Steinþór Steingrímsson fæddist 21. mars 1929. Hann lést 30. desember 2024.
Útför hans fór fram 6. janúar 2025.
Elsku afi minn hefur fengið hvíldina sína, 95 ára að aldri.
Afi Steini var einstakur maður og stórbrotinn karakter og átti hann gæfuríka og viðburðamikla ævi.
Afi og amma Svala kynntust ung og gengu í gegnum lífið saman í 75 ár og eignuðust fimm börn.
Þau fóru í gegnum fjölbreytt tímabil saman, bæði gleði og áskoranir og lífið var ekki alltaf dans á rósum, en eins og afi sagði einhvern tímann; það fá allir leiða á að dansa á rósum. Ég man alltaf eftir þeim sem mjög nánum hjónum sem nutu lífsins saman og það skein í gegn hversu mikið þau elskuðu hvort annað.
Afi var listrænn og hæfileikaríkur, mjög greindur, mikill hugsuður, einstaklega glæsilegur alla tíð og einn mesti töffari sem ég hef kynnst.
Hann var frábær píanisti og byrjaði ungur að spila með hljómsveitum og var á tímabili fremsti djasspíanistinn á Íslandi.
Afi var líka afbragðs listmálari og hélt fjölda sýninga og naut sín vel með málarapensilinn í hönd.
Þau amma unnu saman og ferðuðust um landið með fatamarkaði og á ég margar skemmtilegar minningar frá því þegar ég fékk að fara með þeim í sölutúr.
Afi og amma voru stór og mikilvægur hluti af lífi mínu og á ég margar dýrmætar minningar af þeim, hvort sem það var yfir hátíðarmáltíð á jólum eða í sunnudagsmatarboðunum heima hjá foreldrum mínum. Margar af uppáhaldsminningum mínum eru heima hjá ömmu og afa í Hæðargarðinum. Ég naut þess að hlusta á afa spila á flygilinn og spjalla síðan við þau yfir kaffibolla þar sem afi deildu visku sinni og hugmyndum, sem voru oft mjög framúrstefnulegar. Í þessum heimsóknum fóru þau amma oft á flug og fengum við að heyra skemmtilegar og oft skrautlegar sögur.
Afi var ótrúlegur sögumaður. Hann dró upp myndir af ævintýrum sínum með orðum, lýsti fólki, stöðum og atburðum með slíkri nákvæmni að maður gat séð allt fyrir sér. Hann sagði frá siglingum sínum um allan heim, sjóræningjum í Asíu, sögum úr tónlistarheiminum frá Hótel Borg og úti í heimi og fjölmörgum skemmtilegum atvikum úr ferðalögum hans og ömmu. Mér fannst alltaf magnað hvað hann mundi vel vísur, nöfn, götuheiti og atburði sem áttu sér stað fyrir mörgum áratugum og gat lýst þeim í þvílíkum smáatriðum.
Afi las mikið og sýndi mörgu áhuga, hvort sem það var heimspeki, saga, vísindi, list eða skáldsögur. Hann passaði upp á að þjálfa hugann og jafnvel í bílnum bjó hann til reiknidæmi og lagði saman bílnúmerin á þeim bílum sem hann mætti á ferð sinni.
Hann hafði mikil áhrif á mig, bæði með list sinni, hæfileikum og visku. En einnig með stuðningi sínum og trúnni á mér, hann var hvetjandi, umhyggjusamur og yndislegur afi.
Það er erfitt að kveðja afa Steina. Ég mun sakna hans sárt en ég er innilega þakklát fyrir þann tíma sem við áttum saman. Nú er það okkar að halda áfram að segja sögurnar hans og varðveita minninguna um þennan einstaka mann.
Hvíl í friði elsku afi minn,
Helga Hrönn
Þorsteinsdóttir.