Nýjar leikreglur og auðlindagjöld. Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra Viðreisnar.
Nýjar leikreglur og auðlindagjöld. Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra Viðreisnar. — Morgunblaðið/Karítas
Hafsteinn Hauksson aðalhagfræðingur Kviku segir í samtali við ViðskiptaMoggann að hann meti það svo að óvissan í ríkisfjármálum sé ekki endilega meiri en venjulega. Hann telur óvíst hvort staðan í ríkisfjármálum komi til álita við vaxtaákvörðun; verðbólguhorfur og verðbólguvæntingar muni vega þyngra

Hafsteinn Hauksson aðalhagfræðingur Kviku segir í samtali við ViðskiptaMoggann að hann meti það svo að óvissan í ríkisfjármálum sé ekki endilega meiri en venjulega. Hann telur óvíst hvort staðan í ríkisfjármálum komi til álita við vaxtaákvörðun; verðbólguhorfur og verðbólguvæntingar muni vega þyngra.

Fyrir liggur langtímaáætlun í ríkisfjármálum sem geri nýrri ríkisstjórn erfiðara fyrir að víkja af braut og eykur fyrirsjáanleika til skamms tíma. Þá tali ríkisstjórnin einnig fyrir ábyrgð í ríkisrekstri.

„Þótt þetta séu góð stefnumið hjá ríkisstjórninni, þá sýna dæmin að kálið er auðvitað ekki sopið þótt í ausuna sé komið og við eigum enn eftir að sjá hvort nýrri ríkisstjórn tekst að standa við gefin loforð um ábyrgð í ríkisrekstrinum,“ segir Hafsteinn og bætir við að það sé ekki síst vegna þess að í stjórnarsáttmálanum birtist metnaðarfull áform, t.d. um húsnæðisuppbyggingu, fjárfestingu í samgönguinnviðum og aukinn stuðning í félagslega kerfinu, sem geta haft aukin útgjöld í för með sér.

ViðskiptaMogginn sendi skriflega fyrirspurn til Daða Más Kristóferssonar fjármálaráðherra, þar sem spurt var hvernig ríkisstjórnin hygðist samþætta áform um uppbyggingu, fjárfestingu og aukin ríkisútgjöld en á sama tíma sýna ábyrgð í ríkisrekstri.

Í svari Daða segir að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sé strax í upphafi lögð áhersla á að ná stjórn á rekstri ríkissjóðs, m.a. með stöðugleikareglu. En stöðugleikaregla er regla um að fyrir reglubundnum útgjöldum þarf að vera til tekjustofn sem mætir þeim. Fram kemur í svari Daða að hún verði kynnt á vormánuðum.

„Þetta er betri nálgun en núverandi fjármálareglur sem gera ráð fyrir ákveðnum skuldahlutföllum en leyfa í raun að tímabundnum tekjum sé eytt. Með stöðugleikareglu verður rekstur hins opinbera ábyrgari og sjálfbærari. Það er rétt að það eru metnaðarfull áform um að bæta í rekstur ríkisins og það er ákall um aukna þjónustu og útgjöld. Það eru sem betur fer tækifæri til að forgangsraða og hagræða hjá hinu opinbera og skapa svigrúm. Forgangsröðun og hagsýni eru verkefni sem eiga alltaf að vera í gangi hjá ríkinu,“ segir í svari Daða.

Í svari Daða við fyrirspurn um áherslur ríkisstjórnarinnar í skattamálum kemur fram að skattspor á Íslandi sé hátt nú þegar og opinber útgjöld hér á landi fremur há.

„Það eru tækifæri til þess að bæta skattheimtu, loka glufum og beita sköttum sem eru skilvirkir. Almennt séð verður auðvitað að vera jafnvægi milli útgjalda og tekjuöflunar. Þessi ríkisstjórn ætlar ekki að hækka skatta á almenna borgara en við höfum talað fyrir því að leggja meiri áherslu á hlut auðlindagjalda,“ segir í svari Daða.