Svala Birna Magnúsdóttir fæddist á fæðingardeild Landspítalans í Reykjavík 29. desember 1976. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 31. desember 2024.
Foreldrar Svölu eru Bjarnveig Ingvarsdóttir, f. 31. janúar 1955, og Magnús Valur Jóhannsson, f. 2. desember 1954. Systkini Svölu eru Edda Elísabet, f. 29. júlí 1981, maður hennar er Martin Jónas Björn Swift, f. 31. ágúst 1980, og Valur, f. 6. nóvember 1988, kona hans er Elín Ásbjarnardóttir Strandberg, f. 24. ágúst 1987.
Svala giftist Jens Hjaltalín Sverrissyni, f. 18. nóvember 1981, þann 18. júlí 2009. Synir þeirra eru Kristján Ari, f. 8. ágúst 2005, Kjartan Bragi, f. 6. september 2009, og Kolbeinn Daði, f. 2. júní 2014. Foreldar Jens eru Steinunn Jensdóttir, f. 18. nóvember 1955, og Sverrir Ómar Guðnason, f. 15. mars 1955. Bróðir Jens var Vilhjálmur Ómar, f. 25. júlí 1977, d. 20. júní 2024.
Svala Birna ólst upp í Reykjavík og hóf skólagöngu í Ísaksskóla en eftir að fjölskyldan flutti í Seljahverfið 1983 var hún í Seljaskóla og lauk þar grunnskólanámi 1992. Þá lá leiðin í Menntaskólann í Reykjavík þaðan sem hún útskrifaðist stúdent 1996. Svala nam lyfjafræði við Háskóla Íslands, auk þess sem hún fór í skiptinám til Hobart í Tasmaníu. Hún lauk cand.parm.-prófi 2003 og starfaði sem lyfjafræðingur upp frá því, lengst af í Danmörku. Svala og Jens hófu sambúð í Sjálandi í Garðabæ en fluttu 2005 í Borgarnes þar sem Svala hafði tekið við stöðu lyfsala apóteks Lyfju í Borgarnesi í nóvember 2004 og var þá yngsti lyfsali á Íslandi.
Sumarið 2007 fluttu þau til Danmerkur þegar Jens hóf nám í rafmagnstæknifræði við Tækniháskólann DTU í Kaupmannahöfn. Þar bjuggu þau nær óslitið þar til þau fluttu alkomin heim 2023. Fyrstu árin bjuggu þau í Frederiksberg og Svala vann í apóteki til að byrja með en hóf fljótlega störf hjá lyfjafyrirtækinu Actavis. Eftir að Jens lauk námi 2013 bauðst Svölu áframhaldandi starf hjá Actavis á Íslandi og þau fluttu heim. En Danmörk togaði þau til sín, þau fluttu aftur út 2015 og bjuggu síðustu árin í Rødovre. Svala átti eftir að starfa hjá fleiri lyfjafyrirtækjum, síðast hjá Xellia Pharmaceuticals á Amager. Vorið 2020 greindist hún með krabbamein sem ekki fékkst við ráðið en hún hélt áfram sínum störfum á meðan heilsa leyfði.
Útför Svölu Birnu fer fram frá Seljakirkju í dag, 14. janúar 2025, kl. 13.
Útförinni er streymt á slóðinni https://seljakirkja.is/seljasokn/streymi/
Elsku dóttir, Svala Birna Magnúsdóttir, er látin, aðeins 48 ára, og minningar streyma fram. Óhjákvæmilega móta börnin líf manns og þannig hefur það verið með okkar börn. Svala var fyrst, með henni varð til fjölskylda. Fyrstu árin bjuggum við í Gnoðarvogi og þar hófst skólagangan þótt það héti það ekki þá. Leikskóli hennar var Brákarborg. Við fluttum til Englands og dvöldum þar í eitt ár, 1980-1981, og þar varð Svala stóra systir fjögurra og hálfs árs þegar Edda fæddist. Við bjuggum í háskólabænum Durham á Norður-Englandi og hún var fljót að ná „Geordie“-hreimnum. Hún var líka fljót að læra að lesa og gerði það eiginlega sjálf enda mikill bókaormur. Eftir heimkomuna fluttum við fljótlega á Hrefnugötu í Norðurmýrinni og Svala hóf sína formlegu skólagöngu. Það leið þó ekki á löngu þar til við fluttum í Seljahverfið sem þá var í byggingu. Þar var barnmargt og því nóg af leikfélögum. Í Seljaskóla mynduðust vinatengsl til frambúðar. Nýr kafli í lífi okkar allra hófst svo 1988 þegar lítill bróðir bættist í hópinn. Valur varð strax augasteinn systra sinna.
Árin liðu, vinahópurinn stækkaði og fyrr en varði var Svala Birna orðin stúdent og framtíðin óráðin. Lyfjafræði varð fyrir valinu og ný tækifæri tóku við. Foreldrar og bróðir kvöddu Seljahverfið og fluttu í Borgarnes og Svala flaug til Ástralíu. Þetta var í ársbyrjun 2001 og stefnan var tekin á Hobart í Tasmaníu í skiptinám. Lengra var ekki hægt að komast. Þarna dvaldi hún í hálft ár og hvílíkt ævintýri. Þegar heim var komið sýndi hún okkur vídeó af fallhlífarstökki á Nýja-Sjálandi. Hún vildi hlífa okkur.
Fljótlega eftir útskrift kynntist hún Jenna og nýr kafli, sá mikilvægasti, var hafinn. Við gleymum ekki símtalinu frá Jenna þegar Kristján fæddist á sjúkrahúsinu á Akranesi, við vorum orðin amma og afi. Svala var þá komin til starfa sem lyfsali í apótekinu í Borgarnesi og þau ákváðu að festa kaup á nýbyggðu raðhúsi í bænum. Þegar þau svo tóku þá ákvörðun að halda til Danmerkur samglöddumst við. Við sáum í því ný tækifæri fyrir okkur líka. Og það rættist svo sannarlega. Nýr vinahópur varð til og Kjartan bættist í hópinn. Við fylgdumst með úr fjarlægð en það urðu tíðar heimsóknir á báða bóga. Stutt skrepp til Íslands og fæðing Kolbeins gladdi óneitanlega og húsakaup í Rødovre voru gæfuspor.
En svo kom reiðarslagið. Þetta var í byrjun maí, á áætluðum fermingardegi Kristjáns. Fermingu hafði þá verið frestað til haustsins vegna covid. Allt leit vel út í fyrstu, meðferð var fyrirbyggjandi eftir að meinið hafði verið fjarlægt og von um fullan bata í sjónmáli. Fyrir rúmum tveimur árum varð þó endanlega ljóst að það væri ólæknandi. Nú er þetta búið og eftir situr óbærileg sorg, söknuður og eftirsjá. Samt er þakklæti okkur efst í huga.
Takk, elsku Svala Birna, fyrir allt sem þú gafst okkur.
Mamma og pabbi.
Elsku Svala systir mín, ég sakna þín. Það er óraunverulegt að þú sért farin, að ég geti ekki talað við þig einu sinni enn.
Við Svala áttum alltaf gott samband, þó það væri ekki endilega náið lengst af, enda var hún 12 árum eldri en ég og farin að heiman um tvítugt þegar ég var 8 ára gutti. En ég hef margar góðar minningar af okkur frá þeim tíma, eins og að fá að hanga í herberginu hennar í risinu í Kögurselinu og spila tölvuleiki í gömlu tölvunni hennar, hún var ekki endilega alltaf á staðnum samt og hefði kannski ekki verið sátt að ég væri þar að fikta í dótinu hennar.
Þegar hún flutti út þá fékk ég stundum að koma og gista sem mér fannst alltaf ótrúlega spennandi og gaman. Ég hef sterka minningu af einu skipti þar sem ég fékk að prófa FIFA 97, sem mér fannst svo ótrúlega gaman, ég hef ennþá mjög skýra minningu af því sem er mér mjög kær. Sem er líka smá fyndið því þau sem þekkja mig vita að ég er heimsins minnsti áhugamaður um fótbolta í dag.
Við Svala deildum hinsvegar miklum áhuga á fantasíubókmenntum en ein mín fyrstu kynni af þeim var að lesa Hringadróttinsbækurnar hennar Svölu. Ég hafði lesið Harry Potter og Hobbitann á undan en Hringadróttinsbækurnar opnuðu fyrir mér heim epískrar fantasíu. Við fórum meira að segja saman á fyrstu myndina í bíó og það er upplifun sem ég mun aldrei gleyma. Svala átti líka eina bók sem ég tengi svo sterklega við hana en hún heitir Dragonlance Chronicles, þrjár bækur í einu riti, risadoðrantur í svipuðum dúr og Hringadróttinssaga. Munurinn var að sá bókaflokkur var risastór með margfalt meira efni en LOTR og var kveikjan að ævilöngum áhuga á fantasíuheimum. Ég nefni þetta sérstaklega því að ég tengi Svölu svo sterklega við þetta, þetta var okkar „thing“, en líka því þetta hefur hjálpað mér í gegnum árin, því að ég gat alltaf leitað í skjól fantasíuheima þegar eitthvað bjátaði á og ég er mjög þakklátur henni fyrir að hafa kynnt mér þá.
Við áttum okkar samband, þótt fjarlægt hafi verið í gegnum árin, sem ég er feginn að við náðum að rækta betur eftir að hún kom heim. Þá fékk ég að kynnast henni aftur og við gátum deilt okkar sameiginlegu ástríðu á fantasíu, sjónvarpsþáttum og bókum. Gefa hvort öðru tips og deila skoðunum. Ein af mínum kærari minningum síðan Svala fór inn á líknó var þegar við áttum „movie night“ og horfðum á Dungeons and Dragons-myndina saman, borðuðum nammi, hlógum og spjölluðum.
Elsku Svala mín. Ég finn að ég sakna þín ótrúlega mikið, ég finn fyrir mikilli sorg og mig langar svo að geta talað við þig aftur, ræða hvaða bók ég ætti að lesa eða hvaða þáttur sé geggjaður.
Takk fyrir allt saman og sjáumst í Valinor.
Þinn bróðir,
Valur.
Að eiga ekki lengur stóru systur mína er óbærilegt. Þegar hugur minn leitar til strákanna hennar sem hún elskaði svo heitt og dáði svíður mig í hjartað. En það minnir mig líka á hversu elskuð Svala var, hversu dásamleg mamma og eiginkona hún var, hversu frábær stóra systir hún var og yndisleg vinkona, hversu stolta hún gerði foreldra okkar og hversu ótrúlega vel liðin hún var af þeim sem voru svo lánsöm að kynnast henni.
Þó svo ég muni aldrei sætta mig við örlög Svölu systur, að hún hafi þurft að berjast við illskeyttan og sársaukafullan sjúkdóm sem tók hana frá okkur svona unga og hrausta, þá er ég á sama tíma þakklát fyrir lífið sem hún fékk, hversu vel hún nýtti sinn tíma og hversu mikið hún gaf af sér.
Það er svo margt gott hægt að segja um Svölu. Hún var samviskusöm og klár, lærði sjálf að lesa 4 ára, víðlesin, minnug og vel að sér um allt mögulegt. Hún náði langt sem lyfjafræðingur í Danmörku og var þar ótrúlega vel liðin. Hún var líka alltaf vinamörg og einfaldlega laðaði að sér góða og trausta vini.
Við áttum góða æsku saman. Fimm ára aldursmunurinn varð þó sérstök áskorun á tímabili enda ég í hressari og æstari kantinum sem barn og gat það reynst í það minnsta pirrandi fyrir unglinginn Svölu sem hafði erft rólegra geðslag. En við vorum þó alltaf góðar vinkonur og Svala var minn haukur í horni, alveg fram á síðasta dag. Hún þoldi það ekki ef einhver var með leiðindi við mig. Ég minnist þess þegar hún kom askvaðandi mér til hjálpar þegar ég var borin ofurliði í einhverjum slagsmálum í Kögurselinu. Þegar Svala var komin í MR og ég orðin unglingur leit ég mikið upp til hennar. Ég renndi sérstaklega hýru auga til fataskápsins hennar og tónlistarinnar sem hún hlustaði á – og já, ég gekk svolítið í þennan fataskáp án leyfis – en mér var samt á endanum fyrirgefið.
Á þeim tíma sem ég er að klára menntó og Svala er í lyfjafræðinni erum við farnar að sækja meira hvor í aðra og orðnar líkari, árin fimm sem voru á milli okkar voru hætt að skipta máli. Þá hittumst við oft og horfðum á tónlistarmyndbönd, mösuðum um lífið og tilveruna, fórum á taekwondo-æfingar, á djammið, töluðum um djammið og stráka. Tónlistarsmekkurinn var orðinn sá sami – settum hönd upp í loft, stút á varir og nikkuðum með hausnum þegar tónlistin átti það skilið. Svo reyndumst við báðar bara heilmiklir nördar, hvor á sinn hátt.
Þegar Svala og Jenni fluttu með litlu fjölskylduna sína (sem átti svo eftir að stækka) til Danmerkur minnkaði ekki sambandið okkar systra. Í staðinn tóku við tíðar ferðir til Danmerkur sem við fjölskyldan búum alltaf að. Símtölin voru regluleg og ég gat alltaf gengið að stuðningi hennar vísum með góðu spjalli. Þegar veikindin tóku völdin og hún flutti heim til Íslands reyndist systkinasambandið ómetanlegt fyrir okkur öll. Ég vona að samtölin okkar, prjónastundirnar, hláturinn og samveran hafi gert þennan erfiða tíma stundum bærilegri.
Takk fyrir allt elsku besta Svala – minningin þín býr í hjarta mínu og fylgir mér út á enda.
Þín systir,
Edda.
Elsku Svala svilkona mín er látin eftir fimm ára baráttu við krabbamein. Það er svo erfitt að skilja eða vilja skilja að svo sé. Ég man alltaf eftir því þegar ég hitti Svölu í fyrsta skipti þegar hún og Jenni, þá nýbyrjuð saman, komu á fæðingardeildina í október 2004 að hitta Grím Stein, frumburð okkar Villa. Eftir að Kristján Ari, frumburður Jenna og Svölu, fæddist tæpu ári seinna fórum við að kynnast betur og myndaðist traust og góð vinátta milli mín og Svölu. Á þessum árum bjuggum við í sitthvoru landinu og hittumst við mikið fjölskyldurnar. Við komum í heimsókn til Kaupmannahafnar eða þau til Frankfurt til okkar. Upp í huga minn kemur sterkt núna skemmtileg ferð þar sem við keyrðum, með gististoppum, frá Frankfurt til Nice í S-Frakklandi með fimm og sex ára sprelligosa sem dönsuðu um götur Nice og Kjartan sem var tæplega eins árs. Oft fannst okkur gaurarnir okkar vera heldur of hressir og þeir héldu okkur við efnið en þegar þeir voru komnir í ró gátum við átt góðar stundir saman og rætt allt milli himins og jarðar. Það virtist ekki skipta máli að við hittumst ekki oft og við byggjum ekki í sama landi, það mynduðust djúp og sterk tengsl milli fjölskyldnanna og sérstaklega milli krakkanna, sem er svo dýrmætt fyrir frændsystkini að eiga.
Eftir að við fluttum til baka til Íslands reyndum við að vera dugleg að heimsækja fjölskylduna í Kaupmannahöfn. Við vorum í Kaupmannahöfn saman fjölskyldurnar yfir áramótin 2019/2020 (svona korter í Covid) og áttum saman mjög góða tíma. Daginn fyrir afmælið þitt fórum við tvær saman út að borða og meira að segja lentum svo á stað þar sem við dönsuðum og dönsuðum. Það var æðislegt kvöld og það var svo gott að geta rifjað það upp með þér núna á afmælisdaginn þinn, bara tveim dögum áður en þú tapaðir baráttunni. Á þessum tíma minntist þú á að þú værir ekki eins og þú áttir að þér. Ekki óraði mig að þessi samvera í kringum áramótin 2020 myndi vera sú síðasta sem við áttum saman fjölskyldurnar áður en þú varðst veik.
Svala var mikill húmoristi og það var alltaf gott að tala við hana um allt milli himins og jarðar. Fylgdist með hinum ýmsu heimsmálum, hvort sem það var heimspólitík eða hvað austurríski þjóðlagatónlistarmaðurinn Hansi Hinterseer væri að bardúsa. Þau voru ófá myndböndin af honum sem fóru á milli okkar í skilaboðum. Svala var dugleg og mikill baráttujaxl og barðist fram á síðustu stundu því hún var ekki tilbúin og vildi geta upplifað ýmsa viðburði í lífi strákanna sinna.
Ég mun aldrei gleyma samtalinu sem við áttum þegar þú varst að láta mig vita að það væri ekki svo langt eftir að það er heldur betur ekki nein klisja að lífið er núna því við erum heldur betur búin að fá að kynnast því upp á siðkastið að lífið er ekki sjálfsagt og lífið er hreinlega núna.
Elsku Svala, hvíldu í friði og takk fyrir allt sem við áttum í 20 ár. Við söknum þín. Ég, Grímur Steinn og Ásta lofum að passa vel upp á strákana þína og að krakkarnir eigi áfram traust og góð tengsl. Ég er viss um að þið Villi passið upp á hvort annað hvar sem þið eruð.
Þín vinkona,
Guðrún Ásta Sigurðardóttir (Gunna).
Svala Birna, bróðurdóttir mín, var nýorðin 48 ára gömul þegar hún lést að kvöldi 31. desember sl. Hún lést eftir nokkuð langa og erfiða baráttu við krabbamein. Það var aðdáunarvert að fylgjast með Svölu Birnu berjast við sjúkdóminn sem hún ætlaði ávallt að sigra. Hún mætti hverjum degi með ótrúlegu hugrekki og þrautseigju og fyrir það verður hún okkur öllum fyrirmynd.
Svala Birna var fjórum árum yngri en ég og því fylgdumst við að í 48 ár. Stóran hluta af þeim tíma bjuggum við þó ekki í nágrenni við hvor aðra, ýmist hún eða ég að flytja á milli staða. En ávallt skemmtilegar samverustundir þegar við hittumst.
Hún fór svo sannarlega á vit ævintýranna á háskólaárunum sínum þegar hún fór sem skiptinemi til Tasmaníu. Það er ekki hægt að fara lengra frá Íslandi en það. Um tíma bjó hún í Borgarnesi þar sem hún setti svo sannarlega mark sitt á samfélagið sem yngsti lyfsali landsins. Kaupmannahöfn er sá staður þar sem hún bjó stóran part fullorðinsáranna. Þar starfaði hún hjá nokkrum virtum lyfjafyrirtækjum í ábyrgðarmiklum stöðum. Hún virkilega elskaði Kaupmannahöfn.
Svala Birna var guðmóðir Sindra Þórs, frumburðar okkar Ingimars. Það var engin önnur sem kom til greina í mínum huga að taka við því hlutverki en Svala Birna og tók hún við því hlutverki með bros á vör. Það er einmitt sú mynd sem ég fæ upp í hugann núna þessa fáu daga eftir andlát hennar, þ.e. breiða fallega brosið hennar og háværi kraftmikli hláturinn hennar sem gat fyllt hvert rými gleði og lífi.
Í dag kveðjum við Svölu Birnu, þessa sterku, eldkláru og leiftrandi konu. Ég er svo þakklát fyrir að hafa átt ómetanlegar stundir með henni síðustu mánuðina. Í þeim heimsóknum hitti maður reglulega vini hennar og nánustu fjölskyldu og þá sá maður hversu marga góða og nána vini hún átti og hversu vel fjölskyldan stóð við bakið á henni.
Hvíl í friði.
Sólveig Jóhannsdóttir.
Elsku besta Svala mín.
Á svona kveðjustundum er maður alltaf svo meyr og skilur hvorki né trúir að maður muni nokkurn tímann jafna sig alveg.
Við erum búnar að þekkjast síðan ég var sjö ára, þá varstu góð vinkona Auðar systur.
Man þegar ég mætti í fyrsta tímann í lyfjafræði árið 1998, ég var svo ánægð að sjá þig. Sem betur fer eitt kunnuglegt andlit í öllu fjölmenninu.
Í lyfjafræðinni smullum við saman, vá hvað við áttum margar skemmtilegar stundir saman, hvort sem það var í skemmtanalífinu, í skólanum og alls staðar bara. Sumt af því sem við brölluðum saman er eiginlega ekki prenthæft.
Við fórum saman á þrenna tónleika, tvenna með Robbie Williams og eina með Kylie Minogue, og skemmtum okkur konunglega.
Ég man þegar þú kynntist honum Jenna þínum, ég hafði aldrei séð þig svona hamingjusama áður. Það voru stjörnur í augum ykkar beggja og frá þessum degi voruð þið óaðskiljanleg. Man meira að segja daginn sem þið kynntust, 10. júlí 2004. Eignuðust svo seinna þessa þrjá dásamlegu stráka ykkar, Kristján Ara, Kjartan Braga og Kolbein Daða. Yndislegt tríó. Elsku Svala, ég veit ekki hvað ég á að segja, er bara alveg orðlaus ennþá. Við vorum búnar að plana hitting milli jóla og nýárs, en þá varstu bara orðin svo veik að það gekk því miður ekki upp. Hefðum verið góðar, skálað í Pepsi Max og gúffað í okkur nammi.
Loksins, loksins ertu orðin verkjalaus. Ég er alveg handviss að þið Hjördís systir hafi hist þarna uppi og það sé glens og gaman hjá ykkur.
Votta mömmu þinni, pabba, Jenna, strákunum ykkar og systkinum alla mína samúð.
Elska þig að eilífu og mun aldrei nokkurn tímann gleyma þér.
Ástarkveðjur, þín vinkona,
Þórey.
Það er ekki auðvelt að búa fjarri heimahögum og nánustu fjölskyldu. Þannig urðum við „Borups-fjölskyldan“ til á Frederiksberg, Danmörku, og við búum að þeim tengslum enn. Fyrstu kynni okkar voru úti í garði með leikandi eða sofandi smábörnum og kaffibollar í garðinum urðu að fallegri og traustri vináttu. Við hjálpuðum hvert öðru með pössun barna, borðuðum saman, hlupum saman, fórum í ræktina, almenningsgarða á ljúfum dönskum sumrum, tónleika, sjóböð og studdum hvert annað í gegnum nám, vinnu, barneignir og barnauppeldi. Þú Svala okkar, Jenni og strákarnir voruð verðmæt og órjúfanlegur partur af okkar fallega hópi. Við héldum sambandi eftir að fjölskyldurnar fóru að flakka til annarra borga og landa, bæði við fullorðnu og börn okkar, sem eru sum jafnaldra og afskaplega góðir félagar.
Við minnumst þess hvað þú hafðir góða, rólega og hlýja nærveru og alltaf var stutt í snöggt hliðarbros. Þú gast líka vel fíflast og skemmt þér, hafðir gaman af tónlist og tónleikum, lestri, hlaupum og prjónaskap. Einnig komu falleg föt, blómóttir kjólar og smekklegt heimili sterk inn. Þú varst afskaplega klár og fær í þínu fagi og hafðir ákveðna skoðun á heimsmálum. Við erum svo þakklátar fyrir að hafa átt þig sem trygga og yndislega vinkonu og hefðum viljað hafa þig miklu, miklu lengur hjá okkur. Borups-fjölskyldan verður aldrei söm og við munum ætíð bera þig í hjörtum okkar. Við vinkonurnar erum hryggar, föðmum nú hver aðra og grátum og syrgjum þig elsku vinkona.
Við fengum fleiri stundir saman eftir að þú og fjölskyldan fluttuð heim og studdum þig eins og við gátum í gegnum erfið og miskunnarlaus veikindi þar sem þú sýndir ótrúlegan styrk og baráttuvilja. Það var aldrei í boði að leggja árar í bát og við dáðumst öll að hugrekki þínu. Við nýttum tímann okkar saman eftir því sem kostur var, áttum gott spjall, samverustundir á Grettisgötunni og síðar á líknardeild ásamt skreppitúrum á kaffihús, hittingum í heimahúsum, göngutúrum við sjóinn og símtölum frá Danmörku. Við og þínir nánustu fylgdum þér í gegnum þennan dimma dal og svo síðustu skrefin. Við vorum svo lánsöm sum okkar að eiga með þér fallegar og innilegar kveðjustundir og á afmælisdaginn þinn sögðum við þér að við elskuðum þig og værum svo stolt af þér, að þú værir mikil hetja og að þú værir búin að gera allt sem þú mögulega gast.
Elsku Svala, eftir sitja góðar minningar sem við yljum okkur við og dýrmætur kærleikur. Við gerum okkar allra besta við að styrkja kæru Jenna, Kristján, Kjartan og Kolbein um ókomna tíð og þú ert „altid elsket, altid savnet“.
Borups-fjölskyldan,
Hildigunnur og
Hallur, Karen, Linda
og Peter, Svanlaug og Atli og börn.
Í dag kveðjum við Svölu, vinkonu okkar til meira en 30 ára.
Við kynntumst Svölu á fyrsta ári í MR þar sem leiðir okkar flestra lágu saman í 3. A. Hópurinn small saman á menntaskólaárunum og hefur vináttan haldist allar götur síðan.
Svala var traust og góð vinkona. Hún var hress og hláturmild og mikill töffari. Minningin um unga og fallega stúlku með sitt síða, slétta hár í fléttum mun alltaf lifa með okkur.
Eins og gjarnt er á menntaskólaárum var mikið brallað og þau voru ófá afmælin sem við fórum í í Kögurselinu á milli jóla og nýárs. Munum við vel eftir Val, litla bróður, sem skottaðist um til að njósna um vini stóru systur sinnar. Hafði hún gaman af þessu brölti hans og sýndi honum ekki óþolinmæði sem sumar táningsstúlkur gætu gerst sekar um. Svala var skarpgreind og metnaðarfull. Þegar hún ákvað að taka hluta af sínu námi erlendis þá var ekki haldið til nágrannalanda heldur alla leið til Hobart í Ástralíu. Þetta var mikið ævintýri og hugsaði hún ávallt til þessa tíma með hlýju. Hún lauk námi sínu í lyfjafræði og starfaði m.a. í Borgarnesi þar sem hún stýrði apótekinu, ekki orðin þrítug.
Þó að hópurinn hafi tvístrast, bæði á milli bekkja í MR og seinna í háskóla, þá héldust vinaböndin þétt. Þegar makarnir bættust í hópinn stækkaði vinahópurinn enn frekar og gaman var að sjá maka okkar ná vel saman. Börnin bættust við, eitt af öðru en þó á svipuðum tímum og hlógum við stundum að því hversu vel þetta var skipulagt hjá okkur.
Svala og Jenni voru heimsótt hvort sem það var í Borgarnesi eða Danmörku og alltaf urðu fagnaðarfundir. Þau voru góðir vinir og miklir höfðingjar heim að sækja.
Svala kvaddi þennan heim á gamlárskvöld með norðurljósum og flugeldum sem lýstu upp næturhimininn. Við minnumst góðrar og skemmtilegrar vinkonu með mikilli hlýju og söknuði en líka þakklæti fyrir allt það sem við áttum saman.
Elsku Jenni, Kristján, Kjartan, Kolbeinn og fjölskylda, við vottum ykkur innilega samúð okkar.
Anna Katrín, Hrafn, Margrét Rúna, Ólöf og Valdís.
Það er með mikilli sorg í hjarta sem við æskuvinkonurnar kveðjum elsku Svölu Birnu í dag.
Við vorum bekkjarsystur í Seljaskóla frá 8-9 ára aldri en mynduðum okkar góða og trausta fimm stelpna vinkvennahóp á unglingsárunum. Þau ár voru oft á tíðum skrautleg og eigum við margar dýrmætar minningar frá þeim tíma. Við vorum örugglega svolítið fyndið gengi, ein sú minnsta í bekknum og önnur sú stærsta og hinar eins og tröppugangur á milli. En þó að Svala hafi verið lægst í loftinu var hún stór persóna, ropaði og hló hæst með sínum smitandi hlátri og var líklega mest eftir henni tekið, enda var hún bráðgáfuð, sæt og fyndin, klæddi sig skemmtilega og var með hár niður á rass. Hún var líka óhrædd við að fara eigin slóðir og fór til að mynda í ár til Tasmaníu sem skiptinemi og flutti svo búferlum til Danmerkur ásamt Jenna sínum og sonum.
Eftir unglingsárin fórum við allar hver í sína áttina en tengslin sem við höfðum myndað hafa alltaf haldist, sama hvar í lífinu og heiminum við erum staddar. Við heimsóttum Svölu saman og hver í sínu lagi á spítalann og náðum að verja dýrmætum tíma með henni síðastliðið eitt og hálft ár. Oftar en ekki komu synirnir til hennar þegar við sátum hjá henni og það var svo yndislegt að hitta þá líka og sjá glampann í augunum hennar þegar þeir birtust því þeir voru henni allt.
Það er sárt til þess að hugsa að við munum ekki allar verða gamlar saman, því ekkert er betra en að hittast og rifja upp gamlar sögur, tala um líðandi stundu og finna samkennd og stuðning frá góðum vinkonum en Svala mun alltaf vera með okkur í anda. Minningin um yndislega vinkonu mun ætíð lifa.
Elsku Jenni, Kristján Ari, Kjartan Bragi og Kolbeinn Daði, Bjarnveig og Magnús, Edda og Valur, við vottum ykkur samúð og megi guð styrkja ykkur í sorginni.
Anna, Fanney, Hildur og Margrét Linda.
Grunlaus gengum við inn í Háskóla Íslands árið 1998 þegar við hófum nám í lyfjafræði. Við vorum handviss um að nú væri alvaran tekin við. Ekki óraði okkur fyrir því að við værum að stíga inn í skemmtilegasta æviskeiðið okkar.
Við vorum fámennur bekkur og því afar samheldin. Þegar við hugsum til Svölu okkar birtist okkur fyrst hennar breiða, blíða, bjarta bros. Fljótt á eftir kemur hláturinn sem hreif alla með sér. Í honum leyndi sér ekki gauragangurinn og stuðið sem bjó í okkar vinkonu. Með Svölu hlógum við meira, sungum hærra og dönsuðum lengur, miklu lengur.
Ævintýrahjarta hennar sló í föstum takti og þegar við vorum komin á 3. ár tilkynnti hún okkur að óvörum að hún ætlaði í skiptinám til Tasmaníu. Sum okkar þurftu að líta á landakortið til að staðsetja það. Við urðum nær skelfingu lostin að sjá þessa litlu eyju sunnan Ástralíu, en Svala var full tilhlökkunar.
Elsku hjartans fallega Svala okkar. Takk fyrir að vera kryddið í tilveru okkar á háskólaárunum og lífsins kennari. Við munum varðveita minningu þína vel, hún mun gera okkur sterkari, hugrakkari. Takk fyrir að vera þú fyrir okkur. Elsku yndislegi Jenni okkar, Kristján Ari, Kjartan Bragi og Kolbeinn Daði. Fegurð Svölu og ljós hennar skín í gegnum ykkur. Megi allir góðir vættir umvefja ykkur og vernda.
Spatúlurnar;
Arna, Brynleifur, Elsa, Elsa Steinunn, Inga Lilý, Magnes, Sigríður Elín, Þóra Kristín og Þórey.