seinna opnuðu hún og Guðrún vinkona hennar Blómabarinn á Hlemmi og ráku það í nokkur ár, eða þar til hún hætti að vinna vegna aldurs. Systkini Valdísar voru Þorvaldur kallaður Daddi, Ingiríður kölluð Inga, Ester (lést mjög ung) Einar (1932-1937) og Áshildur kölluð Ása. Þessum fjölskyldum kynntist ég ágætlega í mörgum ættarmótum enda enginn smá hópur þegar allir koma saman. Þarna naut Dæja sín vel enda kærleikur systkinanna mikill.

Ég mun ætíð minnast þessarar vinkonu minnar og tengdamóður með hlýju og þakklæti. Hinn hæsti mun umvefja hana í kærleika eins og hún á svo sannarlega skilið.

Takk fyrir allt og allt.

Guðmundur Gíslason.

Elsku amma Dæja.

Nú er það sem þú óskaðir þér mest búið að rætast. Þó að söknuðurinn og sorgin séu erfið er óumflýjanlegt að gleðjast með þér því þetta er það sem þú vildir mest. Að sofna og komast til afa Guðjóns.

Fyrstu minningar mínar af þér eru svo skemmtilegar. Alltaf brosandi, bauðst mig alltaf velkominn og alltaf tilbúin að hjálpa. Alltaf að hugsa fyrst og fremst um barnabörnin. Hafa nægan mat til staðar, nægt Hunangs Cheerios, Trix, Cocoa Puffs og í seinni tíð Pepsi Max.

Ég og þú áttum mikinn og góðan tíma saman og sótti ég mikið í þig þegar ég var á þeim aldri þegar ég gat sjálfur hjólað heim til þín, eða tekið strætó upp á Hlemm þar sem þú varst með Blómabarinn. Margt líkt og af afa lærði ég af þér og þar sérstaklega að sauma. Við sátum oft löngum stundum saman þar sem þú varst að sauma föt, kjóla, gera við og margt meira og lærði ég mikið af þér. Ekki furða að margir koma til mín að gera við eða sauma.

Það sem ég hef tekið með mér inn í lífið frá þér er hvernig maður er góð manneskja, alltaf að sjá góðu hliðar á náunganum og hvernig lífsgleði heldur manni ungum lengi í ellinni.

Elsku amma mín, ég reyni að hugsa hlýtt og glaðlega til þín, reyni að hugsa um orðin þín að þetta sé það sem þú vilt, búin að sjá börn, barnabörn og barnabarnabörn heil og hamingjusöm, sátt við lífið og engin sorg við það. En ég á samt erfitt með að halda sorginni inni. Halda tárunum inni. Söknuðurinn er samt til staðar. Takk fyrir allar góðu minningarnar.

Elsku amma Dæja. Hvíldu í friði. Ég elska þig.

Guðjón Sverrir
Guðmundsson.

Elsku Dæja frænka hefur nú kvatt okkur, eftir rétt rúmlega 100 ára magnað lífshlaup. Dæja móðursystir mín var ein af áhrifamiklum persónum æskunnar hjá mér og okkur bræðrunum á Tómasarhaga 9 en hún bjó á Grímshaga ásamt sinni yndislegu fjölskyldu. Húsin stóðu nánast hlið við hlið og því var umgangur á milli mjög mikill með öllum þeim dásamlegu samverustundum sem þessar fjölskyldur áttu saman. Hún var okkur bræðrunum sem önnur móðir sem við fengum alltaf að leita til ef eitthvað bjátaði á eða einungis til að fá að róla í stóru rólunni og fá mjólk og kex þangað til mamma kom heim eftir „skúringarnar“.

Alltaf var skjól hjá Dæju á Grímshaga þegar ég heimsótti vini í vesturbænum eftir að hafa flutt frá Tómasarhaga og gekk maður þar inn á sitt annað heimili og í hennar faðm. Að koma inn í blómabúð lætur mig alltaf hugsa um Dæju frænku. Alaska Miklatorgi eða Blómabarinn Hlemmtorgi en þar áttum við oft góðar stundir þar sem við ræddum heima og geima á meðan ég var að bíða eftir strætó á leið heim úr Verslunarskólanum. Ég veit að við frændsystkinin, börn systranna Ingu og Ásu, eigum eftir að sakna að sjá símanúmerið 5523635 birtast á skjánum á Þorláksmessu þar sem hún hringdi og ræddi við okkur og til að óska okkur og fjölskyldu okkar gleðilegra jóla. Dæja er ein af þremur ótrúlegustu systrum sem Ísland hefur af sér alið og er nú móðir mín, Ása, ein eftirlifandi af þeim þremur. Textinn íslenska konan grípur þeirra lífshlaup betur en nokkuð annað þar sem segir, „hún ætíð er skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf, hún er íslenska konan sem ól þig og helgar sitt líf“.

Nú er elsku mamma búin að missa bestu vinkonu sína til 84 ára, en þær töluðu saman að lágmarki tvisvar á dag, helst oftar. Samband þeirra systra var einstakt og svo fallegt og mikið væri heimurinn betur settur ef fleiri hefðu þessi lífsviðhorf í sínum ranni. Bless elsku „bestasta“ Dæja frænka, þú varst, ert og verður besta frænka í öllum heiminum og við geymum þig í hjarta okkar þar sem þú átt svo stóran sess, Bíddú Bíddú. Elsku Bragi, Heddý, Sirrý og fjölskyldur, mikill verður söknuðurinn fyrir okkur öll og sendum við ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur, fjölskyldan á Tómasarhaga 9.

Guðbrandur
Guðbrandsson.