Einar Freyr Elínarson
Margir hafa tjáð sig um heilbrigðisþjónustu á Suðurlandi undanfarið. Eðlilega sætta íbúar á Suðurlandi sig ekki við að læknislaust sé í samfélögum sem eru í örum vexti og hafa verið í mörg ár. Að ómögulegt sé að úrskurða mann látinn á hjúkrunarheimili er ömurleg birtingarmynd yfir þjónustustigið sem íbúum er boðið upp á.
Þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir hefur lítið verið brugðist við af hálfu ríkisins eða stofnana þess. Engin framtíðarsýn virðist vera um það hvernig eigi að byggja þjónustuna upp þannig að samfélög geti haldið áfram að vaxa.
Lítill skilningur virðist vera á mikilvægi þess að tryggja öryggistilfinningu íbúa né heldur að fulltrúar ríkisins finni til ábyrgðar gagnvart sínum hlut í því verkefni. Forgangsröðun fjármuna ríkisins er augljóslega röng og það er þeirra sem fara með fjárveitingarvaldið að breyta henni.
Hvorki hefur gengið að byggja upp heilbrigðisþjónustu né löggæslu á Suðurlandi og mikið skortir á að fjárfest sé í samgönguinnviðum. Allt eru þetta þættir sem hafa mikil áhrif á atvinnuþróun, búsetuskilyrði og öryggistilfinningu íbúa.
Of mikil miðstýring þjónustu af hálfu ríkisins hefur dregið mjög úr tækifærum nærsamfélaga til að hafa áhrif á hana. Sveitarfélög hafa þannig litla sem enga beina aðkomu að stefnumótun fyrir þjónustu, svo sem heilbrigðisþjónustu eða löggæslu, þó að hvoru tveggja séu gríðarmikil hagsmunamál nærsamfélagsins. Þróunin hefur verið slæm og það er ekkert sem segir okkur að það sé að fara að breytast nema um það verði tekin pólitísk ákvörðun.
Það er orðið tímabært að alþingismenn einbeiti sér að því sem á að vera kjarnastarfsemi ríkisins. Nóg er komið af fjárhagslega íþyngjandi og illa útfærðum verkefnum sem innleidd eru í fljótfærni eins og jafnlaunavottun og borgað þegar hent er. Þegar verkefnin eru of mörg til að hægt sé að sinna þeim vel þarf oft að forgangsraða því hvað er gert og hverju á að sleppa eða fresta.
Þetta á ekki að þurfa að snúast um getu ríkisins, hún er til staðar ef menn forgangsraða rétt. En á meðan engu er breytt er það ígildi yfirlýsingar um að ríkið skorti allan vilja til þess að tryggja íbúum þá grunnþjónustu sem þeir eiga rétt á.
Höfundur er sveitarstjóri Mýrdalshrepps.