„Frumvarpið fór fyrir þingið í byrjun síðasta árs og dagaði svo uppi í fyrravor. Frumvarpið var aftur sett á dagskrá í haust og dagaði aftur uppi þegar þing var rofið og boðað var til kosninga.“
Þetta segir Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga (LS), spurður um afdrif frumvarps stjórnvalda um réttarstöðu þeirra sem eiga kröfur á hendur opinberum aðilum, til dæmis yfirvofandi greiðsluörðugleika Íbúðalánasjóðs (ÍL-sjóðs), sem ViðskiptaMogginn fjallaði ítarlega um á síðasta ári.
Málefni ÍL-sjóðs komust í hámæli haustið 2022, þegar þáverandi fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson boðaði til blaðamannafundar til að kynna niðurstöðu skýrslu um stöðu og framtíð sjóðsins.
Í skýrslunni kom fram að ef ekkert yrði gert myndi ríkissjóður þurfa að leggja sjóðnum til 200 milljarða króna að núvirði. Hins vegar ef sjóðurinn yrði gerður upp með sölu eigna og greiðslu skulda yrði neikvæð staða hans um 47 milljarðar og 150 milljarðar myndu sparast. Hópur lífeyrissjóða taldi frumvarpið hafa verið sett til höfuðs íbúðabréfum í þeirra eigu og slitameðferð myndi gjaldfella bréfin áður en ávöxtunartími þeirra væri liðinn.
Að mati Óttars ætti nýja ríkisstjórnin láta það ógert að endurvekja frumvarpið.
„Allt frumvarpið er þannig að það myndu ekki sparast neinir fjármunir með því að setja ÍL-sjóð í slitameðferð. Því til viðbótar sýnir frumvarpið vilja stjórnvalda til að fara í slag til þess að reyna koma sér frá skuldum sjóðsins. Að mínu mati yrði það vond vegferð að endurvekja þetta mál,“ segir Óttar.