Seðlabankinn kemur til með að taka allt með í reikninginn við næstu vaxtaákvörðun, þar á meðal horfur er varða ríkisfjármálin. Þetta segir Hildur Margrét Jóhannsdóttir hagfræðingur hjá Landsbankanum í viðskiptahluta Dagmála en hún var þar gestur ásamt Jóni Bjarka Bentssyni aðalhagfræðingi Íslandsbanka.
Hildur Margrét segir að óvissan í ríkisfjármálum sé þó ekki endilega meiri en hún hefur verið undanfarin ár.
„Þó er auðvitað ný ríkisstjórn að taka við og þau leggja ekki fram ný fjárlög fyrir þetta ár. Við verðum eflaust að bíða og sjá hvernig fjármálaáætlun mun líta út í vor og síðan verða fjárlög lögð fram í haust. Það skiptir máli hvernig þau tala og hvaða skilaboð þau senda til fólks og fyrirtækja varðandi hvernig ríkisstjórnin ætli að axla ábyrgð á þenslunni í efnahagslífinu og koma á efnahagslegum stöðugleika,“ segir Hildur Margrét.
Ný ríkisstjórn hefur boðað aukna fjárfestingu og aukin ríkisútgjöld af ýmsu tagi en á sama tíma talað um að sýna ráðdeild í rekstri ríkisins. Spurður hvernig hann telji að þessir tveir þættir spili saman segir Jón Bjarki að hann vilji láta nýja ríkisstjórn njóta vafans þangað til línur skýrast.
„Það verður þó áskorun að koma þessu tvennu heim og saman. Þau hafa lofað að hækka ekki skatta á almenning, að minnsta kosti ekki í bráð, en á sama tíma ætla þau að auka í bótakerfið og draga úr skattbyrði á lágtekjufólk,“ segir Jón Bjarki og bætir við að hagvöxturinn vinni ekki jafn hraustlega með tekjuhliðinni og áður.
„Við sáum náttúrlega síðustu árin og þangað til í fyrra að tekjuvöxturinn var alltaf myndarlegri en áætlanir höfðu gert ráð fyrir, því hagkerfið var á meiri spretti og virðisaukaskatturinn og tekjuskatturinn að skila meiru,“ segir Jón Bjarki og bendir á að umskipti hafi orðið í fyrra þar sem þeir tekjustofnar voru ekki eins kraftmiklir.
„Þá þarf að halda betur á spilunum til að vinda ofan af þeim verulega fjárlagahalla sem varð í kjölfar faraldursins.
Hildur Margrét og Jón Bjarki eru sammála um að heilt yfir séu efnahagshorfurnar fyrir árið nokkuð bjartar.
„Hvað varðar útflutingsgreinarnar er jákvætt að vaxtarbroddurinn er að færast yfir á fleiri stoðir en bara sjávarútveginn og ferðaþjónustuna, hugverkaiðnaðurinn er í mikilli sókn,“ bendir Jón Bjarki á.