Kal Bændur urðu fyrir búsifjum vegna kals í túnum síðasta vor.
Kal Bændur urðu fyrir búsifjum vegna kals í túnum síðasta vor. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Bændur sem urðu fyrir kaltjóni veturinn 2023 til 2024 fá styrk úr Bjargráðasjóði til að mæta kostnaði vegna tjónsins. Stjórn Bjargráðasjóðs samþykkti á fundi sl. föstudag að veita styrki sem nema tæplega 300 milljónum króna vegna kaltjónsins

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Bændur sem urðu fyrir kaltjóni veturinn 2023 til 2024 fá styrk úr Bjargráðasjóði til að mæta kostnaði vegna tjónsins. Stjórn Bjargráðasjóðs samþykkti á fundi sl. föstudag að veita styrki sem nema tæplega 300 milljónum króna vegna kaltjónsins. Sérstakt 230 milljóna króna framlag kemur úr varasjóði fjárlaga og 70 milljónir af almennum fjárheimildum Bjargráðasjóðs í fjárlögum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá sjóðnum.

Segir þar að samtals hafi borist 121 gild umsókn um styrki til sjóðsins vegna tjóns og fá 89 umsækjenda styrk. Frá þeirri fjárhæð dragast innborganir sem greiddar voru 17 umsækjendum í september 2024 upp á tæplega 46 milljónir króna. Í 32 tilvikum var tjón metið undir lágmarksviðmiði fyrir styrkveitingu. Í þeim tilvikum var kal á búinu minna en 25% og/eða tjón vegna kals metið undir 500 þúsund krónum.

Segir Bjargráðasjóður að við mat á umsóknum bænda hafi einkum verið byggt á haustskýrslum úr tölvukerfinu Bústofni þar sem bændur skrá árlega fjölda búfjár og fóðuröflun. Við vinnslu hafi villur í skráningum komið í ljós sem varð til þess að útreikningar á styrkjum töfðust verulega og segir í tilkynningu sjóðsins að enn sé unnið að leiðréttingum vegna þess.

Mat sjóðsins er að upphæð styrkja dugi fyrir tæplega 70% heildarkostnaðar vegna kaltjónsins, að frádreginni eigin þátttöku umsækjenda að fjárhæð 500 þúsund krónur.

Fram kemur að í þessari viku verði u.þ.b. 80% af áætluðum styrkjum greidd til umsækjenda, en lokagreiðsla muni fara fram þegar öllum leiðréttingum er lokið.