Óskar Bergsson
oskar@mbl.is
„Það má líkja þessu við faraldur sem hefur staðið yfir í eitt ár. Fyrir ári fór ég einu sinni í viku í útkall út af veggjalús en í dag er ég kallaður út fimm til sjö sinnum í viku,“ segir Steinar Smári Guðbergsson, meindýraeyðir hjá Meindýraeyði Íslands.
Hann segir veggjalúsina alltaf hafa fylgt mannskepnunni, hún læðist að fólki á nóttunni og sjúgi úr því blóðið.
„Hún heldur mikið til á hótelum og gistrýmum og hættan er sú að hún komi með ferðamönnum til landsins.“
Hvað gerið þið til að uppræta lúsina?
„Það er náttúrulega atvinnuleyndarmál en það eru margskonar leiðir til. Við getum soðið rúm og umhverfi með sérstakri þurrgufuhitavél sem er sérstaklega hönnuð fyrir veggjalús og fer upp í 180 gráðu hita.“
Ekki reyna sjálf að uppræta
Hann varar við því að fólk reyni að fást við þetta sjálft því þá verður vandamálið miklu stærra og kostnaðarsamara. Meira að segja eitrið sem hann sjálfur er með gefi bara 50% árangur.
„Þegar fólk verður vart við veggjalús á það ekki að reyna sjálft að uppræta hana því hættan er sú að þá fari lúsin af stað til að flýja eitrið og dreifi sér um húsið. Það hefur komið fyrir að það hafi þurft að henda öllu út úr húsi eða koma innbúinu fyrir í frystigámi í eina viku þar sem frostið er meira en mínus 18 gráður því eggin drepast ekki fyrr.“
Bitin koma upp um kvikindin
Spurður hvernig fólk sjái að veggjalús sé komin upp segir Steinar að fólk uppgötvi bit á sér.
„Bitin koma upp um kvikindin. Veggjalúsabit sést á því að hún bítur oftast þrisvar með þriggja til fjögurra sentimetra millibili og myndar bitröð. Hún bítur einu sinni þangað til það verður blóðþurrð, þá hreyfir hún sig um einn sentimetra og stingur þar. Svo verður aftur blóðþurrð og þá færir hún sig aftur og fyllir sig í þriðja bitinu,“ segir Steinar Smári Guðbergsson.