Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Það er dapurlegt að horfa upp á þau vandræði sem borgaryfirvöld hafa komið sér í varðandi nokkur skipulagsmál í borginni.
Álfabakkinn
Vandræðagangurinn, mistökin og klúðrið vegna risastórrar iðnaðarskemmu við Álfabakka er með þeim hætti að erfitt er að átta sig á hvernig svona getur gerst í stjórnsýslu borgarinnar og hjá kjörnum fulltrúum. Erfitt er að líka að sjá fyrir sér hvaða lausnir eru í sjónmáli gagnvart íbúum, byggingaraðila og rekstraraðilum. Alveg sama hvaða lausn næst fram mun hún eflaust hafa í för með sér gríðarleg fjárútlát fyrir borgarsjóð.
Grafarvogurinn
Nýlega framkomnar hugmyndir borgarstjóra um þéttingu byggðar í Grafarvogi hafa vakið hörð viðbrögð íbúa í þessu gamalgróna og góða hverfi og telja þeir að verið sé að skerða aðgang að útivistar- og grænum svæðum. Það er eins og borgaryfirvöld leiti með logandi ljósi að opnum og grænum svæðum, þar sem hægt er að þétta byggð og úthluta lóðum til byggingaraðila.
Laugardalurinn
Laugardalurinn er frábært svæði fyrir íþróttastarf fyrir börn og unglinga, afreksfólk og almenning. Þangað sækja og munu sækja borgarbúar og raunar landsmenn allir til að eiga uppbyggilegar ánægjustundir. Nú er fyrirhugað að ráðast í endurbætur á Laugardalsvelli sem þjóðarleikvangi fyrir knattspyrnu, koma upp þjóðarhöll fyrir inniíþróttir og þjóðarleikvangi fyrir frjálsar íþróttir. Á sama tíma koma upp hugmyndir hjá borgaryfirvöldum um byggingu skóla í miðjum Laugardalnum, þvert á áður framkomnar hugmyndir fyrir tveimur árum.
Vandséð er hvernig slíkri byggingu verður fyrir komið á þeim stað sem tillögur liggja fyrir um.
Íbúar, íþróttafélög, foreldrar og aðrir hagsmunaaðilar hafa greinilega ekki verið hafðir með í ráðum hvað þetta varðar, enda hafa allir aðilar risið upp og mótmælt þessum áformum harðlega og skilað athugasemdum sínum til borgaryfirvalda.
Engu að síður virðast borgaryfirvöld ætla sér að keyra þetta mál áfram í óþökk allra.
Þéttingin
Þéttingarstefna borgarinnar á liðnum árum kemur núna illa í bakið á borgaryfirvöldum. Íbúar gera sér góða grein fyrir því að útsýni, birta, sólarljós og gæði umhverfis skipta miklu máli og augljóslega meira máli en borgaryfirvöld gera sér grein fyrir. Nýlegt dæmi um þetta eru breytingar á skipulagi við Hringbraut og Hlíðarenda, þar sem íbúar vakna upp við vondan draum og telja að framkomnar hugmyndir muni skerða lífsgæði þeirra. Það er mikilvægt að þétting byggðar taki mið af sjónarmiðum og hagsmunum íbúa.
Öskjuhlíðin
Nú kemur í ljós, nokkru eftir að borgaryfirvöld hafa framlengt starfsleyfi Reykjavíkurflugvallar til átta ára, að flugöryggi farþega og flugrekstraraðila er ógnað. Loka þarf einni flugbraut flugvallarins, þar sem borgaryfirvöld treysta sér ekki til þess að verða við ábendingum um aðgerðir til að tryggja flugöryggi á Reykjavíkurflugvelli fyrir alla landsmenn.
Við viljum
Kjörnum fulltrúum meirihlutans í borgarstjórn væri hollt og raunar gagnlegt að kynna sér betur samstarfssáttmála Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar, en þar kemur meðal annars fram:
Við viljum að Reykjavík sé græn og falleg
Við ætlum að standa vörð um græn svæði í borginni og þróa þau enn frekar
Við viljum stunda markvisst samráð við hagsmunaaðila innan ráða, nefnda, dótturfyrirtækja og byggðasamlaga
Við ætlum að stuðla að bættri endurgjöf til íbúa vegna ábendinga
Við viljum nýta ábendingar markvisst til að bæta ferla og þjónustu
Ofangreindar viljayfirlýsingar meirihlutans eru að mestu yfirlýsingar sem meirihlutinn gerir lítið með.
Borgaryfirvöldum virðist vera einkar lagið þessa dagana að fá íbúa borgarinnar, um alla borg, upp á móti sér, hafa lítið samráð við hagsmunaaðila, nýta sér ekki ábendingar íbúa og endurgjöf til íbúa er lítil sem engin. Samstarf og samtal við borgarbúa er nauðsynlegt til að blómlegt mannlíf geti þróast í borgarsamfélaginu með eðlilegum hætti til framtíðar.
Höfundur er fv. borgarstjóri.