Liverpool er áfram með sex stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir jafntefli gegn Nottingham Forest, 1:1, í toppslag liðanna á City Ground í Nottingham í gærkvöld.
Framganga Forest í vetur hefur verið gríðarlega óvænt og liðið er það eina sem hefur sigrað Liverpool á tímabilinu. Chris Wood hefur verið liðinu ákaflega dýrmætur og hann kom Forest yfir strax á 7. mínútu með sínu 13. marki í deildinni.
Liverpool sótti linnulítið í síðari hálfleik og náði að jafna á 66. mínútu. Diogo Jota og Kostas Tsimikas komu þá inn á sem varamenn, Tsimikas fór beint og tók hornspyrnu, sendi boltann á Jota sem skoraði með skalla, 1:1. Matz Sels átti stórleik í marki Forest og kom í veg fyrir að Liverpool hirti öll þrjú stigin.
Forest er þá í öðru sæti deildarinnar, stigi fyrir ofan Arsenal sem tekur á móti Tottenham í kvöld og getur minnkað forskot Liverpool niður í fjögur stig.
James bjargvættur Chelsea
Reece James bjargaði stigi fyrir Chelsea gegn Bournemouth þegar hann jafnaði metin í 2:2 með marki beint úr aukaspyrnu í uppbótartíma á Stamford Bridge. Chelsea náði þar með ekki að nýta sér stigamissi toppliðanna til að koma sér nær þeim.
Yoane Wissa og Christian Norgaard skoruðu fyrir Brentford undir lokin gegn Manchester City og jöfnuðu, 2:2. Allt stefndi í sigur City eftir að Phil Foden kom liðinu í 2:0 með tveimur mörkum í síðari hálfleiknum. City er fyrir vikið áfram í sjötta sætinu.
Graham Potter stýrði West Ham til sigurs í sínum fyrsta leik með liðið í deildinni, 3:2 gegn Fulham. Tvö marka West Ham voru hreinar gjafir eftir misheppnað spil Fulham út úr eigin vítateig.