Innflytjendum hefur fjölgað mikið hér á landi á umliðnum árum og atvinnuþátttaka þeirra, allt að fjórðungur starfandi, hefur verið sú hæsta í ríkjum OECD, ekki síst vegna skorts á vinnuafli í greinum á borð við byggingariðnað og ferðaþjónustu

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Innflytjendum hefur fjölgað mikið hér á landi á umliðnum árum og atvinnuþátttaka þeirra, allt að fjórðungur starfandi, hefur verið sú hæsta í ríkjum OECD, ekki síst vegna skorts á vinnuafli í greinum á borð við byggingariðnað og ferðaþjónustu. Atvinnuleysi hefur einnig verið mun meira meðal innflytjenda en íslenskra ríkisborgara um árabil og jafnframt hefur hlutfall erlendra ríkisborgara af heildarfjölda á atvinnuleysisskrá aukist jafnt og þétt allt frá árinu 2017.

Í lok seinasta mánaðar voru 4.837 erlendir ríkisborgarar á atvinnuleysisskrá eða 58% af heildarfjölda atvinnulausra og hefur það hlutfall aldrei verið hærra á íslenskum vinnumarkaði samkvæmt upplýsingum sem fengust hjá Vinnumálastofnun. Hafði þeim fjölgað um 840 frá því í lok desember 2023. Innflytjendur sem eru án atvinnu hafa verið meirihluti allra þeirra sem skráðir eru atvinnulausir í hverjum mánuði frá því í september árið 2023. Árið 2014 var hlutfallið 19% og 26% árið 2017.

Mun fleiri erlendir ríkisborgarar voru þó á atvinnuleysisskrá á tíma kórónuveirufaraldursins eða frá mars 2020 og fram á vor árið 2021 en hlutfall þeirra af heildarfjölda atvinnulausra var mun lægra en að undanförnu vegna mikils atvinnuleysis meðal landsmanna á þessum tíma.

Fram hefur komið að um 80% innflytjenda koma frá löndum á Evrópska efnahagssvæðinu og hafa sama bótarétt við atvinnuleit og innlent launafólk vegna reglna um frjálsa för launafólks innan svæðisins. Sá sem hefur verið í fullu starfi í tólf mánuði getur átt rétt á 100% bótum að öðrum skilyrðum uppfylltum og launamaður sem hefur starfað skemur en tólf mánuði en þó að lágmarki í þrjá mánuði á umliðnu ári á hlutfallslega minni bótarétt. Launamenn frá öðrum EES-ríkjum sem hingað koma geta lagt fram vottorð um að þeir hafi verið atvinnuleysistryggðir í öðru EES-ríki og aukið þannig rétt sinn til atvinnuleysisbóta hér á landi.

Skv. upplýsingum VMST koma flestir þeirra erlendu ríkisborgara sem eru á atvinnuleyisskrá frá Póllandi eða rúmlega tvö þúsund í desember sl. eða um 43% allra innflytjenda á atvinnuleysisskrá. Því næst koma einstaklingar frá Litháen (479), Rúmeníu (285) og Úkraínu 256).

Margir launamenn sem koma til landsins eru á tímabundnum ráðningarsamningum og starfa í greinum sem sveiflast eftir árstíðum. Í lok desember sl. höfðu flestir erlendir ríkisborgarar sem eru á atvinnuleysisskrá starfað í byggingariðnaði (670), gistiþjónustu (589) og veitingaþjónustu (561).

Merki um fjölgun

VMST hefur séð ákveðin merki um að fjöldi erlendra ríkisborgara í hópi langtímaatvinnulausra fari vaxandi. Nákvæm greining á því liggur þó ekki fyrir. Um nýliðin áramót höfðu alls 788 erlendir ríkisborgarar verið á atvinnuleysisskrá í tólf mánuði eða lengur og 1.008 í sex til tólf mánuði.

Erlendir ríkisborgarar hafa í auknum mæli notið þjónustu og starfsendurhæfingar VIRK. Tölur fyrir nýliðið ár liggja ekki fyrir en skv. ársskýrslu VIRK voru þeir um 11% allra sem komu í þjónustu VIRK árið 2023 og 13% á fyrstu mánuðum seinasta árs.