Hneykslið vegna vöruskemmunnar risavöxnu, sem Reykjavíkurborg leyfði að reist væri fyrir stofugluggann hjá fólki í Breiðholti, er ekki í rénun. Svörin innan úr Ráðhúsi eru bæði margvísleg og misvísandi, en flest á þá lund að öllum öðrum sé um að kenna, en hvorki hósti né stuna um hvernig rétta megi hlut íbúanna. Þeir geta víst þakkað fyrir meðan skuldinni er ekki skellt á þá sjálfa.
Á föstudag kom þó Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs, og svaraði spurningum Stefáns Einars Stefánssonar í Spursmálum á mbl.is. Hún varðist fimlega en var helst á því að fyrst kerfið hefði brugðist í einhverju væri réttast að gera það flóknara og auka völd skriffinna. Hún játaði að eitthvað hefði brugðist en taldi engan bera ábyrgð á því.
Vera má að stjórnsýsluathugun leiði í ljós handvömm embættismanna. Þeirra æðstur er borgarstjóri. En á endanum eru það borgarfulltrúar, kjörnir fulltrúar borgaranna, sem svara þurfa til ábyrgðar. Meirihluti þeirra ræður borgarstjóra og sami meirihluti ræður ráðum borgarinnar.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri þegar hneykslið varð, hefur reynst ófáanlegur til þess að svara Morgunblaðinu nokkru um það. Og ástæðan fyrir því að sviðsstjórinn kom í viðtal var sú að formaður umhverfis- og skipulagsráðs, Dóra Björt Guðjónsdóttir, vildi ekki, þorði ekki, að koma.
Ekki þarf að hafa mörg orð um gagnsæi og heiðarleika slíkra vinnubragða. Stjórnmálamenn sem geta ekki eða vilja ekki svara spurningum fjölmiðla um embættisfærslu sína – virða almenning ekki viðlits og fela sig fyrir borgarbúum – eiga ekkert erindi í stjórnmál, vanrækja frumskyldu sína; eru ekki til neins.