Eftirlit verður hert á Eystrasalti á næstunni undir merkjum Atlantshafsbandalagsins. Ástæðan er sú að undanfarna mánuði hafa sæstrengir og leiðslur á botni Eystrasaltsins farið í sundur og er sterkur grunur um skemmdarverk, sem runnin séu undan rifjum Rússa.
Mark Rutte framkvæmdastjóri NATO greindi frá þessu á fundi í Helsinki í gær, sagði að um sérstaka aðgerð væri að ræða og yrðu kallaðar til freigátur, þyrlur og flugvélar auk þess sem bætt yrði í annan viðbúnað. Ekki hefði verið ákveðið hversu lengi þessi aðgerð myndi standa.
Talað er um „skuggaflota“ Rússa, oft gömul skip með óljóst eignarhald, sem sigli með hráolíu og unnar olíuafurðir undir hentifánum og séu notuð til að vinna skemmdir á strengjum og leiðslum neðansjávar.
Alexander Stubb forseti Finnlands sagði að utanríkisráðuneyti Atlantshafsbandalagsríkja við Eystrasaltið hefðu sett á fót hóp sérfræðinga í lögum til að meta hvað hægt væri að gera án þess að þrengja að frelsi til siglinga á höfunum.
Margt hefur breyst á Eystrasaltinu frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar árið 2022.
Fyrir innrásina gátu Rússar siglt út í Atlantshaf hindrunarlaust frá höfnum á þremur stöðum. Af þeim er aðeins Barentshafið eftir.
Nú er Bosporussund lokað fyrir ferðum rússneskra herskipa.
Fyrir hrun Sovétríkjanna réðu Rússar yfir austur- og suðurhluta Eystrasalts og í mynni þess voru þrjú NATO-ríki, Vestur-Þýskaland, Danmörk og Noregur. Við sameiningu Þýskalands og inngöngu Póllands og Eystrasaltsríkjanna í NATO þrengdist að Rússum. Eftir innrásina í Úkraínu gengu síðan Finnar og Svíar í NATO. Hefur verið talað um að nú sé Eystrasaltið orðið að NATO-innhafi sem Rússar hafi aðgang að frá Pétursborg og Kalíníngrad, sem liggur á milli Póllands og Litháens og heyrir undir Rússa.
Full ástæða er fyrir því að auka viðbúnað á Eystrasaltinu vegna ítrekaðra skemmda á strengjum og leiðslum. Hingað til hafa þessi skemmdarverk ekki valdið miklum usla. Þarna liggja það margir strengir á hafsbotni að hægt hefur verið að leiða samskipti eftir öðrum leiðum. Þá hefur verið hægt að gera við skemmdir á tiltölulega stuttum tíma.
Þessi þróun í Eystrasaltinu gefur fullt tilefni til að huga að öryggi samskipta hér á landi. Það er útilokað að vakta strengi á hafsbotni í Norður-Atlantshafi öllum stundum. Mikilvægir strengir milli Ameríku og Evrópu liggja um GIUK-hliðið svokallaða, sem nær frá Grænlandi um Ísland til Bretlands. Fari þeir strengir í sundur sem tengja Ísland við umheiminn er ekki svo auðvelt að leiða samskipti annað.
Eystrasaltið er nú í brennidepli, en samgöngur á norðurslóðum eiga eftir að fara vaxandi eftir því sem íshettan á Norðurskautinu minnkar og auðveldara verður að sigla hina svokölluðu norðurleið. Nú þegar er mikið um grunsamlegar skipaferðir Rússa í Barentshafi og á Norður-Atlantshafi sem ætla má að hafi hernaðarlegan tilgang.
Bandaríkin hafa aukið verulega hernaðarlega viðveru sína á Íslandi vegna vaxandi spennu í norðurhöfum og af sömu ástæðu er Grænland nú í sviðsljósinu auk þeirra auðlinda sem þar er að finna.
Hér á landi komast þessi mál varla á dagskrá, hvernig sem á því stendur. Það gengur ekki að hér verði viðsnúningur í öryggismálum án þess að því sé gefinn almennilegur gaumur eða það sé rætt.
Það er til marks um bergmál frá tímum kalda stríðsins að ekki sé aðeins farið að tala aftur um GIUK-hliðið, heldur er farið að nota hugtakið án útskýringar.
Á tímum Míkhaíls Gorbatsjovs, síðasta leiðtoga Sovétríkjanna, var talað um Norðurskautið sem svæði friðar og stöðugleika. Norðurskautsráðið var birtingarmynd þeirrar hugsunar, en hún er nú í uppnámi svo ekki sé meira sagt. Norðurskautsráðið er sem lamað þótt Rússar hafi ekki sagt sig úr því. Þeir hafa hins vegar farið úr bæði Barentsráðinu og Eystrasaltsráðinu.
Rússar horfa nú frekar til Kína, enda hafa viðskipti þeirra að stórum hluta færst til Asíu frá Evrópu. Jafnvel þótt takist að binda enda á stríðið í Úkraínu er allsendis óvíst að samskiptin við Rússa jafni sig í bráð.
Það þýðir að varúðar verði í vaxandi mæli þörf í Barentshafi og á Atlantshafinu. Spennan er vissulega ekki orðin sambærileg við Eystrasaltið, en eftir því sem Rússum verður gert erfiðara fyrir að valda usla þar verður líklegra að þeir leiti veikra bletta annars staðar.