Hjörleifur Stefánsson
Hjörleifur Stefánsson
Mistökin þurfa að verða til þess að vinnuferlið verði bætt. Búum til sérstakan hagsmunagæsluaðila almennings.

Hjörleifur Stefánsson

Skipulagsmistökin við Álfabakka eru auðvitað grafalvarleg og nauðsynlegt að af þeim hljótist endurskoðun á vinnuaðferðum við skipulag borgarinnar.

Skipulagsslys af svipuðum toga hafa oft átt sér stað á undanförnum áratugum. Andstæð öfl í borgarstjórn hafa þá tekist á um stundarsakir og svo hjaðna átökin og athyglin beinist að næsta máli án þess að vinnuferlum hafi verið breytt.

Í Álfabakkamálinu eru hins vegar allir sammála; það eru ekki bara pólitískir andstæðingar þeirra sem bera ábyrgð á skipulagsmálunum sem gagnrýna, heldur gangast embættismenn og borgarstjórn við mistökunum. Líklega er þetta í fyrsta sinn sem það gerist.

Umræðan um Álfabakkamálið hefur beint athyglinni að því að fjárhagsleg öfl í samfélaginu vega svo þungt við gerð skipulagsáætlana að almannahagsmunir eru ekki alltaf hafðir í fyrirrúmi. Hagsmunir fjárfesta/framkvæmdaaðila eru svo sterkir. Það sama getur líka gerst þegar fjárhagsleg afkoma borgarsjóðs á í hlut. Nauðsyn þess að skipulagsáætlanir færi borgarsjóði sem mestar tekjur er líka afl sem beinir áherslum frá mikilvægasta þætti skipulagsins; að móta fallega borg og skapa íbúum hennar mannlegt og hlýlegt umhverfi til að lifa í, þroskast og starfa.

Þegar skipulagi lóðanna við Álfabakka var breytt lagði lóðarhafinn fram óskir sínar og var þá auðvitað eindreginn talsmaður sinna hagsmuna. Starfsmenn borgarinnar áttu að gæta hagsmuna almennings en jafnframt leitast við að skapa aðstæður til atvinnurekstrar og þeir áttu um leið að greiða götu öflugrar uppbyggingar sem skilar borgarsjóði tekjum. Þetta leiddi til þess sem allir eru nú sammála um að voru mistök.

Ástæða mistakanna liggur að einhverju leyti í því ójafnvægi sem er í hagsmunagæslunni. Lóðarhafinn og borgarsjóður eiga að nokkru leyti sameiginlegra hagsmuna að gæta. Starfsmaður borgarinnar sem á að gæta almannahagsmuna, sem fólgnir eru í fallegri borg og öruggu og hlýlegu umhverfi, gætir jafnframt hagsmuna borgarsjóðs en gæði umhverfisins eru ekki metin þegar afkoma sjóðsins er gerð upp.

Einu gildir hvort borgarstjórn er talin vinstri- eða hægrisinnuð. Þetta fyrirkomulag hefur á undanförnum áratugum ítrekað leitt af sér mjög slæm skipulagsslys.

Eitt hið versta þeirra hófst fyrir um það bil 40 árum þegar byrjað var að rífa gömul hús við Skúlagötu og reisa í þeirra stað röð af háum húsum sem skyggðu á lágreista byggð í Skuggahverfinu og byrgðu útsýni yfir Sundin frá Skólavörðuholtinu.

Þetta gekk auðvitað freklega á hagsmuni þeirra sem bjuggu í Skuggahverfinu en líka á hagsmuni borgarbúa allra því þessi hái húsaveggur meðfram Skúlagötunni gjörbreytti bæjarmyndinni og skerti tengsl bæjarins við sundin og fjallahringinn í norðri og austri.

Hagsmunir byggingameistara vógu þyngra. Þeir fengu að skerða útsýni almennings og misþyrma borgarmyndinni til að geta selt efnuðu fólki dýrar íbúðir með því eftirsóknarverða útsýni sem tekið var frá öðrum. Borgarsjóður hefur vafalítið haft af þessu góðar tekjur en skerðing borgarmyndarinnar vó nákvæmlega ekkert í uppgjörinu.

Þessi mistök voru auðvitað miklu, miklu alvarlegri en Álfabakkamistökin.

Fyrir nokkrum áratugum var gerð atlaga að því að finna leið til að bæta úr þessum ágalla á skipulagsferlinu. Tilefnið var sprottið af því að ítrekað hafði borgarstjórn heimilað byggingameistara að rífa gömul hús sem höfðu umhverfislegt gildi og byggja í staðinn mun stærri hús sem skiluðu góðum hagnaði. Nokkuð breið samstaða var um að þetta hefði verið misráðið.

Skipaður var umræðuhópur til að fjalla um vandann. Lagði hann til að leitað yrði eftir þverpólitískri samstöðu um að allar skipulagsáætlanir skyldu bornar undir álit sérstaks hóps sem falið yrði að meta skipulagsáætlanir út frá hagsmunum almennings áður en þær kæmu til umfjöllunar í borgarstjórn.

Aðeins þær áætlanir sem hópurinn teldi þjóna hag borgaranna skyldu að jafnaði samþykktar af borgarstjórn. Til að ganga gegn áliti hópsins þyrfti mjög gild rök.

Þessi hugmynd fékk til að byrja með jákvæðan hljómgrunn hjá hvorum tveggja herbúðum í borgarstjórn. En hún var þó lögð til hliðar með þeim rökum sem komu úr hópi starfsmanna skipulagsins; að í hugmyndinni fælist neikvæð afstaða til faglegrar getu þeirra. Það var þó ekki raunin. Rökin fyrir tillögunni voru fólgin í því að eyða ójafnvægi í hagsmunagæslunni og óljósum hlutverkum skipulagsstarfsmanna sem nefnt var hér að ofan. Nauðsynlegt væri að almenningur ætti sér talsmann sem gætti þess að hin háleitustu markmið skipulagsins væru höfð að leiðarljósi. Þessi rök eru í fullu gildi ennþá eins og Álfabakkamálið leiðir svo átakanlega í ljós. Ef sérstökum hópi verður falið að meta hvort skipulagstillögur séu til hagsbóta fyrir almenning eða ekki yrði það vafalítið til bóta, en auðvitað þyrfti að nást um þessa aðferð þverpólitísk sátt. Mikilvægt er að hópurinn verði myndaður þannig að hann nyti trausts sem flestra en ekki er fráleitt að ætla að hópur fulltrúa eftirtalinna aðila yrði traustsins verður: Minjastofnunar Íslands, Borgarsögusafns, íbúasamtaka viðeigandi borgarhluta, Siðfræðistofnunar HÍ og Listaháskóla Íslands.

Höfundur er arkitekt.

Höf.: Hjörleifur Stefánsson