Helgi Snær Sigurðsson
Framboðið af sjónvarpsþáttaröðum hefur aldrei verið meira og hörð er samkeppnin um áskrifendur að hinum ýmsu veitum. Sjónvarp Símans tekur þátt í þeim slag og meðal efnis sem þar er boðið upp á eru þættirnir From, eða Frá. Nú er ég kominn langleiðina með aðra seríu þáttanna sem verða sífellt skrítnari. Varað skal við spilliefni áður en lengra er haldið.
Þættirnir minna töluvert á Lost, álíka furðulega þætti sem framleiddir voru á árunum 2004 til 2010, urðu ruglaðri með hverri syrpunni og enduðu úti í móa. Annar eins ruglendir á þáttaröð er vandfundinn en From er á góðri leið með að ná sama marki. Svo merkilega vill til að einn aðalleikara From, Harold Perrineau, lék einmitt í Lost. Perrineau er sumsé ennþá týndur og virðist leita aftur í óvissuna og af henni er sannarlega nóg í From. Nú er hann týndur í bandarískri sveit og finnur ekki leiðina heim frekar en fyrri daginn. Auk þess þarf hann að glíma við vitgranna nágranna, síbrosandi uppvakninga sem éta fólk og undarlegar pöddur sem búa innra með honum. Svo fátt eitt sé nefnt!
Ég er býsna viss um að þessir þættir munu, líkt og Lost, enda úti í móa. Perrineau mun líklega aldrei komast heim til sín, vesalings maðurinn.