Tekjur KAPP fyrir árið 2023 voru um tveir milljarðar króna. Tekjurnar jukust áfram á síðasta ári, 2024, eins og Ólafur Karl Sigurðarson nýráðinn aðstoðarforstjóri útskýrir fyrir blaðamanni ViðskiptaMoggans. „Það hefur verið góður vöxtur á milli ára og við sjáum fram á áframhaldandi vöxt hjá samstæðunni, bæði í rekstri KAPP ehf. en líka hjá KAPP Skaganum og Kami Tech, fyrirtækjunum sem við erum nýbúin að kaupa. Við erum með metnaðarfull vaxtarmarkmið fyrir næstu 2-3 árin.“
Eftir komu Ólafs til félagsins hafa margir velt fyrir sér hvort stærsti eigandi fyrirtækisins, Freyr Friðriksson, hafi dregið sig í hlé, en svo er ekki. „Freyr er alls ekki hættur, síður en svo,“ segir Ólafur og brosir. „Freyr er forstjóri félagsins en ég kem inn sem aðstoðarforstjóri til þess að aðstoða við rekstur á stækkandi félagi. Með vaxandi fyrirtæki ákvað Freyr að fá inn nýjan aðila sem hann gæti deilt ábyrgð með, enda í mörg horn að líta. Ég hef tekið að mér framkvæmdastjórn á öllu tengdu kaupunum úr þrotabúi Skagans 3X og er framkvæmdastjóri félagsins sem nú heitir KAPP Skaginn ehf. Samhliða því fer ég með daglega stjórn á flestu sem tengist sölu- og markaðsmálum þvert á félögin. Freyr er með gríðarlega sterka tengingu við bæði markaðinn hér heima og erlendis og vill nýta sína krafta í vaxandi mæli í að vera úti á akrinum og draga inn ný tækifæri. Þeir sem þekkja Frey vita að hann situr ekki auðum höndum. Í dag er hann fulllestaður af verkefnum og óstöðvandi í því sem hann tekur sér fyrir hendur. Við Róbert Gíslason fjármálastjóri stígum inn í flest rekstrarmál til þess að reyna að létta aðeins álagið á honum,“ segir Ólafur sem kom til KAPP frá Marel.
Leiddi 800 manna svið
Ólafur leiddi 800 manna svið hjá Marel. „Ég var framkvæmdastjóri fiskiðnaðar Marels á heimsvísu sem og framkvæmdastjóri Marels á Íslandi síðustu tvö árin áður en ég kom til KAPP. Ég hafði unnið í níu ár hjá Marel þar sem ég stýrði þjónustu fiskiðnaðar og síðar vöruþróun fiskiðnaðar, áður en ég tók við framkvæmdastjórn. Sá tími hefur gefið mér góða innsýn í markaðinn og búið til sterk tengsl innanlands sem og erlendis,“ segir Ólafur.
Marel starfar meðal annars innan fiskiðnaðar eins og KAPP en áherslan hjá Marel er þvert á fiskvinnslulínur. Sérhæfing KAPP er í kælingu og frystingu á matvælum.
„Fyrir tíma minn hjá Marel var ég bankastarfsmaður. Ég var hjá Kaupþingi fyrir hrun en í kjölfarið starfsmaður í skilanefnd og slitastjórn bankans, en það var aldrei planið að festast í þeim geira. Eftir útskrift úr MBA-námi árið 2014 ákvað ég að breyta til. Þá fór ég til Marels og í raun féll ég fyrir þessum iðnaði. Bransinn er mjög dýnamískur og áþreifanlegur, sem á vel við mig.“
Ólafur segir að þótt hann hafi á þeim tíma sem hann vatt kvæði sínu í kross árið 2014 ekki haft mikla þekkingu á fiskiðnaði og matvælavinnslu hafi hann verið vel heima í tækjum og vélum. „Ég er alinn upp á verkstæði. Þegar saman kom öll sú reynsla af tækjum, fiski og rekstrarþekkingu sem ég öðlaðist hjá Marel, var það ágætis blanda fyrir nýja starfið hjá KAPP.“
Spurður að því hvort það hafi verið auðveld ákvörðun að söðla um síðasta haust segir Ólafur að það sé aldrei auðvelt að skipta um vinnustað. „Það hafa verið ákveðnar væringar hjá Marel eins og menn þekkja og það er nýbúið að selja fyrirtækið til JBT. Mig langaði að prófa eitthvað nýtt og komast nær viðskiptavinum. Mér fannst vegferð KAPP gríðarlega spennandi og ekki hvað síst bandaríski hlutinn og kaupin á eignum Skagans 3X sömuleiðis. Freyr og stjórnin leiddu þau kaup af þrotabúi félagsins, en út af mínu fyrra starfi hélt ég mig fyrir utan kaupferlið þar til það kláraðist.“
Verðugt og spennandi
Hann segir að verkefnið í kringum endurreisn Skagans sé verðugt og spennandi. „Þrátt fyrir að hlutverk mitt í dag sé að mörgu leyti frábrugðið því sem ég gegndi hjá Marel þá nýtist sú reynsla afar vel. Marel er orðið rótgróið fyrirtæki með mikinn strúktúr og skipulag, á meðan það er meiri sprotatilfinning í að koma Skaganum aftur í gang og styðja við aukinn vöxt KAPP á heimsvísu. Þrátt fyrir að KAPP Skaginn sé byggt á fyrri starfsemi og þeim tækjum og einkaleyfum sem fyrir voru er þetta nýtt félag sem byggir á menningu og gildum KAPP, rétt eins og Kami Tech í Bandaríkjunum gerir einnig. Við leggjum mikið upp úr góðri þjónustu og nálægð við viðskiptavininn. Sá fókus hefur verið grunnurinn í sívaxandi starfsemi KAPP og á því viljum við byggja,“ segir Ólafur. „Það er góður skóli fyrir mig að hafa verið hjá Marel og þekkingin hentar vel fyrir þessi verkefni. Ég er kunnugur allri innri byggingu geirans sem getur nýst vel þegar þú ert að taka næsta vaxtarskref eins og KAPP er að gera. KAPP er mjög vant því að kaupa fyrirtæki og innlima í reksturinn. Þeir hafa vaxið með uppkaupum og Freyr og aðrir stjórnendur þekkja það ferli mjög vel og eru reyndir á því sviði.“
Ólafur segir að helsti munurinn nú sé að kaupin á þessum tveimur nýju félögum séu mun stærri en KAPP hefur ráðist í áður. Síðasta félag sem KAPP keypti þar á undan var hátæknifyrirtækið Raf árið 2023. „KAPP er að taka gríðarlegt stökk. Það er mjög spennandi en því fylgja ýmsar áskoranir sem við leysum sem teymi. Við erum með mjög öflugt starfsfólk sem gerir okkur kleift að taka skref eins og þau sem tekin voru á síðasta ári.“
Spurður nánar um KAPP Skagann og líkindi við Marel og KAPP segir Ólafur að KAPP Skaginn sé í sama geira og Marel. „KAPP Skaginn er hins vegar með annan vörufókus og býður því vörur sem eru annars staðar í virðiskeðjunni. KAPP er í dag með breiða vöruflóru en sem dæmi selur félagið krapakerfi, ósonlausnir, lausfrysta, plötufrysta, brettakerfi, saltsprautuvélar, dælur, heildarlausnir fyrir uppsjávargeirann og margt fleira. Við munum halda áfram að þróa vöruflóru okkar ásamt því að skoða nýjar lausnir. Vörur okkar eru þekktar fyrir mikil gæði og við höldum á sterkum einkaleyfum. Við hyggjumst byggja enn frekar ofan á þann góða grunn sem við höfum í dag.“
Ráða fyrrverandi starfsmenn
Gjaldþrot Skagans 3X var mikið áfall fyrir atvinnulífið á Akranesi síðasta sumar en 128 misstu þá vinnuna.
Ólafur segir það hafa verið meðvitaða ákvörðun að ráða í fyrsta fasa aðeins starfsmenn sem höfðu unnið hjá fyrirtækinu áður. „Ástæðan fyrir því var að við vildum geta hafið störf strax, án þess að þurfa að verja miklum tíma í þjálfun. Við vildum geta byrjað hratt og þessar ráðningar gerðu okkur kleift að gera það. Við fórum strax eftir kaupin í október að senda sölumenn í söluheimsóknir og framleiðslufólk fór að gera félagið hæft fyrir framleiðslu og þjónustu.“
Eins og fyrr sagði er nú verið að innleiða fyrirtækjamenningu KAPP hjá KAPP Skaganum.
„KAPP-menningin einkennist af kvikri ákvarðanatöku. Við getum brugðist hratt við beiðnum frá viðskiptavinum og þjónustan er númer eitt, tvö og þrjú. Hjá KAPP Skaganum ætlum við að vera straumlínulöguð og vera með sterka einstaklinga í vinnu sem ráða við breitt svið starfseminnar. Við viljum tryggja að þegar viðskiptavinurinn fjárfestir í dýrum og miklum búnaði frá okkur séum við til taks til að tryggja að allt gangi smurt frá fyrsta degi. Þetta hefur mér þótt ganga mjög vel enda er þetta úrvalslið starfsmanna, sem við erum heppin með.“
Ólafur segir að fleiri hafi viljað fá vinnu en hægt var að ráða í upphafi. „Við stígum ábyrg skref í því og sníðum okkur stakk eftir vexti. Við ráðum fólk samhliða verkefnum og erum núna komin í um 25 stöðugildi en við erum einnig að samnýta mannskap á milli félaga.“
Aðstoðarforstjórinn segir að tekist hafi á skömmum tíma að fara í söluheimsóknir til fjögurra heimsálfa og nú þegar sé búið að landa góðum sölum. „Það gefur okkur byr undir báða vængi. Við erum mjög lukkuleg með upphafið á rekstrinum. Til dæmis lönduðum við góðu verkefni hjá útgerðarfélaginu Eskju á Eskifirði þar sem við unnum með þeim að breytingu á innmötun í uppsjávarvinnslu. Verkefnið hjá Eskju var í raun komið af stað áður en við hófum starfsemi KAPP Skagans í nóvember síðastliðnum. En í ljósi farsæls sambands milli KAPP og Eskju í gegnum árin fengum við að koma að borðinu með tillögu að lausn. Mér finnst gildin okkar hafa kristallast í þessu verkefni. Við unnum hratt og örugglega að hönnun í náinni samvinnu við starfsmenn og stjórnendur Eskju.
Eins höfum við fengið góðar undirtektir í Suður-Ameríku. Við erum búin að loka sölu á tveimur stórum frystum til Brasilíu. Þetta eru aðilar sem hafa keypt vörur Skagans áður og þekkja því gæði vörunnar og vildu halda tryggð við okkur. Annar aðilinn er að kaupa þriðja frystinn og hinn er að kaupa tólfta frystinn og í raun þann stærsta sem seldur hefur verið, ef við skoðum sögu forvera KAPP Skagans.“
Kemba markaðinn
Ólafur ítrekar hve mikilvægt það er fyrir KAPP Skagann að tryggja að markaðurinn viti að félagið sé í dag eigandi tækjabúnaðar og lausna Skagans 3X. „Við erum að kemba markaðinn hér heima og úti og koma okkur vel af stað hjá KAPP Skaganum. Bæði með áherslu á þá aðila sem eiga Skagabúnað fyrir en sömuleiðis að herja á nýja viðskiptavini.“
Víkur nú sögunni að Kami Tech í Seattle í Bandaríkjunum sem hingað til hefur að stórum hluta byggt starfsemi sína á þjónustu við útgerðina á vesturströnd Bandaríkjanna. „Það sem er ólíkt með Kami Tech og KAPP Skaganum er að félagið Kami Tech er í fullum rekstri á meðan helsta verkefni fyrstu mánaða hjá KAPP Skaganum var endurreisn á félaginu. Áform okkar með Kami Tech eru ekki að umbylta neinu heldur byggja á þeim góða grunni sem er til staðar. Við sjáum mikil tækifæri í Bandaríkjunum. Þar hefur orðið ákveðin vitundarvakning um gæði afurða og gildi kælingar til að auka virði. KAPP hefur t.d. selt mikið af OptimICE-kælibúnaði sínum til Bandaríkjanna. Alls hefur fyrirtækið þegar allt er talið selt yfir 800 slíkar vélar um allan heim. Bandaríkjamenn þekkja KAPP af öflugum vélum og góðri þjónustu, þannig að þegar tækifærið til kaupa á Kami Tech gafst, og menn komu að máli við Frey, sá hann að þarna var dauðafæri á að komast nær markaðinum. Það myndi skapa mikið hagræði.“
Ólafur segir að tæknistjórinn, Friðrik Ingi Óskarsson, sé að undirbúa flutning til Bandaríkjanna til að styðja við rekstur Kami Tech. „Við erum með hugmyndir um framleiðslu á búnaði þar ytra sem við teljum að geti opnað á nýja markaði og hagkvæmari fjármögnunarleiðir fyrir viðskiptavini okkar. Þar í landi eru í boði auknar fjármögnunarleiðir og betri kjör ef ákveðinn hluti vörunnar er framleiddur þar innanlands.“
Ólafur nefnir tækifæri í Alaska þar sem KAPP á nú þegar viðskiptavini. „Á Alaskasvæðinu eru 300 vinnslur og um 300 einstaklingsútgerðir sem allflestar eru innan markhóps KAPP fyrir OptimICE-vélar. Bandaríkjamenn eru um 10-15 árum á eftir Íslandi þegar kemur að meðhöndluð á hráefni. Okkar OptimICE-lausn fer betur með hráefnið, er umhverfisvænni og eykur gæði. Tæknin gerir viðskiptavinum kleift að búa til krapa úr sjóvatni, en krapinn styttir kælitíma hráefnis úr sex klukkustundum í um eina klukkustund þegar borið er saman við hefðbundinn flöguís. Þetta getur aukið hillutíma í verslunum allt upp í sjö daga.“
Mest erlendar tekjur
Sú breyting hefur orðið á rekstri KAPP síðustu misseri að tekjur koma nú að meirihluta til að utan. „Það sýnir vel þá vegferð sem KAPP hefur verið á, að verða alþjóðlegt fyrirtæki með starfsemi á fleiri en einum stað í heiminum þar sem herjað er á markaðina.“
Spurður nánar um tækifærin í Alaska segir Ólafur að þar sé gott að vinna og mikil uppbygging í gangi. Nýjar vinnslur rísi, aðrar stækki og núverandi vinnslur séu meðvitaðri um mikilvægi kælingar þegar komi að gæðum hráefnis. „Vissulega er langt ferðalag þangað, en menn í okkar geira eru ansi ferðavanir.“
Ólafur segir að KAPP muni halda áfram að hafa augun opin fyrir nýjum tækifærum hvað uppkaup fyrirtækja varðar. „En við verðum að hafa það hugfast að kaup á fyrirtækjum eru ekki flóknasti hlutinn heldur það sem á eftir kemur, innleiðing á tækjum, búnaði, menningu og eftirfylgni. Þar viljum við hafa sterkan fókus og byggja upp vörumerkið KAPP sem er með sterkt orðspor og þekkt fyrir góða þjónustu. Við erum að byggja rekstrarmódel okkar þannig að það sé skalanlegt, þ.e. að auðvelt sé að bæta við vörulínum í framtíðinni en í dag erum við með fullan fókus á innleiðingu KAPP Skagans og Kami Tech. Innleiðingin og samþætting félaga þarf að gerast í réttum skrefum, en sýnin er skýr að við viljum vera best í kælingu og frystingu á alþjóðavísu.“
Ólafur á von á að innri vöxtur hjá Kami Tech og KAPP Skaganum verði góður á næstu mánuðum og árum og árið fer vel af stað eins og áður sagði.
Heilbrigt hlutfall
„Þó að geirinn hafi að mörgu leyti verið erfiður síðastliðin 2-3 ár hefur reksturinn verið mjög góður hjá okkur í KAPP. Hlutfall útseldrar vinnu á móti þeim sem vinna á skrifstofunni hefur verið mjög heilbrigt. Yfirbyggingin er hófleg. Þannig viljum við halda því en það á að gefa okkur forskot. Við getum verið snögg í ákvarðanatöku og brugðist hratt við beiðnum viðskiptavina. Og ef við getum stýrt kostnaði vel þá getur það endurspeglast í góðum verðum fyrir viðskiptavini.“
Eitt af því sem er á döfinni á þessu ári er að styrkja sölunetið á alþjóðavísu. „Við erum að byggja á mjög sterkum aðilum innanhúss en einnig erum við með erlenda umboðsmenn sem eru vel þekktir á sínum svæðum, hvort sem það er í Bandaríkjunum, Suður-Ameríku eða annars staðar. Við viljum víkka út þetta umboðsmannanet og fá þá til að hjálpa okkur að þefa uppi fleiri tækifæri á mörkuðunum,“ segir Ólafur að lokum.
Ákveðin samþjöppun að eiga sér stað
Þegar Ólafur lítur yfir geirann sem KAPP starfar í segir hann að ákveðin samþjöppun sé að eiga sér stað. „Salan á Marel og svo kaup KAPP á Skaganum 3X eru dæmi um það. Ég held að næstu ár í þessum geira verði mótandi fyrir framtíðina. Fyrirtæki þurfa að taka sér stöðu og ákveða hvar þau vilja standa.“
Iðnaðurinn á undir högg að sækja á Íslandi að mati Ólafs og halda þarf vel á spöðunum til að einkarekstur gangi vel. „Við erum til dæmis í samkeppni við norsk félög sem njóta ríkisstyrkja. Við eigum einnig eins og önnur íslensk fyrirtæki í samkeppni um starfsfólk við hið opinbera.“