Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Enn einu sinni er karlalandsliðið í handbolta gleðigjafi og helsta umræðuefni janúarmánaðar hjá íslensku þjóðinni.
Í 25. skipti af 26 mögulegum frá aldamótum er liðið mætt til leiks á HM eða EM og á 28. stórmótið á 21. öldinni þegar Ólympíuleikarnir eru taldir með.
Þrettán sinnum á þessum 28 mótum sem eru að baki hefur liðið endað í tíunda sæti eða ofar.
En nú eru liðin fimmtán ár síðan liðið komst á verðlaunapallinn á EM í Austurríki og alla tíð síðan hefur draumurinn um fleiri verðlaun lifað.
Það er í lagi að láta sig dreyma en samt ráðlegt að vera með fæturna á jörðinni. Í dag yrði það virkilega góður árangur að komast í átta liða úrslit og allt fram yfir það væri bónus.
Íslenska liðið er tiltölulega heppið með staðsetningu sína í riðla- og milliriðlakeppninni því það getur komist í átta liða úrslit án þess að mæta neinu af allra bestu liðum heims.
Útlit er fyrir afar jafnan og óútreiknanlegan milliriðil þar sem Ísland, Slóvenía, Króatía og Egyptaland ættu að slást um tvö sæti í átta liða úrslitum.
Það þyrfti engum að koma á óvart þó allir leikir milli þessara fjögurra liða yrðu hnífjafnir spennuleikir.
Og í slíkum leikjum er gott að hafa sigurvegara, reynda leikmenn sem þekkja það vel að knýja fram mikilvæga sigra eins og margir íslensku leikmannanna gera í vinnunni með sínum öflugu félagsliðum.
Komist liðið í gegnum milliriðilinn og í átta liða úrslit er sennilega Frakkland eða Ungverjaland mótherjinn þar.
En það er víst betra að hugsa um einn leik í einu. Fyrsti mótherjinn á fimmtudagskvöldið er lið Grænhöfðaeyja.