Sjónarsviptir Listvinafélagið og kórarnir tveir, Mótettukórinn og kammerkórinn Schola Cantorum, hafa glatt landsmenn (og raunar miklu fleiri) um áratugaskeið, skrifar rýnir um tónleikana í Hörpu. Flutningurinn á Jólaóratóríunni voru lokatónleikar Listvinafélagsins í Reykjavík, sem hefur verið hugsjónastarf hjónanna Ingu Rósar Ingólfsdóttur og Harðar Áskelssonar.
Sjónarsviptir Listvinafélagið og kórarnir tveir, Mótettukórinn og kammerkórinn Schola Cantorum, hafa glatt landsmenn (og raunar miklu fleiri) um áratugaskeið, skrifar rýnir um tónleikana í Hörpu. Flutningurinn á Jólaóratóríunni voru lokatónleikar Listvinafélagsins í Reykjavík, sem hefur verið hugsjónastarf hjónanna Ingu Rósar Ingólfsdóttur og Harðar Áskelssonar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Harpa Jólaóratórían ★★★★★ Tónlist: Johann Sebastian Bach. Texti: Biblíuvers, sálmaerindi og frumsaminn texti (sennilega eftir Christian Friedrich Henrici). Einsöngvarar: Herdís Anna Jónasdóttir (sópran), Alex Potter (kontratenór), Benedikt Kristjánsson (tenór) og Jónas Kristinsson (bassi). Kórar: Mótettukórinn og Schola Cantorum. Hljómsveit: Alþjóðlega barokksveitin í Reykjavík. Konsertsmeistari: Tuomo Suni. Stjórnandi: Benedikt Kristjánsson. Lokatónleikar Listvinafélagsins í Reykjavík í Eldborg Hörpu sunnudaginn 29. desember 2024.

Tónlist

Magnús Lyngdal

Magnússon

Það stóð mikið til í Hörpu sunnudaginn 29. desember síðastliðinn, þegar Listvinafélagið í Reykjavík (áður kennt við Hallgrímskirkju) blés til lokatónleika eftir samfellt starf í 42 ár. Þar komu saman Mótettukórinn og kammerkórinn Schola Cantorum ásamt Alþjóðlegu barokksveitinni í Reykjavík en á efnisskránni voru fjórar af sex kantötum sem saman mynda Jólaóratóríuna eftir Johann Sebastian Bach (1685-1750).

Jólaóratórían á sér merkilega sögu. Hún ætluð til flutnings á sex dögum yfir jólahátíðina, það er að segja ein kantata á dag í sex daga frá jóladegi fram á þrettándann og þannig kom verkið fyrst fyrir eyru kirkjugesta í Leipzig í desember og janúar 1734 og 1735. Textinn er sóttur í biblíuvers og sálmaerindi, auk þess sem verkið hefur að geyma töluvert af frumsömdum texta, sennilega af hendi náins samstarfsmanns Bachs, Christians Friedrichs Henricis. Töluvert af tónlist Jólaóratóríunnar endurvann Bach hins vegar úr eldri verkum, þar á meðal úr veraldlegum kantötum.

Flutningurinn á Jólaóratóríunni í Hörpu á þriðja síðasta degi ársins 2024 var fyrsta flokks og gildir þá einu hvert var litið. Kórarnir skiptu að mestu með sér verkum (sungu þó saman á nokkrum stöðum) en söngurinn var prýðilegur sem og textaframburður.

Hljómurinn í Alþjóðlegu barokksveitinni í Reykjavík var líka ákaflega fallegur en kannski ekki ýkja mikill. Jafnvægið milli kóra og hljómsveitar annars vegar og svo hljómsveitar og einsöngvara var hins vegar prýðilegt og er það ekki síst stjórnandanum, Benedikt Kristjánssyni, að þakka. Nokkrir hljóðfæraleikarar áttu stórleik og langar mig sérstaklega að hrósa konsertmeistaranum, Tuomi Suni.

Eins og ég nefndi gildir einu hvar mann ber niður og á það líka við um einsönginn. Jóhann Kristinsson (bassi) og Herdís Anna Jónasdóttir (sópran) komust einkar vel frá sínu en kannski stálu bæði Benedikt Kristjánsson (tenór, guðspjallamaðurinn) og Alex Potter (kontratenór) pínulítið senunni. Potter söng frábærlega, ekki síst a-moll-aríuna „Bereite dich, Zion, mit zärtlichen Trieben“ (kantata I). Frásögn Benedikts í hlutverki guðspjallamannsins var líka einkar sannfærandi en hann stjórnaði líka öllu saman (ásamt því að syngja einsöng) og er það ekki lítið afrek (fetar hann þar meðal annars í fótspor þýska tenórsöngvarans og hljómsveitarstjórans Peters Schreier).

Ég vil líka hrósa Listvinafélaginu fyrir glæsilega tónleikaskrá sem hafði meðal annars að geyma alla texta, bæði á frummálinu sem og í íslenskri þýðingu. Ágrip Halldórs Haukssonar af sögu og tilurð Jólaóratóríunnar var líka til fyrirmyndar.

Listvinafélagið og kórarnir tveir hafa glatt landsmenn (og raunar miklu fleiri) um áratugaskeið. Efnisskrá þeirra í gegnum tíðina hefur ekki einungis verið metnaðarfull, heldur líka glæsilega saman sett og það verður sjónarsviptir að tónleikahaldi Listvinafélagsins. Þar hafa margir lagt hönd á plóg en að öðrum ólöstuðum hefur hugsjónastarf hjónanna Ingu Rósar Ingólfsdóttur og Harðar Áskelssonar ekki riðið við einteyming. Það var því býsna tilfinningarík stund þegar þau stigu á svið Eldborgar að flutningi loknum við standandi lófatak. Er það vel og ber að þakka óeigingjarnt framlag þeirra til íslensks tónleikalífs um áratuga skeið.

Bravi tutti!