Páll Einarsson
Páll Einarsson
„Þetta er merkur atburður, þessi skjálftavirkni núna er meiri en við höfum séð svona í daglegum rekstri Bárðarbungu,“ segir Páll Einarsson, prófessor emeritus í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, í samtali við Morgunblaðið um öfluga…

Atli Steinn Guðmundsson

Sonja Sif Þórólfsdóttir

„Þetta er merkur atburður, þessi skjálftavirkni núna er meiri en við höfum séð svona í daglegum rekstri Bárðarbungu,“ segir Páll Einarsson, prófessor emeritus í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, í samtali við Morgunblaðið um öfluga skjálftahrinu sem hófst í Bárðarbungu í gærmorgun og kveður svo rammt að, að annað eins hefur ekki mælst síðan í aðdraganda Holuhraunsgossins árið 2014.

Segir Páll enda að hér megi jafna til tveggja atburða, undanfara Gjálpargossins árið 1996 og áðurnefnds Holuhraunsgoss fyrir rúmum áratug. „Búast má við að gos geti orðið í eldstöðinni út frá þessu eða kvikustreymi frá henni,“ heldur prófessorinn áfram og bætir því við að stefna atburða sé ekki fullljós en muni að líkindum skýrast er fram líður.

„Þetta er okkar öflugasta eldstöð og hún á sér margar hliðar og erfitt að segja til um hvað verður hverju sinni. Þessar tvær hliðar sem við þekkjum frá 1996 og 2014 eru mjög ólíkar hvor annarri,“ segir Páll og kveður margt geta komið til greina í hugsanlegu gosi nú, hegðun framangreindra gosa hafi verið óvænt miðað við það sem jarðvísindamenn töldu sig vita um eldstöðina öflugu.

Kvikuhlaup til suðvesturs illt

Í eldfjallavefsjánni, sem Veðurstofa Íslands, Háskóli Íslands og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra halda úti, kom í gær fram að mikið gjóskufall gæti orðið innan þrjátíu kílómetra frá Bárðarbungu verði þar sprengigos sem ryður sér leið upp í gegnum jökulinn. Gæti þykkt gjóskufallsins þá orðið allt frá tuttugu sentimetrum upp í rúma tíu metra. Engin byggð yrði í hættu, en samgöngur gætu gengið úr skorðum og jafnvel stöðvast alveg komi til goss.

Páll nefnir mögulegar rásir atburða í Bárðarbungugosi. „Ein er sú að það gjósi hreinlega upp úr öskjunni sjálfri og undir jöklinum og verði þá öskufall og einhver jökulhlaup sem fylgja því. Önnur er að það verði kvikuhlaup og gangainnskot til norðausturs, upp á Dyngjuháls, og verði hraungos þar, um það eru mörg merki,“ útskýrir Páll.

Alvarlegast segir hann þó komi til þess að kvikuhlaup verði til suðvesturs. „Þá gæti orðið hraungos á eystra gosbeltinu suðvestan við Vatnajökul, eins og í Veiðivötnum og Vatnaöldum á fyrri tíð. Þá erum við komin inn á virkjunarsvæði með öllu sem því fylgir, en það er engin leið að segja til um það á þessu stigi hvað verður ofan á, nú verður bara að fylgjast með.“

Ef við lítum til sögunnar, er hægt að tala um einhvern meðaltíma milli gosa úr Bárðarbungu?

„Nei, það er mjög erfitt með eiginlega allar þessar eldstöðvar,“ svarar Páll um hæl og segir tíma milli gosa ekki heppilega leið til að meta virkni eldstöðva. „Þær eru sérstaklega óreglusamar að þessu leyti,“ heldur hann áfram og er spurður hvort atburðir nú gætu verið til merkis um að möttulstróknum undir Íslandi sé að vaxa fiskur um hrygg.

Augu þjóðarinnar á ganginum

„Það eru óvenjumargar eldstöðvar núna sem eru að gera sig líklegar til eldgosa og það er greinilegt af virkninni ef við lítum til dæmis til miðbiks síðustu aldar sem var alveg sérstaklega rólegt tímabil,“ svarar jarðeðlisfræðingurinn og kveður ekki út í bláinn að halda því fram að eldvirknin sé að aukast.

„Þá beinist nú athyglin svolítið að fargléttinum vegna jöklarýrnunarinnar sem er mjög mikil og það kann að hanga saman, kannski dálítið meira en við áttum von á,“ segir hann enn fremur.

Páll segir aðalatriðið nú að fylgjast vel með framvindunni, skipta kunni sköpum að hafa augun á því hvert stefni með hliðsjón af gosunum 1996 og 2014. „Þá tók atburðarásin mjög ákveðna stefnu fljótlega og mönnum er það nú í fersku minni þegar þjóðin fylgdist með því hvernig gangurinn lengdist árið 2014. Það tók kvikuna tvær vikur að komast þangað sem hún gat gosið svo aðdragandinn að gosinu var mjög langur,“ segir Páll.

Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur og prófessor emeritus, ræddi við Morgunblaðið á mánudag um eldstöðvakerfi Ljósufjalla og hugsanlegar afleiðingar goss úr því kerfi sem er tæplega hundrað kílómetra langt. Meðal þess sem Haraldur ræddi í viðtalinu var að árið 1938 hefðu miklir skjálftar mælst í kerfinu, en sá hængur hefði verið á að á þeim tíma hefðu Íslendingar aðeins átt sér einn jarðskjálftamæli og hefði sá verið staðsettur í höfuðborginni.

Með Sveinbirni í mælunum

Kvað eldfjallafræðingurinn Pál Einarsson meðal annars hafa beitt sér fyrir og komið að vinnu við uppsetningu jarðskjálftamæla víða um land sem nú færa jarðvísindamönnum og náttúruvársérfræðingum mikinn fróðleik um skjálftavirkni og hvar og hvenær dregið gæti til tíðinda í gosmálum. Blaðamaður spyr Pál út í þetta starf hans.

„Á sínum tíma þegar ég kom frá námi 1975 unnum við Sveinbjörn Björnsson [eðlisfræðingur og rektor Háskóla Íslands 1991 til 1997] saman að því að koma upp svokölluðu landsneti skjálftamæla. Sérstakir mælar voru hannaðir og smíðaðir hjá Raunvísindastofnun Háskólans og við dreifðum þeim um landið þessi fyrstu ár, frá 1973 eftir Heimaeyjargosið, um Norðurland 1974 og um allt hálendið árin á eftir. Undir 1980 var kominn fjöldi mæla um allt land og komin aðstaða til þess að staðsetja upptök jarðskjálfta,“ segir Páll frá.

Á þessum tíma hafi verið hægt að smíða mæla fyrir tiltölulega lítið fé sem dugðu til síns brúks. „Og við gripum náttúrulega það tækifæri. Síðan hefur orðið gríðarleg framþróun og næsta skref í þessu var þegar stafræna kerfið var sett upp kringum 1990 og við njótum núna mjög góðs eftirlits með þessum tækjabúnaði öllum,“ segir Páll

Myndirðu segja að betur mætti ef duga skyldi? Hvað vantar upp á á landinu?

„Það er hægt að gera margt betur, en núna eru að störfum í þessu mjög öflugir hópar á Veðurstofunni og hjá Jarðvísindastofnun sem vinna mjög vel saman,“ svarar jarðeðlisfræðingurinn. „Þarna er beitt bæði skjálftafræðilegum aðferðum og landmælingaaðferðum sem duga vel til að sýna hreyfingar yfirborðsins og nú er hægt að beita gervitunglunum til að fylgjast með öllum hreyfingum og það er talsvert stór hópur öflugra vísindamanna sem nú starfar við þetta,“ segir Páll Einarsson, prófessor emeritus í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, að lokum um ókyrrð í Bárðarbungu og þróun skjálftamælinga á landinu síðustu fimmtíu árin.

Lögreglan á Norðurlandi eystra virkjar viðbragðsáætlun

Hamfaraflóð helsta ógnin

Verði eldgos í norðanverðum Vatnajökli, til dæmis í Bárðarbungu, er ein sviðsmyndin sú að hamfaraflóð verði í Jökulsá á Fjöllum með þeim afleiðingum að brýrnar yfir Jökulsá við Grímsstaði á Fjöllum og í Kelduhverfi fari eða skemmist, auk alvarlegs vegrofs á þessum stöðum.

Jökulhlaup getur valdið auknu rennsli eða flóðum í einni af þremur ám, eða stundum tveimur á sama tíma. Það eru Jökulsá á Fjöllum, eins og árið 1684; Þjórsá, eins og árið 1766, eða Skjálfandafljót og Jökulsá á Fjöllum, eins og árið 1902, en það fer eftir legu gosstöðva.

Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur virkjað viðbragðsáætlun vegna aukinnar jarðskjálftavirkni í Bárðarbungu. Aðgerðastjórn verður opnuð á Húsavík milli klukkan átta og tólf næstu daga. Áætlunin er virkjuð á óvissustigi og viðbragðsáætlunin sé fyrst og fremst virkjuð til að viðbragðsaðilar fái tækifæri til að undirbúa sig og rifja upp áætlunina.

Slökkviliðsstjóri Norðurþings, Grímur Kárason, kynnti nýja greiningu um áhættu- og áfallaþol í sveitarfélaginu í fyrra. Segir í greiningunni að verði eldgos í norðanverðum Vatnajökli gæti stór hluti Kelduhverfis og hluti Öxarfjarðar orðið umflotnir vatni með tilheyrandi afleiðingum. Því megi leiða að því líkum að bæði heitavatnslaust og rafmagnslaust verði á svæðinu í kjölfarið. Greina þurfi þol samfélagsins skapist þessar aðstæður því hugsanlega verði ekki hægt að koma vistum á svæðið nema sjóleiðina.

Höf.: Atli Steinn Guðmundsson