Þrír borgarfulltrúar, sem kjörnir voru á Alþingi í nýliðnum kosningum, biðjast lausnar frá störfum í borgarstjórn á næstu dögum og vikum. Það er þó eilítið mismunandi. Fundur verður haldinn í forsætisnefnd Reykjavíkurborgar á föstudag, en þangað…

Þrír borgarfulltrúar, sem kjörnir voru á Alþingi í nýliðnum kosningum, biðjast lausnar frá störfum í borgarstjórn á næstu dögum og vikum. Það er þó eilítið mismunandi.

Fundur verður haldinn í forsætisnefnd Reykjavíkurborgar á föstudag, en þangað þurfa lausnarbeiðnir að berast eigi þær að fá afgreiðslu á næsta fundi borgarstjórnar, hinn 21. janúar.

Kolbrún Á. Baldursdóttir í Flokki fólksins sagði í samtali við Morgunblaðið að hún væri að pakka niður á borgarskrifstofu sinni. Þó ekkert hamlaði því, að fólk gegndi trúnaðarstörfum bæði í borg og á þingi, teldi hún rétt að helga sig alla þingstörfunum. Því hefði hún beðist lausnar, þrátt fyrir að hugsanlega væru ekki öll kurl komin til grafar varðandi talningu og endanleg úrslit kosninganna, en Kolbrún er uppbótarþingmaður og ekki útilokað að kjör einhverra þeirra breytist.

Pawel Bartoszek í Viðreisn kvaðst hins vegar bíða með að biðjast lausnar þar til í lok mánaðar, svo hann ætti að fá lausn 4. febrúar. Hann sæi ekki fram á að þingstörf fram að því trufluðu störf hans í borginni svo að hann þyrfti að biðjast lausnar fyrr.

Ekki náðist í Dag B. Eggertsson, en hann hefur eftir því sem næst verður komist þegar beðist lausnar og á að fá hana á borgarstjórnarfundi nk. þriðjudag. andres@mbl.is