Alls voru þingmönnum utan Reykjavíkurkjördæmanna og Suðvesturkjördæmis greiddar 138,7 milljónir króna í húsnæðis- og dvalarkostnað á síðasta kjörtímabili, en 25 þingmenn fengu þessar greiðslur á grundvelli reglna Alþingis um þingfararkostnað

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Alls voru þingmönnum utan Reykjavíkurkjördæmanna og Suðvesturkjördæmis greiddar 138,7 milljónir króna í húsnæðis- og dvalarkostnað á síðasta kjörtímabili, en 25 þingmenn fengu þessar greiðslur á grundvelli reglna Alþingis um þingfararkostnað. Upphæðin nemur 185.500 krónum á mánuði skv. gildandi reglum. Þetta kemur fram í svari skrifstofu Alþingis við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Reglur Alþingis hvað þetta varðar mæla fyrir um aukagreiðslur til þingmanna m.a. vegna húsnæðis- og dvalarkostnaðar, ferðakostnaðar, kostnaðar vegna funda og ýmiss starfskostnaðar.

Á grundvelli reglnanna fengu 12 þingmenn sem heimili áttu utan höfuðborgarsvæðisins greiddar 16,2 milljónir króna vegna daglegra ferða milli heimilis og Reykjavíkur um þingtímann.

Í reglunum er kveðið á um að eigi alþingismaður aðalheimili utan höfuðborgarsvæðis og haldi annað heimili í Reykjavík geti hann óskað eftir að fá greitt 40% álag á mánaðarlegan húsnæðis- og dvalarkostnað, þ.e. 74.200 krónur. Með „aðalheimili“ þingmanns samkvæmt þessu ákvæði er átt við skráð íbúðarhúsnæði sem er aðsetur þingmannsins í kjördæminu og hann á eða hefur á leigu, hefur kostnað af allt árið og nýtir til búsetu. Alls fengu 15 þingmenn þessar greiðslur á síðasta kjörtímabili og voru greiddar 34,8 milljónir til þeirra.

Reglurnar mæla fyrir um að alþingismaður fái mánaðarlega greiddar 41.500 krónur í fastan ferðakostnað og er fjárhæðinni ætlað að standa undir ferðakostnaði í næsta nágrenni heimilis eða starfsstöðvar, auk dvalarkostnaðar á ferðalögum í kjördæmi. Alls þáðu 55 þingmenn þessar greiðslur og nam heildarupphæðin 71,2 milljónum.

Þegar kemur að endurgreiddum ferðakostnaði, þingfararkostnaði og kostnaði af fundarferðum voru alls greiddar 87,5 milljónir vegna þessa og fengu 56 þingmenn slíkar greiðslur. Þá fengu 26 þingmenn greiddar samtals 20,5 milljónir vegna aksturs eigin bifreiðar. Þegar kemur að kostnaði vegna bílaleigubíla sem þingmenn tóku á leigu voru greiddar samtals 98,5 milljónir vegna þess, en 85% þeirrar upphæðar voru tilkomin vegna bílaleigubíla í langtímaleigu. Þingmenn sem annaðhvort voru með bíla í langtíma- eða skammtímaleigu voru 51.

Heimilt er skv. reglunum að greiða ferðakostnað í aðdraganda þingkosninga og var greidd 1,1 milljón í því skyni í kjölfar síðustu þingkosninga, en níu þingmenn þáðu slíkar greiðslur.

Alþingi greiðir það sem kallað er „eðlilegur“ farsímakostnaður þingmanna, en greidd var 22,1 milljón vegna þess. Eðlilegur kostnaður við farsíma telst vera kostnaður annar en upplýsinga- og þjónustunúmer, segir í svari skrifstofu Alþingis.

Þá fá þingmenn greiddan starfskostnað, þ.e. kostnað sem af störfum þeirra hlýst, og voru greiddar 94,5 milljónir vegna þess á síðasta kjörtímabili.

Samkvæmt framansögðu fengu þingmenn á síðasta kjörtímabili greiddar 486,6 milljónir í margvíslegan kostnað sem að framan greinir, ásamt því að Alþingi greiddi 98,5 milljónir vegna notkunar þeirra á bílum sem ýmist voru í skammtíma- eða langtímaleigu.