Í Zagreb
Jóhann Ingi Hafþórsson
johanningi@mbl.is
Eyjamaðurinn Elliði Snær Viðarsson verður með fyrirliðabandið í fyrstu leikjum Íslands á HM í handbolta í fjarveru Arons Pálmarssonar sem er meiddur. Elliði, sem leikur með Gummersbach í Þýskalandi, var í fyrsta skipti með bandið í vináttuleikjunum við Svíþjóð í undirbúningi fyrir HM.
„Fyrri leikurinn var mjög góður hjá liðinu en hann hefði mátt vera aðeins lengri hjá mér,“ sagði Elliði léttur við Morgunblaðið á hóteli landsliðsins í Zagreb, höfuðborg Króatíu, þar sem riðill og milliriðill Íslands fara fram.
Elliði fékk rautt spjald skömmu eftir að hann kom inn á í fyrri leiknum við Svíþjóð, sem var hans fyrsti leikur sem fyrirliði. Liðin skildu jöfn í fyrri leiknum í Kristianstad og Svíþjóð vann tveggja marka sigur í seinni leiknum í Malmö.
„Það var fullt af góðum hlutum og líka hlutum sem má bæta. Það má segja að við höfum gert góð mistök því Slóvenar spila svipaðan sóknarleik og Svíar og við lærum af mistökunum sem við gerðum á móti sænska liðinu. Leikirnir við Svíþjóð voru mjög gott verkefni til að einbeita okkur að okkur sjálfum,“ sagði Elliði.
Entist í fimm mínútur
Hann var skiljanlega svekktur að fá rautt spjald í frumrauninni sem fyrirliði.
„Ég var búinn að vera inni á í fimm mínútur og það var svekkjandi að fá þetta rauða spjald. Það er alltaf leiðinlegt að fá rautt spjald og sérstaklega í leik sem þú vilt muna eftir. Ég mun svo sem ekki gleyma þessu rauða spjaldi. Arnar og Ýmir voru frábærir eftir að ég fékk fór af velli, skoruðu mikið og klikkuðu ekki á skoti. Það má segja að rauða spjaldið hafi haft góð áhrif.“ Arnar Freyr Arnarsson spilaði vel í fjarveru Elliða í fyrri leiknum gegn Svíþjóð, þar til hann tognaði aftan í læri. Arnar missir af HM vegna meiðslanna.
„Það er hundleiðinlegt fyrir hann að lenda í þessu stuttu fyrir mót. Hann var að spila vel í leiknum. Það er alltaf ömurlegt að meiðast og hvað þá svona stuttu fyrir stórmót þegar þú ert kominn með þefinn af mótinu í nasirnar,“ sagði hann.
En hvað þýðir það fyrir Elliða að vera landsliðsfyrirliði?
„Það er ótrúlega mikill heiður og mesti heiður sem til er þegar þú ert landsliðsmaður. Það að bera þetta band í fjarveru Arons í nokkra leiki er eitthvað sem ég mun muna eftir til æviloka. Ég var ekkert búinn að hugsa út í þetta.
Ég var alltaf með það á bak við eyrað að Aron kæmi aftur og þegar hann datt út var ég ekkert að pæla í þessu. Guðjón Valur hringdi í mig um daginn og spurði hvort ég væri orðinn fyrirliði en svo hugsaði ég ekkert meira út í það. Núna er það raunin og það er ótrúlega gaman,“ sagði Elliði, sem er spenntur að leiða íslenska liðið út í fyrsta leik.
„Ég vil ekki hugsa mikið um það en á leikdegi fer ég að spá í hvað maður á að segja þegar við tökum hringinn fyrir leik og svona litlir hlutir. Það verður stórt augnablik fyrir mig að leiða liðið inn á völlinn,“ sagði Elliði.
Fyrstu tveir leikir Íslands verða gegn Grænhöfðaeyjum og Kúbu. Með sigrum þar leika Ísland og Slóvenía væntanlega úrslitaleik um efsta sæti riðilsins og tvö stig í milliriðli.
„Við höfum öllu að tapa í fyrstu tveimur leikjunum. Ef við komum ekki 100 prósent inn í leikinn þá getur þetta litið illa út. Við þurfum að byrja á að tækla þá tvo en leikurinn við Slóveníu er á bak við eyrað. Við viljum spila tvo leiki og undirbúa okkur vel fyrir Slóvenana. Slóvenarnir eru svo í sama pakka og það eru allir að bíða eftir þeim leik. Við þurfum að byrja þetta mót vel og vera vel undirbúnir fyrir leikinn við Slóveníu,“ sagði hann.