Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Uppbygging nýs fjölbýlishúss við Frakkastíg 1 í Reykjavík er komin vel á veg og eru stórir bogadregnir gluggar á jarðhæð komnir í ljós. Framkvæmdafélag Arnarhvols byggir húsið fyrir Iðu sem hafði sigur í samkeppni um grænt húsnæði framtíðarinnar á lóðinni Frakkastíg 1.
Björt Ólafsdóttir framkvæmdastjóri Iðu segir áformað að ljúka uppsteypu í lok mars. Síðan taki við uppsetning glugga, innanhússfrágangur og uppsetning innréttinga. „Við gerum ráð fyrir að íbúar séu fluttir inn að ári liðnu, í janúar 2026,“ segir Björt.
Á almennan markað
Íbúðirnar, alls tíu talsins, muni fara í sölu á almennum markaði.
Fjölbýlishúsið á Frakkastíg 1 verður sjö hæðir. Það er teiknað af Arnhildi Pálmadóttur arkitekt ásamt dönsku arkitektunum Lendager. Hæsti hluti hússins verður til norðurs, til móts við Sæbraut, en það mun svo stallast niður til suðurs
Björt segir húsið hannað í anda hringrásarhagkerfisins. Við byggingu þess sé þannig lögð sérstök áhersla á að lágmarka kolefnisspor, sem birtist í allri nálgun og efnisvali.
„Þetta verður sérstakt hús og byggt samkvæmt ströngum umhverfisskilmálum. Við stefnum að því að kolefnissporið af þessari byggingu verði 50% lægra en af dæmigerðu viðmiðunarhúsi. Það er krefjandi verkefni en okkur sýnist það vera að takast. Meðal annars endurnýtum við byggingarefni, en það er samkvæmt þeirri stefnu stjórnvalda að hlutfall endurnýttra afurða í byggingum verði að fáum árum liðnum orðið allt að 43%. Við erum að stíga fyrstu skrefin í þá átt,“ segir Björt.
Átta bílskúrar í kjallara munu fylgja húsinu og verða geymslur inn af þeim. Gróður verður á þaki hússins, sem er liður í því að tryggja blágrænar ofanvatnslausnir. Til stóð að nota hraun í útveggjaklæðningu hússins.
Björt segir það hins vegar hafa komið í ljós að kolefnissporið af slíkri hraunklæðningu, og tilheyrandi undirvirki, hefði verið of mikið.
„Þannig að við þurftum að leita annað og nú erum við að undirbúa að setja endurnýtt vegrið frá Vegagerðinni utan á húsið. Það er búið að reikna það fram og til baka og niðurstaðan er að það er gríðarlega endingargott og sterkt efni sem stuðlar auk þess að minna kolefnisspori,“ segir Björt.