Hafliði Jóhann Ásgrímsson fæddist 15. janúar 1959. Hann lést 6. ágúst 2024.

Útför fór fram í kyrrþey í Fossvogskapellu 19. ágúst 2024.

Hafliði vinur minn síðan úr æsku sem lést 6. ágúst á síðasta ári hefði orðið 66 ára 15. janúar. Útför hans hefur farið fram í kyrrþey að viðstaddri nánustu fjölskyldu og vinum.

Við vorum nágrannar í suðurhlíðum Kópavogs og gengum í Kópavogsskóla, síðan Víghólaskóla og seinna fórum við ásamt fáeinum öðrum Kópavogsbúum í MH í stað MK sem lá beinast við.

Hafliði var prótótýpa hins efnilega unglings, vel gefinn og átti auðvelt með að tileinka sér námsefni hvort sem var eðlisfræði, stærðfræði, bókmenntir eða heimspeki sem dæmi. Undir niðri var þó tilhneiging til þráhyggju, kvíða og þunglyndis sem átti eftir að ágerast en í MH og síðar í líffræði í HÍ átt hann sitt blómaskeið, námslega og félagslega.

Eftir háskólanám á árdögum tölvualdar lærði hann forritun sem hann samnýtti við rannsóknarvinnu í lífeðlisfræði undir handleiðslu Magnúsar Jóhannssonar læknis og fleiri frumkvöðla á því sviði. Minnisstæðar eru vinnuferðir hans til Lundar í Svíþjóð þar sem hann varð aufúsugestur hjá okkur Siggu um árabil.

Eftir heimkomu héldum við alltaf tengslum, Hafliði kom í heimsóknir og lék oft á als oddi. Hann hafði næma skynjun listamannsins á umhverfið og sá iðulega allt aðra vinkla á mönnum og málefnum en manni gat dottið í hug. Hann skrifaði, málaði og samdi jafnvel tónlist en það var ekki til í hans skapgerð að koma því á framfæri. Lítillæti og hógværð einkenndu viðhorf hans.

Þegar leið á æviskeið Hafliða var eins og fjaraði undan honum, hann réð verr við áreiti hversdagsins og einangraðist. Dugði þar skammt dyggur stuðningur systur hans Sólveigar og Páls mágs hans. Hann fór að vinna íhlaupavinnu og smám saman tók áfengissýki völdin og dró hann til dauða fyrir aldur fram. Það er margs að minnast en fyrst og fremst er ég þakklátur Hafliða fyrir að hafa víkkað sjóndeildarhring minn allar götur frá því er við sem unglingar hlustuðum á „þróað rokk“, fórum svo yfir í pönkið og lásum vel valdar bækur eins og Án titils eftir Einar Guðmundsson „litlaskáld“.

Við Sigga sendum ættingjum og vinum samúðarkveðjur við fráfall einstaks manns.

Ólafur Ó. Guðmundsson.