Valur Leonhard Valdimarsson fæddist 22. júlí 1950 í Reykjavík. Hann lést á Landspítalanum 26. desember 2024. Foreldrar hans voru Guðrún Dagbjört Björnsdóttir húsmóðir, f. 1916 í Reykjavík, d. 2008 og Valdimar Árni Leonhardsson bifvélavirki, f. 1912 á Stokkseyri, d. 1979.
Systkini Vals eru Ingibjörg, f. 1940, Margrét, f. 1944 og Héðinn, f. 1955.
Valur giftist sumarið 1974 Kristínu Magneu Eggertsdóttur, f. 1953, d. 2016. Synir þeirra eru: 1) Árni Snorri, f. 16. maí 1975, kona hans er Rakel Þorsteinsdóttir, f. 29. des, 1977. Þeirra börn eru Kristján Valur, f. 11. júlí 2007, og Helga Júlía, f. 30. júní 2013. Fyrir átti Rakel eina dóttur, Ágústu Margréti, f. 23. maí 1995. 2) Valdimar Lárus, f. 14. ágúst 1979, kona hans er Ásgerður Drífa Stefánsdóttir, f. 17. febrúar 1983. Sonur Valdimars er Aron Daði, f. 21. júní 2006.
Valur tók sveinspróf í húsasmíði/brúarsmíði auk þess sem hann lauk raungreinadeild Tækniskóla Íslands. Síðar lauk hann prófi sem húsasmíðameistari og starfaði við húsbyggingar nokkur ár, m.a. við byggingar Öryrkjabandalags Íslands. Hann starfaði í áratugi hjá Áburðarverksmiðjunni og síðustu áratugi vann hann sem umsjónamaður fasteigna hjá Brynju leigufélagi. Valur var virkur í ýmsum íþróttum og félagsstarfi.
Útför Vals fer fram frá Seljakirkju í dag, 15. janúar 2025, klukkan 13.
Það var mikið áfall að okkar ástkæri bróðir Valur Leonhard lést skyndilega nú um jólin.
Valur ólst upp fyrstu árin á Barónsstíg 31, í fjölskylduhúsi sem afi og amma byggðu. Um sex ára aldur flutti hann í Laugarnesið þar sem hann bjó ásamt fjölskyldu sinni næstu árin. Hann fór ungur í sveit og þar var hann flest sumur á Skammbeinsstöðum í Holtum, hjá góðu fólki. Um sextán ára aldur var Valur kominn á samning í húsasmíði hjá brúarsmiðnum Jónasi Gíslasyni og vann við brúarsmíðar víða um land fram um tvítugt. Frá unglingsárum hafði hann mikinn áhuga á hvers kyns íþróttum og keppti í júdó og frjálsum íþróttum auk knattspyrnu.
Valur kynntist ungur að árum lífsförunaut sínum Kristínu Magneu Eggertsdóttur og giftust þau 1974. Um líkt leyti byggðu þau sér af miklum dugnaði íbúð í Engjaseli og nokkru síðar hús í Jakaseli. Á þessum árum fæddust synirnir Árni Snorri og Valdimar Lárus. Valur og Kristín voru alla tíð einstaklega samhent í öllu sem þau gerðu. Var þá sama hvort um var að ræða dans, skíðaiðkun, golf eða ferðalög innanlands sem utan. Valur starfaði jafnan af metnaði og vandvirkni við það sem hann tók sér fyrir hendur. Gilti þá einu hvort um var að ræða leik eða störf. Hann æfði gönguskíði og keppti á Íslandsmótum í þeirri grein í nokkur ár. Um tíma var fjölskyldan öll mjög virk í skíðaíþróttinni og tengdist það þátttöku í skíðadeild ungtemplarafélagsins Hrannar og ekki síst uppbyggingu deildarinnar á skíðaskála í Skálafelli. Valur og Kristín undu sér vel í þessum samheldna hópi. Eftir að Valur kynntist golfíþróttinni fyrir meira en þrjátíu árum varð ekki aftur snúið. Hann tók ástfóstri við þessa íþrótt og eftir að Kristín fór að taka þátt var ferðast víða um land og erlendis. Miðuðust sumarfrí við Íslandsmót í golfi í nokkur ár. Áttu þau bíl með pallhýsi um tíma og ferðuðust milli golfvalla.
Við systkinin fórum saman nokkrar ferðir um hálendið. Eftirminnileg er ferð á Strandir og eina afmælisferð fórum við til Toscana á Ítalíu fyrir nokkrum árum. Valur hafði frá unga aldri gleði af teikningu og var frístundamálun eitt af því sem hann ástundaði í langan tíma. Það var mikið áfall fyrir hann er Kristín veiktist og lést fyrir átta árum. Þau höfðu þá eytt nær öllum stundum saman frá unga aldri. Eftir að Valur varð einn sinnti hann auk vinnu áhugamálum sínum og fékk um tíma mikinn áhuga á hjólreiðum. Hjólaði meðal annars Jakobsveginn á Spáni ásamt félögum sínum á síðasta vinnustað sínum, sem var Brynja leigufélag.
Valur bjó undanfarið með vinkonu sinni Steinunni Steinars og var hamingjusamur síðustu mánuðina í þessu jarðlífi.
Elsku Árni Snorri, Valdimar og fjölskyldur, við sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Héðinn, Margrét, Ingibjörg.
Í dag kveðjum við kæran æskuvin og félaga, hann Val, sem kvaddi okkur allt of fljótt. Við vorum guttar af Kleppsvegi, Selvogsgrunni og nágrenni og Valur var þar í ákveðinni forystu. Hann var góður félagi með mjúka og jafna lund. Það var ekki hans að fara í fýlu eða vera með leiðindi eins og við hinir áttum kannski til.
Hann var okkur mikil fyrirmynd í æsku, sannkölluð ímynd hreysti, styrks og gleði. Hann var uppátækjasamur en aldrei hrekkjóttur. Hann var naskur á broslegu hliðarnar og kom þá gjarnan með lúmsk skot sem gott var að hlæja að.
Okkar blómatími var frá því að okkur var sleppt að heiman og fram yfir fermingu. Leikvöllurinn var svæðið við Kleppsveg milli Kassagerðar og Vatnagarða og nánasta umhverfi þess, þar sem nú er Sundahöfn.
Og það var margt brallað. Við lékum bófahasar í holtinu við Laugarásbíó. Og spiluðum fótbolta á túninu við Hrafnistu þar til Lási kokkur kom og rak okkur burt.
Á sumrin vorum við í sveit. Valur var á Skammbeinsstöðum. Það þótti flott bæjarnafn.
Við vorum með dúfur sem við veiddum í létta trékassa og byggðum fyrir þær veglega dúfnakofa. Það dugði að loka þær inni í örfáa daga til þess að þær yrðu heimakærar.
Við stofnuðum íþróttafélagið Fálkann, völdum félaginu búning og létum prjóna á okkur sokka í félagslit.
Við komum okkur upp æfingasvæði fyrir frjálsar íþróttir. Þar var útbúin sandgryfja fyrir allar helstu stökkgreinar frjálsra íþrótta. Við fórum í strætó niður á Granda að kaupa langa bambusstöng í Ellingsen til þess að geta æft stangarstökk. Og svo voru haldin mót.
Og áramótabrennan okkar, sem við hlóðum á hverju ári, var virkilega glæsileg. Auðvitað þurfti að fá einhvern pabba til þess að vera ábyrgðarmaður fyrir brennunni en það var bara til málamynda. Auðvitað var Valur hinn eiginlegi brennustjóri. Hann kveikti eldinn og fóðraði hann með því að skvetta á hann olíu.
Eitt vorið fylltist fjaran á Viðeyjarsundi af ígulkerjum. Það þótti okkur hinn mesti fengur og veiddum/hirtum sem mest við máttum og færðum heim. En þar sem við vorum ekki vel að okkur í ígulkerjavinnslu enduðu þau sem úldin fiskifýla fram eftir sumri.
Hvert laugardagskvöld yfir veturinn mættum við heima hjá einum félaganum með kók og epli og spjölluðum, fórum í leiki eða spiluðum hin ýmsu spil. Þetta kölluðum við Fundi.
Valur starfaði alla tíð með Íþróttafélaginu Hrönn og átti stóran þátt í að byggja upp aðstöðu þess í Skálafelli. Hann æfði stíft skíðagöngu og golf og tók þátt í mörgum mótum í báðum greinum.
Við vorum sjö, félagarnir sem mynduðum harðan kjarna. Þrír eru farnir, þeir Gunni, og Elli Stóri. Og núna Valur.
Við félagarnir, Elli, Siggi og Kristján, munum sakna hans sárt og vottum ástvinum Vals innilega samúð.
Óskar Elvar, Sigurður og Kristján.
Við andlát Vals vinar okkar koma upp í hugann minningar um góðan dreng. Fjölskylduföður sem lagði rækt við fólkið sitt. Minningar um samveru og vinskap.
Upphaf vináttunnar má rekja til sjötta áratugar síðustu aldar í frjálsíþróttadeild Ármanns. Þar lék Valur sér að því að vinna stangarstökk í unglinga- og drengjaflokkum. Í framhaldinu og fram til síðustu daga vorum við samherjar í fjölbreyttu félagsstarfi, ferðalögum, dansi, hittingi fjölskyldna, örferðum og útivist af ýmsu tagi. Ekki má gleyma þátttöku í íþróttum þar sem Valur lék lykilhlutverk í keppni í þriðju deildinni í fótbolta og skíðagöngu.Dans og skemmtanir voru oftar en ekki á fyrri árum í Templarahöllinni og ýmis félagsstörf iðkuð uppi í risi á Bárugötu 11, í litlum sal sem fenginn var á leigu eitt kvöld í viku. Þessi starfsemi var á vegum okkar unga fólksins og félagið nefndist Ungtemplarafélagið Hrönn. Í þessu umhverfi tókust kynni þeirra Kristínar og Vals. Þau kynni leiddu til farsæls hjónabands. Það var honum því mikið áfall þegar Kristín féll frá á besta aldri fyrir átta árum.
Árið 1970 tók við bygging skíðaskála í Skálafelli og iðkun skíðaíþróttarinnar innan lands og utan. Á sumrin voru svo haldin mót í Galtalækjarskógi. Á þessum vettvangi höfum við átt fjölda samverustunda í leik og starfi.
Samhliða byggingu skíðaskálans var þetta unga fólk að stofna heimili, kaupa sínar fyrstu íbúðir og byggja hús.
Skíðaiðkunin fór samt fram af fullum krafti. Valur lét ekki sitt eftir liggja og var keppnismaður á gönguskíðum og sjálfboðaliði við æfingar í fjölda ára. Valur studdi Kristínu eiginkonu sína af fullum krafti í störfum fyrir Skíðaráð Reykjavíkur og Skíðasamband Íslands þar sem hún sat í stjórnum um árabil fyrir okkar félag.
Þegar um hægðist einbeitti Valur sér að golfi og tók þar stöðugum framförum.
Vinahópurinn hittist síðast á aðventukvöldi skömmu fyrir jól. Þangað kom Valur ásamt vinkonu sinni henni Steinunni sem hann hefur verið að kynna fyrir okkur. Engan grunaði að þarna væri okkar síðasta samverustund.
Við í íþróttafélaginu Hrönn syrgjum góðan vin og á kveðjustundu sendum við einlægar samúðarkveðjur til allra ástvina Vals. Blessuð sé minning Vals Valdimarssonar.
Guðmundur Einarsson,
Vilborg Runólfsdóttir.