Hópur kvenna hefur sakað metsöluhöfundinn Neil Gaiman um að hafa brotið á þeim kynferðislega. Þær stigu fram í viðtali í New York Magazine. Í frétt Variety um málið kemur fram að í júlí á liðnu ári hefði Tortoise Media greint frá því í hlaðvarpsseríu að nokkrar konur hefðu sakað Gaiman um kynferðisofbeldi. Í þeirri umfjöllun höfðu konurnar ekki komið fram undir nafni en það gera þær í umfjöllun New York Magazine sem ber yfirskriftina „There Is No Safe Word“ eða „Það er ekkert öryggisorð“. Þar segja átta konur frá samskiptum sínum við rithöfundinn.
Konurnar, sem flestar voru um tvítugt þegar þær kynntust Gaiman, lýsa því hvernig hann hafi óskað eftir því að þær kölluðu hann „húsbónda“ (e. master). Hann hafi á móti lítillækkað þær, kallað þær þræla og farið sínu fram. Lýsingar kvennanna eru grófar og þar kemur fram að þær hafi ekki gefið samþykki fyrir öllu því sem fram fór þótt þær hafi sjálfviljugar tekið þátt í sumu. Gaiman hefur sjálfur neitað öllum ásökunum og sagt kynlífið hafa farið fram með samþykki en í Tortoise-hlaðvarpinu sögðu talsmenn Gaimans að BDSM-kynlíf væri ekki allra en það væri löglegt ef báðir aðilar gæfu samþykki sitt.