Viðtal
Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
He Rulong, sendiherra Kína á Íslandi, segir Íslendinga ekki hafa neina ástæðu til að tortryggja áhuga kínverskra stjórnvalda á auknu samstarfi við Íslendinga.
Tilefnið er að Carrin F. Patman, fráfarandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, sagði í samtali við Morgunblaðið síðasta laugardag að Íslendingar þyrftu að gæta varúðar í samskiptum sínum við Kína. Við það tilefni sagði Patman orðrétt:
„Ráðamenn í Kína vilja að Kína verði hið ráðandi heimsveldi. Vilja hafa stærsta her heimsins. Og allur tæknibúnaður sem Kínverjar setja upp felur í sér möguleikann á söfnun gagna. Það eru jafnvel lög í Kína sem mæla fyrir um að stjórnvöld geti beðið Huawei, eða hvaða annað fyrirtæki sem er sem safnar gögnum, að afhenda stjórnvöldum gögnin. Þetta tel ég að við þurfum öll að hafa hugfast þegar Kínverjar vilja fjárfesta á Íslandi,“ sagði Patman í viðtalinu.
Sameiginleg framtíð
He segir þessi ummæli bandaríska sendiherrans hafa vakið athygli.
„Við tókum eftir þessu. Og við teljum að Carrin sé mjög góður samstarfsmaður í samfélagi diplómata hér á Íslandi og óskum henni alls hins besta þegar sendiherratíð hennar lýkur á Íslandi. Hún ræddi metnað Kínverja. Ég tel mikilvægt að fólki skilji hver er hinn raunverulegi metnaður Kínverja. Hvernig sér fólk Kína? Ef horft er á Kína með vissum gleraugum gæti fólk fengið aðra mynd af landinu. Við hvetjum fólk til að heimsækja Kína og sjá hvernig Kína raunverulega er. Hvað varðar metnað Kínverja ber fyrst að nefna að Xi Jinping Kínaforseti hefur gert skýra grein fyrir því að metnaður kínverskra stjórnvalda, heima fyrir, er að tryggja að lífsskilyrði fólks séu betri í dag en þau voru í gær. Staðreyndin er sú að Kína hefur lyft um 800 milljónum manna úr fátækt sem er stórkostlegt afrek, ekki aðeins fyrir Kína, heldur heiminn allan. Raunar tel ég að metnaður Kínverja á alþjóðavettvangi standi til þess að byggja upp samfélag með sameiginlega framtíð fyrir mannkyn allt,“ segir He.
Erum öll í sömu áhöfn
Kínverjar líti svo á að sérhvert land og sérhver manneskja séu hluti sömu áhafnar á sama báti sem standi frammi fyrir mörgum áskorunum, hvort heldur er náttúruhamförum eða manngerðum heimspólitískum átökum.
„Besta leiðin fram á við er að taka höndum saman og byggja betri framtíð. Það hafa helstu forystumenn Kína sagt skýrt á alþjóðlegum vettvangi, á borð við Sameinuðu þjóðirnar, og hvert sem þeir fara á ferðum sínum. En að sjálfsögðu kann þetta að vera þeim hulið sem sjá heiminn og metnað Kína með vissum gleraugum. Við verðum hins vegar að skilja að þegar kemur að hermálum má spyrja: hvaða þjóð hefur mesta heraflann miðað við mannfjölda? Hvaða ríki ver mestu til hermála?“ spyr He.
En hafa stjórnvöld í Kína orðið vör við viðleitni Bandaríkjastjórnar til að þrýsta á Ísland að eiga ekki í samstarfi við Kína?
„Í fyrsta lagi lítum við svo á að Ísland sé sjálfstætt ríki. Ef eitthvert sjálfstætt ríki er þvingað til að taka ákvarðanir er það mikið áhyggjuefni fyrir heiminn. Kína hagar, eins og sjá má, ekki alþjóðasamskiptum sínum á þann veg. Við virðum Ísland sem sjálfstætt ríki sem standi á eigin fótum og taki eigin ákvarðanir. Ég tel að tvíhliða samvinna Kína við önnur ríki hafi skilað miklum gagnkvæmum ávinningi, sem aftur byggist á gagnkvæmum samningum milli ríkja og að almenningur og ríki heims hafi vilja og hvata til að stuðla að slíkri samvinnu í þágu almennings. Því tel ég að kínversk stjórnvöld séu ekki í stöðu til að tjá sig um hvort bandarísk stjórnvöld beiti Ísland þrýstingi en sú skuldbinding okkar hefur staðið lengi að við þvingum ekki ríki, þ.m.t. smáríki, til að taka afstöðu. Við skiljum að á hinum alþjóðlega vettvangi upplifa svo mörg ríki að þau séu beitt þrýstingi til að skipa sér í fylkingar. Við virðum íslensku þjóðina og vonum að Ísland geti tekið sjálfstæðar ákvarðanir sem sjálfstætt ríki.“
Tæknin sé til góðs
He víkur svo að ummælum bandaríska sendiherrans um kínverska fjarskiptarisann Huawei.
„Getið hefur verið um fyrirtæki á borð við Huawei. Ég tel að öll kínversk alþjóðafyrirtæki fylgi alþjóðlegum reglum og lögum hvers ríkis sem í hlut á. Ef kínverskt tæknifyrirtæki starfar til dæmis á Íslandi ætti það í fyrsta lagi að fylgja lögum landsins og í öðru lagi alþjóðlegum reglum. Og Huawei sagði skýrt að fyrirtækið gæti undirritað öryggisskilmála til að tryggja að það væru engar bakdyr fyrir Huawei eða nokkurt annað fyrirtæki í heiminum,“ segir He. Með því vísar hann til ummæla Mike Pence, þáverandi varaforseta Bandaríkjanna, í heimsókn til Íslands árið 2019 um meintar bakdyr í fjarskiptakerfi Huawei.
He er næst spurður út í ummæli Vals Ingimundarsonar, prófessors í sagnfræði við Háskóla Íslands, í Morgunblaðinu 21. desember sl. varðandi tortryggni bandarískra stjórnvalda í garð samstarfs Íslands og Kína á Kárhóli.
„Við höfum sagt það skýrt frá fyrsta degi að þetta samstarfsverkefni milli Kína og Íslands einskorðast ekki við ríkin tvö heldur er það vettvangur sem er opinn fyrir alþjóðlegt samstarf. Það gæti verið opið fyrir þriðja ríki, eða til dæmis ESB, og aðra rannsakendur og vísindamenn. Ég tel að það sé ekkert að fela í slíku samstarfi Kína og Íslands á Kárhóli. Tel að við ættum að nálgast þetta mál út frá vísindum og á gagnsæjan hátt,“ segir He sem vill nota tækifærið til að óska nýrri ríkisstjórn á Íslandi heilla. Þá vill hann koma á framfæri þakklæti til Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, nýs utanríkisráðherra Íslands, fyrir að hafa sent Kínverjum samúðarkveðjur vegna mannskæðs jarðskjálfta í Kína í byrjun árs.
„Það varð mannfall og eignatjón og við kunnum að meta að utanríkisráðherra ykkar skuli hafa sent samúðarkveðjur á reikningi sínum á X [áður Twitter],“ segir He sem vill jafnframt nota tækifærið til að kynna kínverska menningu á Íslandi með samkomu í Háskólabíói 24. janúar nk. en þar muni kínverskir listamenn leika listir sínar í tilefni kínverska nýársins á ári snáksins. Allur ágóði af sýningunni muni renna til Landsbjargar en með því vilji Kínverjar sýna hug sinn til Íslendinga í verki.